Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar hefur starfað síðan 2008, en hér fer fram alhliða starfsendurhæfing fyrir fólk frá 18 ára aldri sem hefur ekki náð fótfestu í námi eða starfi,“ segir Anna Guðný Eiríksdóttir framkvæmdastjóri. „Það fær tækifæri til að byggja sig upp og öðlast trú á eigin getu til að komast aftur í vinnu eða nám.

Hingað kemur fólk á öllum aldri með alls konar menntun og starfsreynslu,“ segir Anna Guðný. „Starfið fer að hluta til fram í litlum hópum þar sem fólk mætir á hverjum degi og fær þannig að venjast rútínu og að mæta á sama stað, hitta fólk og byggja upp félagsleg tengsl, en oft er fólk sem kemur í endurhæfingu orðið einangrað eða jafnvel félagsfælið. Við gerum líka ýmislegt saman til að byggja upp félagshæfni þátttakenda og leggjum mikla áherslu á alls kyns hreyfingu.

Síðustu ár höfum við séð meðalaldurinn lækka og sífellt fleira ungt fólk koma í starfsendurhæfingu. Við höfum því þróað úrræði sérstaklega fyrir þau,“ segir Anna Guðný. „Fljótlega ætlum við, í samvinnu við VIRK, líka að fara af stað með stök námskeið fyrir fólk sem hefur verið í endurhæfingu en vantar lokahnykkinn í undirbúningi fyrir vinnumarkað.

Við höldum kynningarfundi fyrir fjölskyldumeðlimi og viljum gjarnan hitta þá sem þátttakendur búa með,“ segir Anna Guðný. „Það er nefnilega mjög mikilvægt að eiga bandamenn í endurhæfingu og stundum þarf að búa til tíma fyrir hana, því þátttakendur hafa oft tekið ýmis verkefni að sér.“

Prófa alvöru vinnustað

„Við erum í samstarfi við fyrirtæki víða á höfuðborgarsvæðinu til að gefa fólki tækifæri til að reyna sig á vinnumarkaði. Þannig getur það fengið að prófa sig áfram á alvöru vinnustað í alvöru verkefnum og fundið hvar það stendur,“ segir Anna. „Þetta hefur gefið fólki mikið og það fer öruggara í atvinnuleitina.

Langflestir þátttakenda koma til okkar frá VIRK en við tökum líka við fólki frá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Þar fær fólk tækifæri til að fara í starfsendurhæfingu, sem er alveg frábært, en um leið er sorglegt að önnur sveitarfélög bjóða ekki upp á það sama,“ segir Anna Guðný. „Þetta er framsýni hjá Hafnarfirði og fjárfesting í framtíðinni. Það má setja svolítinn pening í að forða fólki frá örorku og gera því kleift að losna út úr örorkukerfinu, sem getur orðið fátæktargildra. Þeir sem þurfa að fara á örorku eftir endurhæfingu eru líka almennt sáttari við það ef þeir hafa fundið að annað kemur ekki til greina.“

COVID hægir á

„COVID hefur auðvitað haft heilmikil áhrif á starfið okkar og fært það á netið. Við getum samt tekið á móti mjög litlum hópum og passað fjarlægðina,“ segir Anna Guðný. „Það skiptir þátttakendur heilmiklu að halda áfram að fara á fætur og tala við aðra í tölvunni, en þetta hægir á endurhæfingunni og það er erfiðara að fá pláss fyrir starfsfólk inni á vinnustöðum, bæði vegna sóttvarna og ástandsins á vinnumarkaði.“

Bæta aðgengi að þjónustu

„Tilkoma VIRK hefur bætt aðgengi að starfsendurhæfingu til muna fyrir fólk með heilsubrest, en það geta verið fleiri ástæður fyrir því að fólk þurfi á starfsendurhæfingu að halda og það fólk hefur ekki greiðan aðgang að þjónustu. Það leiðir oft til þess að heilsan bilar ef ekki er gripið inn í nægilega snemma,“ segir Anna Guðný. „Ráðamenn eru meðvitaðir um þetta og á síðasta ári kom út skýrsla um starfsendurhæfingu þar sem kemur fram að nauðsynlegt sé að tryggja öllum aðgengi að þjónustu við hæfi og bent á leiðir til úrbóta. Ég vona svo sannarlega að þessi góða vinna verði nýtt.“