dk hefur verið leiðandi fyrirtæki síðustu 20 árin á sviði viðskiptakerfa fyrir stór og smá fyrirtæki. Hjá dk starfa um 63 starfsmenn og er skipuritið frekar flatt þannig að fólk vinnur náið saman og oft þvert á deildir. Í lok árs 2020 var fyrirtækið keypt af hollenska fyrirtækinu Total Specific Solutions. Þessar eigendabreytingar, ásamt ástandinu sem Covid skapaði, hefur gert það að verkum að áherslur hvað varðar mannauð og ferla hafa breyst töluvert, segir Linda B. Stefánsdóttir, mannauðsstjóri dk. „Virði dk er að mestum hluta falið í samheldnum hópi af vel menntuðu fólki, starfsmannavelta er almennt lág og vinnuandinn er mjög góður. Starfsfólk hefur hingað til litið á sig sem hluta af stórri fjölskyldu og þannig viljum við hafa það áfram en með stækkandi fyrirtæki þarf oft að gera hlutina öðruvísi til að halda í eða að ná fram þeirri menningu sem framtíðarsýnin byggir á svo starfsfólki líði vel, en vellíðan starfsmanna er jú lykillinn að farsæld fyrirtækja.“

Aukin áhersla á mannauðsmálin

Linda segir miklar breytingar í gangi hjá fyrirtækinu. Starfsfólkið sé hjartað í fyrirtækinu og lykillinn að árangri dk. „Því tókum við ákvörðun um að leggja aukna áherslu á mannauðsmálin og stefnumörkun í mannauðsmálum með þá framtíðarsýn að vera eftirsóttur vinnustaður sem gefur starfsfólki tækifæri til að vaxa og þróast í starfi. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta eru stór orð og til þess að geta staðið við þau höfum við virkilega þurft að rýna okkur á gagnrýnin hátt. Megin áherslur okkar í stefnumörkuninni eru:

■ Vellíðan og hamingja. Hér er áhersla okkar á umboð starfsmanna til athafna, hlusta, sýna áhuga og stuðning við starfsmenn.

■ Fagmennska og þekking þar sem við leggjum áherslu á fræðslu og starfsþróun.

■ Liðsheild og árangur. Við setjum okkur skýr markmið og leggjum okkur fram um að vinna sameiginlega að þeim.

■ Jafnrétti og fjölbreytileiki. Hver einstaklingur er einstakur og við eigum öll að hafa sömu tækifæri óháð því hvaðan við komum og fyrir hvað við stöndum.

■ Fjölbreytileikinn er mikilvægur og gefur okkur svigrúm til víðsýni og vaxtar.

Hún segir margt gott hafa komið út úr stefnumótun þeirra í mannauðsmálum. „Í dag erum við á þeirri vegferð að innleiða aðgerðir sem við teljum að geri góðan og skemmtilegan vinnustað enn eftirsóttari.“

Fjölbreytileiki að leiðarljósi

dk er eitt af þeim fyrirtækjum sem geta státað sig af einu hæsta hlutfalli kvenna hjá fyrirtækjum í upplýsingatækni sem og fjölda kvenna í stjórnunarstörfum innan fyrirtækisins. „Í dag er hlutfall kvenna rúm 40%, þar af eru sex af ellefu stjórnendum í fyrirtækinu konur,“ segir Linda sem brennur fyrir því að fá fleiri konur í upplýsingatæknigeirann en hún leiðir Vertonet, samtök kvenna í upplýsingatækni.

Undanfarið hefur dk unnið að jafnréttisstefnu fyrirtækisins þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika sem snýr að fleiru en jafnri stöðu kynja. „Fjölbreytileikinn getur skapað ólík sjónarhorn sem gerir okkur hæfari til að skilja viðskiptavini okkar. Við leitumst við að horfa til fjölbreyttrar þekkingar, reynslu og hæfni við ráðningu á starfsfólki. Þannig geta einstaklingar miðlað ólíkri þekkingu og reynslu og við lært hvert af öðru.“

Jafnlaunavottun á dagskrá

dk er að afla sér jafnlaunavottunar og hefur í tengslum við það þróað kerfi sem er hluti af launakerfi sem fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum upp á, að sögn Lindu. „Þetta kerfi gerir fyrirtækjum kleift að framkvæma launagreiningar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru um jafnlaunavottun.“ Kerfið byggir á opinberum leiðbeiningum um hvernig best sé að framkvæma launagreiningu í samræmi við staðalinn. „Þetta kerfi getur einfaldað vinnu við jafnlaunavottun umtalsvert og takmarkað þannig tímann sem annars fer í þessa vinnu sem að öllu jöfnu er mjög tímafrek en tíminn er jú okkur öllum dýrmætur. Það var mjög ánægjulegt að sjá að í launagreiningunni sem framkvæmd var í byrjun á vinnunni við jafnlaunavottun var óútskýrður launamunur mjög lítill.“

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Viðskiptavinir dk eru um sjö þúsund talsins og segir Linda mikilvægt að sýna þeim gott fordæmi og ábyrgð þegar kemur að sjálfbærni í eigin rekstri. „Aðgerðir okkar miða einnig að því að hjálpa viðskiptavinum okkar að stíga skref í átt að sjálfbærni með aukinni sjálfvirkni og tækniþróun á viðskiptalausnum okkar.“

Í lok síðasta árs ákvað dk að fara í samstarf við Markaðsstofu Kópavogs um að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Við töldum rétt að vera partur af samstarfi við fleiri aðila sem stefna að sama marki. Það gæti hjálpað okkur að ná árangri á skemmri tíma því eins og kannski flestir þekkja þá getur góð samvinna veitt ríkan stuðning. Það er svo auðvelt að týna sér í þeim verkefnum sem eru aðkallandi í amstri dagsins og gleyma þeim sem eru líka mikilvæg en munu þó að lokum gefa okkur tækifæri til að skara fram úr.“

Linda segir stjórnendur dk hafa ákveðið að vera skynsamir og byrja smátt. „Því völdum við fimm markmið til að byrja með sem hafa góðan samhljóm við þá stefnu sem við höfum verið að vinna að. Markmiðin sem við völdum eru Heilsa og vellíðan, Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Góð atvinna og hagvöxtur og Nýsköpun og uppbygging. Við erum komin prýðilega af stað en fyrir liggur mikil vinna sem krefur okkur um hugmyndaauðgi og framsýna hugsun,“ segir Linda að lokum.