„Bærinn skartar sínu fegursta í sumar og hefur verið lögð mikil áhersla á að snyrta hann vel og fegra. Blómaskreytingar hafa verið auknar undanfarin ár og við finnum að fólk kann vel að meta það. Litskrúðug blóm og snyrtilegt umhverfi hefur góð áhrif á okkur öll og er þakkavert hve íbúar sjálfir leggja mikið upp úr því að fegra hús sín og garða. Allt hefur þetta áhrif á bæjarbraginn og upplifun íbúa og gesta,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, en mjög margt er í boði í Firðinum í sumar.

Hvaleyrarvatn er ein af fjölmörgum perlum í upplandi Hafnarfjarðar. Mikið líf og fjör er þar á góðum dögum og umhverfið nýtt til útivistar allt árið um kring.

Styrkir fyrir listamenn

„Í ár verða svokallaðir ,,Bjartir dagar“ hattur fjölbreyttra viðburða og skemmtunar allt sumarið með tónleikum, myndlistarsýningum, fuglaskoðun, sögusýningum, leikskólalist, opnum vinnustofum listamanna, tilboðum í verslunum og fleiru. Ýmsir skemmtilegir viðburðir skjóta upp kollinum víðs vegar um bæinn, sem fylla bæinn lífi og list á þessum bjartasta tíma ársins,“ heldur Rósa áfram og bendir á að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkt aukna fjárveitingu í vor í ,,örstyrki“ til að styðja við listafólk sem hefur áhuga á að setja upp nokkurs konar ,,pop-up“ viðburði og lífga þannig upp á tilveruna, oft óvænt eða með stuttum fyrirvara, hvort sem er með tónlist, dansi eða gjörningi.

Hellisgerði er lystigarður Hafnarfjarðar. Hrauni prýddur garður sem bæði geymir fallegar minningar og býður upp á mikil tækifæri til upplifunar.

„Það er margt skemmtilegt sem komið hefur út úr því og ýmislegt fram undan sem við fáum að njóta. Listir og menning skipa mjög stórt hlutverk í bæjarlífinu,“ segir hún. „Í lista- og menningarmiðstöðinni Hafnarborg var nýlega opnuð sýningin ,,Hrynjandi“, sem er fyrsta sérsýning verka Guðmundu Andrésdóttur. Sýningin hefur fengið mjög góðar viðtökur og listunnendur mega ekki láta hana fram hjá sér fara. Þessa dagana stendur líka þar yfir ,,Sönghátíð í Hafnarborg“, þar sem ægifagrir tónar óma um salina enda mætt til leiks einstakt úrval tónlistarmanna með fjölbreytta dagskrá.

Hátíðin ber yfirskriftina ,,Seiglan“. ,,Sönghátíðin í Hafnarborg“ hefur heldur betur fengið verðskuldaða athygli og viðurkenningu en hátíðin fékk nú í vor fyrstu verðlaun sem tónlistarviðburður ársins 2020, þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt. Stórskemmtileg sýning „Kaupmaðurinn á horninu“ var nýverið opnuð í Byggðasafninu, en hún fjallar um sögu og þróun sem hófst í verslunarháttum í Hafnarfirði á þriðja áratug 20. aldar þegar segja má að þróast hafi litlar matvöruverslanir á öðru hverju götuhorni í bænum.

:Á Víðistaðatúni er tjaldsvæði Hafnarfjarðar, grillhús sem opið er öllum, útilistaverk, frisbígolf og fjölbreytt leiksvæði fyrir börnin með kastala, ærslabelg og aparólu. Þar geta allir fundið afþreyingu við hæfi.

Gengið til fróðleiks

Á meðal þess sem hægt er að njóta í sumar eru árlegu menningar- og heilsugöngurnar sem farnar eru alla miðvikudaga yfir hásumarið. Þar hefur heppnast mjög vel samstarf menningarstofnananna og heilsubæjarins, sem skipulagt hafa göngurnar og ákveðið fjölbreytt þemu og gönguleiðir.

Í lystigarðinum okkar, Hellisgerði, er Álfabúðin opin í sumar í hundrað ára gamla húsinu Oddrúnarbæ. Þar er einnig starfrækt lítið kaffihús þar sem mjög notalegt er að koma. Óvæntar uppákomur, ,,pop-up“ jóga og fleira skemmtilegt verður á dagskrá garðinum í sumar, sem vert er að fylgjast með. Á Strandstígnum, sem liggur með fram mynni Hafnarfjarðar, setur Byggðasafnið reglulega upp sýningar sem varpa ljósi á dagleg störf og sögu fólksins sem bæinn byggði, en þeirra er tilvalið að njóta um leið og heilsubótargangan er farin. Strandstígurinn er ein vinsælasta göngu- og hjólaleiðin í bænum enda þaðan fögur sýn til allra átta, yfir fallega, gamla bæinn og út á höfnina og hafið. Það er því ljóst að sumarbærinn Hafnarfjörður er menningarlegur, líflegur og fallegur,“ segir hún.

Dorgveiði á Flensborgarhöfn og Norðurbakka er vaxandi áhugamál í Hafnarfirði jafnt hjá stórum sem smáum. Tilvalið að skella sér í veiði, fá sér bolla og bakkelsi og kíkja á handverk, hönnun og list hjá listafólkinu á svæðinu.

