Samkynhneigt par og ættleidd dóttir þeirra eru í fríi í bústað.

Fjórir vopnaðir einstaklingar ráðast inn í bústaðinn og taka fjölskylduna í gíslingu og fyrirskipa henni að fremja óhugsandi verknað, annars verði endalok heimsins. Eitthvert þeirra verður að falla fyrir hendi hinna tveggja.

Í loftinu hangir spurningin hvort þessir fjórir einstaklingar séu einfaldlega sturlaðir og haldnir kvalalosta. Eða hafa þeir upplýsingar um yfirvofandi heimsenda? Og, sé svo, er rétt af þeim að neyða þessa fjölskyldu til að færa hina endanlegu fórn?

Handritshöfundur og leikstjóri er M. Night Shyamalan, sem meðal annars er þekktur fyrir myndirnar The Sixth Sense (1999), Signs (2002), The Village (2004) og Lady in the Water (2006).

Yfirleitt eru handrit Shyamalan ekki unnin upp úr verkum annarra en Knock at the Cabin er byggð á bókinni The Cabin at the End of the World (2018) eftir Paul G. Tremblay og er þetta í fyrsta sinn sem kvikmynd er byggð á verki eftir hann. Raunar var kvikmyndarétturinn keyptur 2017, ári áður en bókin kom út.

Meðal leikara í myndinni er Dave Bautista, sem er þekktastur fyrir leik sinn í Guardians of the Galaxy. Hann leikur Leonard, hæglátan foringja gíslatökumannanna sem neyðir fjölskylduna til að taka ákvörðunina hryllilegu.

Annar úr hópi gíslatökumannanna er leikinn af Rupert Grint, sem lék Ron Weasley í Harry Potter myndunum.

Háskólabíó, Laugarásbíó og Smárabíó

Frumsýnd 10. febrúar 2023

Aðalhlutverk:

Dave Bautista, Jonathan Groff, Ben Aldridge og Abby Quinn

Handrit:

M. Night Shyamalan, Steve Desmond og Michael Sherman, byggt á bók Paul Tremblay

Leikstjórn:

M. Night Shyamalan

Bönnuð innan 16