„Þegar þarfagreining á þjónustu Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum var gerð var talið að 38 einstaklingar notuðu vímuefni um æð. Við vitum því að fleiri einstaklingar eru þarna úti og við viljum vera til staðar fyrir fólk sem gæti nýtt sér þessa þjónustu,“ segir Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.

Frú Ragnheiður grípur einstaklinga sem nota vímuefni um æð.

„Við viljum að þau komi til okkar til að fá skaðaminnkandi leiðbeiningar og fræðslu um bæði efni og búnað til vímuefnaneyslu. Við athugum líka hvernig staða þeirra er; hjálpum þeim jafnvel að tengjast félagsráðgjafa og leita til læknis. Skjólstæðingar fara oft helst ekki til læknis því þeir hafa margir slæma reynslu af heilbrigðiskerfinu, finnst þeir oft mæta fordómum og að ekki sé tekið mark á þeim. Fólk hikar því oft við að leita sér hjálpar en þá reynir Frú Ragnheiður að koma því til hjálpar.“

Meðal þess sem sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar gera er að spyrja skjólstæðinga sína hvaða vímuefni þeir noti.

„Við biðjum alltaf um leyfi til að spyrja og fræða. Þau sem sprauta sig með vímuefnum um æð nota bæði læknalyf og önnur efni, svo sem kókaín, amfetamín og heróín, sem komið er í umferð hér á landi, en að mjög litlu leyti, tel ég. Sum lönd skipta út heróíni fyrir morfín því þá er vitað um innihaldsefnin.

Við ráðleggjum þeim hvernig á að umgangast sum efnin með skaðaminnkun að leiðarljósi.“

Skilningur og umhyggja

Hjá Frú Ragnheiði er einstaklingum í vímuefnavanda mætt eins og þeir eru.

„Það er ekki alltaf sem fólk getur verið edrú, og það hefur líka sín mannréttindi. Fordómar og þekkingarleysi almennings veldur því að fólk er hrætt við einstaklinga sem nota vímuefni, en mæti einstaklingar í vímuefnavanda skilningi og umhyggju verður framkoma þeirra og viðhorf líka annað,“ segir Jóhanna.

Sjálfboðaliðar Frú Ragnheiðar eru líka ósparir á hvatningu og huggunarorð.

„Með skaðaminnkun erum við í raun að draga úr skaða sem af vímuefnanotkun getur orðið. Við skimum eftir því hvort skjólstæðingar okkar séu í sjálfsvígshættu og tökum stöðuna á því hvort þeir sofi úti og lifi við óöruggar aðstæður, sem er oft og iðulega. Við bjóðumst til að keyra þau í athvörf en sum kæra sig ekki um að nýta sér þau og sofa heldur í bílageymslum, stigahúsum eða við aðrar hættulegar aðstæður. Við erum því alltaf með tjöld, svefnpoka og hlýjan fatnað til taks, en margar prjónakonur styðja Frú Ragnheiði með lopapeysum, húfum, sokkum og vettlingum, og erum við afar þakklát fyrir það.“

Samstarfsfús og vilja gera rétt

Hægt er að hringja í Frú Ragnheiði Suðurnesjum í síma 783 4747 eða senda einkaskilaboð á Facebook-síðunni Frú Ragnheiður Suðurnes. Þá kemur bíllinn þangað sem óskað er.

„Þau sem koma til okkar eru ánægð með þjónustuna og treysta okkur. Þau sýna líka eindreginn samstarfsvilja og vilja gera vel. Við kennum þeim að meðhöndla búnaðinn og skila notuðum búnaði til förgunar, svo börn finni hann ekki í umhverfinu. Það skilja þau algjörlega og biðja alltaf um box til að gera rétt,“ segir Jóhanna.

Hún bætir við að enginn ætli sér að lenda á götunni. „Það býr alltaf eitthvað að baki og það hefur verið sýnt fram á að vímuefnanotkun tengist gjarnan áföllum á lífsleiðinni. Margir eru mjög berskjaldaðir eftir áfall ofan í áfall.“

Fólk eins og ég og þú

„Mér finnst málaflokkurinn áhugaverður. Ég er í meistaranámi í félagsráðgjöf og finnst sjálfboðastarfið góð reynsla samhliða náminu,“ segir Sigfríður Ólafsdóttir sem starfað hefur sem sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði Suðurnesjum frá því í fyrrasumar.

„Starfið er aðeins öðruvísi en ég gerði mér í hugarlund. Á vaktinni veiti ég sálrænan stuðning, spjalla við þá sem koma, gef þeim hreinan búnað, næringu, fatnað og skaðaminnkandi leiðbeiningar.“

Sigfríður segir starfið gefandi.

„Það er misjafnt hvernig liggur á þeim þegar þau sækja þjónustuna en oft eru þau tilbúin að opna á áfallasöguna sína en einnig ræðum við líka bara daginn og veginn.“

Sigfríður ber hlýhug til einstaklinganna sem nýta sér þjónustu Frú Ragnheiðar.

„Þótt ég hafi ekki haft fordóma gagnvart einstaklingum sem nota vímuefni hef ég nú lært enn meira um málaflokkinn og skil margt svo miklu betur en ég gerði áður. Þetta er fólk eins og ég og þú, nema það notar vímuefni. Flest þeirra mæta miklum fordómum í samfélaginu.“

Sigfríður telur að fræða þurfi almenning svo fólk geti mætt einstaklingum í vímuefnavanda þar sem þeir eru staddir.

Hún hafði áhyggjur af því að geta ekki sleppt hugsunum af skjólstæðingum sínum á kvöldin.

„En það rændi mig ekki nætursvefni. Almennt kveðjast allir sáttir og maður hefur gert allt sem maður getur gert hverju sinni.“ ■

Sjá raudikrossinn.is