Það má segja að eitt öflugasta verkefni Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi frá upphafi sé gjafir á öryggishjálmum/reiðhjólahjálmum til 6-7 ára barna. Það verkefni hófst árið 1991 á Akureyri hjá Kiwanisklúbbnum Kaldbak og var það félaginn Stefán Jónsson sem ruddi veginn og gefnir voru hjálmar í skóla á Akureyri það vor. Kiwanisklúbburinn Drangey kom svo að þessu árið eftir og síðan Kiwanisklúbburinn Ós á Höfn í Hornafirði og í kjölfarið fóru fleiri og fleiri klúbbar á landsbyggðinni að gera þetta líka.

Byrjaði á Akureyri

Verkefnið hafði verið rætt í Umdæmisstjórn um skeið og hafði Stefán Jónsson talað máli þess þar. Það var síðan á Umdæmisþingi haustið 2004 að þáverandi umdæmisstjóri, Sigurgeir Aðalgeirsson frá Kiwanisklúbbnum Skjálfanda á Húsavík, lagði þetta fyrir þingið og fékk samþykkt með naumum meirihluta að gera þetta að landsverkefni. Síðan þá hefur hreyfingin gefið öllum börnum í 1. bekk ár hvert hjálm á höfuð og hafa þetta verið frá 3.500 hjálmum og upp í 4.400 hjálma ár hvert og nú vorið 2022 voru þetta rúmir 4.400 hjálmar.

Í upphafi verkefnisins árið 1991 og þar á eftir fengu klúbbarnir hina ýmsu styrktaraðila til liðs við sig og var oft örðugt að ná inn styrktaraðilum. Var þetta gert að landsverkefni vorið 2005 en þá kom Eimskipafélag Íslands að verkefninu sem aðalstyrktaraðili og hefur það samstarf staðið óslitið síðan. Sigurgeir Aðalgeirsson, þá fráfarandi umdæmisstjóri, hafði haft veg og vanda af samningi við Eimskipafélagið. Það var ómetanlegur stuðningur sem Eimskip hefur staðið fyrir en á þessum 22 árum hefur félagið afhent Kiwanishreyfingunni tæplega 83.000 hjálma.

Í heildina hefur Kiwanis á Íslandi gefið nálægt 1/3 þjóðarinnar hjálma miðað við höfðatölu í dag, eða rúmlega 105.000 hjálma. Ef við gefum okkur að meðalverð á hjálmi uppreiknað til verðs í dag sé um 7.500 krónur, má áætla að Kiwanishreyfingin hafi sett milli 750 – 800 miljónir króna í þetta einstaka verkefni, fyrst með stuðningi fjölda fyrirtækja en þó einna helst Eimskipafélags Íslands.

Góður stuðningur frá Eimskip

Eimskipafélagið eitt og sér hefur staðið keikt við bakið á hreyfingunni í þessi 22 ár og erum við bæði afskaplega þakklát og stolt af þessu samstarfi.

Ég undirritaður er að ljúka mínu sjöunda ári sem formaður Hjálmanefndar Umdæmisins Ísland/Færeyjar. Mér til aðstoðar öll árin hef ég haft frábæra félaga sem fulltrúa hvers svæðis sem Kiwanis nær yfir og hafa þau sömu staðið með mér.

Það hefur einnig verið afar gaman að vinna með starfsfólki Eimskips og finna þann brennandi áhuga og ánægju sem þar hefur ríkt í að bæta öryggi barna á Íslandi. Þetta hefur verið nokkuð föst rútína þar sem fjöldi barna í 1. bekk hvers skólaárs er kannaður að hausti og einnig í fjölda skóla á landsbyggðinni sem Kiwanis þjónar ekki beint. Síðan er sú samantekt send Eimskip sem síðan sér um að útdeila hjálmum eftir þessu skjali og sér um að allir fái sitt.

Öryggi barna í fyrirrúmi

Kiwanisklúbbarnir um landið allt taka síðan við og sjá um afhendingu ýmist beint á höfuð barnanna eða með því að koma hjálmunum í skólana. Vorið 2015 kom upp ákveðið vandamál í skólum í Reykjavík þar sem skólaskrifstofa Reykjavíkur, með Dag B. Eggertsson og Skúla Helgason í broddi fylkingar, bannaði hreyfingunni að afhenda börnunum hjálmana í skólunum eða á skólalóðinni. Var þá brugðið á það ráð að fá foreldrafélögin til liðs við okkur til að koma hjálmunum til skila en það varð alltaf misbrestur á að allir fengju sinn hjálm. Það reyndust ekki allir skólar sem hlýddu þessari reglu og á nokkrum stöðum gátum við haldið uppteknum hætt. Í dag er þetta hægt og hægt að færast í fyrra horf þar sem skólastjórnendur láta þessa tilskipun sem vind um eyru þjóta og horfa í það öryggi sem þessi gjöf veitir börnunum áður en haldið er út í umferðina. Mjög víða er efnt til grillveislna, fjölskylduskemmtunar eða annarra uppákoma við afhendingu hjálma til að lífga upp á þessa athöfn. Einhverjir klúbbar standa einnig fyrir happdrætti þar sem ein stúlka og einn drengur fá gefins ný hjól. Þar hefur Kiwanisklúbburinn Kaldbakur á Akureyri með upphafsmann verkefnisins á Íslandi, Stefán Jónsson eða ,,Stebba hjálm“ eins og hann er kallaður, staðið hvað fremstur við hjólagjafir til barna á þeirra svæði.

Hjálmar til Grænlands og Kanada

Hreyfingin hefur einnig, ásamt Eimskip, staðið í ýmsum öðrum verkefnum þar sem börnum eru gefnir hjálmar og má nefna að flóttabörn og innflytjendur hafa einnig fengið hjálma og höfum við styrkt sérstakt verkefni hjá Rauða krossinum, Barnaheill í Reykjavíkurborg og fleiri félagasamtök með hjálmum síðastliðin ár handa börnum sem ekki komast í tæri við þá í skólum eða hjá hreyfingunni. Svo höfum við gefið hjálma til barna á Grænlandi síðastliðin þrjú ár og nú er á döfinni að senda sérstaka sendingu af hjálmum til Kanada, en þar á að afhenda íslenskættuðum sex til sjö ára börnum í Gimli hjálma á sérstökum Íslendingadegi í júní í sumar.

Aldrei verður ofmetið það aukna öryggi sem hjálmarnir veita og höfum við afar mörg dæmi þar sem hjálmur bjargaði lífi þess er í slysi lenti. Höfum við ávallt afhent þeim sem í slíku lendir nýjan hjálm með þökk í hjarta.

Hér eru hamingjusamir krakkar á Ísafirði með hjálmana sína mynd/aðsend