Bjartir tónlistardagar

„Það sem líklega stendur upp úr þessa dagana er bæjar- og tónlistarhátíðin ,,Hjarta Hafnarfjarðar“ sem hefst í næstu viku, eða 7. júlí, á tónleikum okkar eina sanna Björgvins Halldórssonar. Síðan stíga á stokk hver stjarnan á fætur annarri og það í þrjár vikur, því hátíðin stendur yfir nánast allan júlímánuð að þessu sinni.

Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn og hefur hún vaxið með hverju árinu. Stóru veislutjaldi verður slegið upp bak við Bæjarbíó, þar sem risaskjár verður settur upp og borð og stólar, til að gestir hátíðarinnar geti notið tónlistar og samveru jafnt innan sem utan dyra. Hátíðin hefur verið mjög vel sótt og aðsókn aukist jafnt og þétt. Meiriháttar skemmtileg stemning hefur myndast í kringum hana og gestir komið alls staðar að. Það hefur verið frábært að fylgjast með því hvað Bæjarbíó hefur slegið í gegn, sem afar vinsælt tónlistarhús. Þetta fallega og sögufræga hús hefur algjörlega gengið í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk, nú sem eitt af vinsælli tónlistarhúsum landsins,“ segir Rósa og heldur áfram:

Tónlistarhátíð­in Hjarta Hafnarfjarð­ar verður haldin í hjarta Hafnarfjarð­ar í júlí. Sumarið 2021 mun einkennast af ,,pop-up“ viðburðum og tónleikum.

„Aðstaðan hefur verið bætt verulega fyrir tónleikagesti en gullfallegur bar, ,,Mathiesen-stofa“, hefur verið innréttaður í húsinu við hliðina, opnað á milli og tengdur við Bæjarbíó. Þar er hægt að njóta drykkja og hafa það huggulegt. En vinsældir Bæjarbíós hafa ekki síst haft góð áhrif á starfsemi veitingahúsa bæjarins. Margir tónleikagestir ákveða að fara út að borða fyrir tónleika, jafnvel heilu hóparnir. Þegar það gerist nokkrum sinnum í viku hefur það afar góð áhrif á veitingarekstur í bænum og staðirnir lifa góðu lífi. Við erum mjög stolt af þeim flottu veitingastöðum sem hægt er að velja úr og sérlega gaman að sjá hve vinsælir þeir eru líka af gestum úr nágrannasveitarfélögunum. Og það var einmitt í tengslum við hátíðina ,,Hjarta Hafnarfjarðar“ sem hugmyndin kom upp, um að útbúa fallegt hjarta í miðbænum og skreyta það á náttúrulegan hátt og prýða ljósum á jólum.

Hjörtu með aðdráttarafl

Mér fannst vanta eitthvað sem væri táknrænt fyrir þann hlýleika og bjarta anda sem við viljum skapa í bænum okkar. Og hvað gæti verið betra í þeim tilgangi en fallegt hjarta? Fyrst var hjarta sett upp við annan enda Strandgötunnar, gegnt Bæjarbíói, en stuttu síðar var annað hjarta skreytt og komið fyrir í Hellisgerði. Það er aldrei að vita nema þriðja hjartað verði svo komið á fallegan stað fyrr en síðar. Hjörtun hafa haft mikið aðdráttarafl og margir sem taka myndir af sér og sínum við þau.

Mér finnst mjög mikilvægt að passa upp á miðbæinn, reyna með öllum ráðum að styrkja hann og efla. Miðbærinn í Hafnarfirði er einstakur, með gömlu litríku húsunum, höfninni og hrauninu. Þann sjarma þurfum við að vernda og viðhalda. Í stóru bæjarfélagi eins og Hafnarfirði kemur ekkert í stað öflugs miðbæjar, þangað sem fólk vill koma til að versla, borða, rölta um og njóta. Því er ánægjulegt að sjá að hér hefur verslunum verið að fjölga og það jafnvel í miðjum faraldrinum; verslanir með listrænar vörur, hönnun, snyrtivörur og fatnað svo eitthvað sé nefnt.

Hafnarfjörður er fallegur bær með hlýlegan og einstakan sjarma. Frítt er á söfn fyrir alla og í sund fyrir alla 17 ára og yngri.

Uppbygging og bætt þjónusta

Undanfarin ár hefur mannlíf í bænum aukist umtalsvert og erum við vitaskuld ánægð með þá þróun. Ekki einungis að Hafnfirðingar sjálfir njóti miðbæjarins heldur eru gestir að koma víða að. Fram undan eru svo framkvæmdir á Strandgötu 26-30, þar sem rísa munu hús sem verða tengd verslunarmiðstöðinni Firði og ný verslunarpláss verða til. Bókasafn Hafnarfjarðar mun flytja í húsnæðið og það verða eflt sem nokkurs konar nútíma menningarmiðstöð. Byggingarnar falla mjög vel að gömlu byggðinni og munu án efa styrkja miðbæinn til muna. Nú eru einnig að líta dagsins ljós hugmyndir að breytingum á svæðinu frá Linnetsstíg að Reykjavíkurvegi, þar sem gert verður ráð fyrir smekklegri og hóflegri uppbyggingu og meðal annars torgi fyrir framan ráðhúsið. Allar miða þessar hugmyndir að því að efla þjónustu og fjölga möguleikum til afþreyingar og búsetu í bænum. Það eru allir hjartanlega velkomnir heim í Hafnarfjörð.“