Mig langaði að vera með í sjálfboðaliðastarfi Hersins eftir að hafa tekið þátt í Biblíunámskeiði með manninum mínum og eitt leiddi af öðru. Ég hef síðan tekið þátt í aðfangadagskvöldi Hersins og ýmsu fleiru sem fellur undir sjálfboðastarf, en það er aldrei kvöð né skylda. Ef ég er kölluð til geng ég til starfa með glöðu geði og það gefur mér heilmikið,“ segir Bergdís, sem margir muna úr fréttum fyrri ára þegar hún gaf útigangsfólki fría fótsnyrtingu um árabil.

Bergdís sér nú um starf 60 ára og eldri í Reykjavíkurflokki Hersins ásamt Áslaugu Haugland. Áætlað er að haust- og vetrarstarfið fari af stað um næstu mánaðamót og það verður á miðvikudögum klukkan 14.

„Við bjóðum alla hjartanlega velkomna í skemmtilega og upplífgandi samveru, hvort sem þeir eru 60 ára, eldri eða yngri. Þar getur fólk átt gæðastund saman. Við förum með hugvekju, syngjum saman hvert með sínu nefi, upphátt eða í huganum, lesum sögur sem vekja upp gamlar minningar og tölum um gamla daga á eftir. Það vekur iðulega upp kátínu og alltaf rifjast eitthvað upp sem hægt er að hafa gaman af,“ segir Bergdís.

Hún segir stemninguna létta og skemmtilega og mikið sé hlegið og skrafað saman.

„Sumir koma með handavinnu með sér og allir njóta þess að hittast og vera saman, hvaðan sem þeir koma úr þjóðfélagsstiganum. Við bjóðum gestum til okkar í hverjum mánuði, hlustum á hvað þeir hafa fram að færa og fáum okkur ávallt kaffi og með því. Svo byrjum við og endum samveruna á ljúfri bæn,“ segir Bergdís, sem hlakkar mikið til samfunda við þá sem sækja í samveruna í haust.

„Þetta hlé vegna kórónaveirunnar er orðið gott og okkur langar að hittast sem fyrst. Við bíðum þess að nýja húsið verði tilbúið, en hægt verður að fylgjast með dagskrá vetrarins á vefnum okkar, herinn.is.“

Kærleiksríkt andrúmsloft

Bergdís bendir á annað stórskemmtilegt starf innan Hersins, en það er samvera fyrir konur sem kallast Heimilasambandið í umsjón Áslaugar Haugland og Katrínar Eyjólfsdóttur. Heimilasambandið er á dagskrá á mánudögum klukkan 15.

„Heimilasambandið er einn af elstu saumaklúbbum landsins og hefur verið starfrækt hér á landi í heila öld. Það var stofnað af hershöfðingjanum William Booth, sem stofnaði Hjálpræðisherinn á Englandi. Honum fannst að konur sem bundnar voru yfir börnum og buru inni á heimilunum þyrftu meira andrými og gæðastundir með öðrum konum úr öðrum söfnuðum hvaðanæva úr þjóðfélaginu. Karlar og krakkar fengu ekki að vera með, bara brjóstmylkingar,“ upplýsir Bergdís um langlíft Heimilasamband Williams Booth, sem var langt á undan sinni samtíð þegar kom að kvenréttindum.

„Heimilasambandið er vinsælt hjá Hernum og svo gamalt, skemmtilegt og rótgróið. Við erum með fræðslufundi fyrir konurnar okkar, gestakomur, söng og fleira, og þær fara saman í skemmtiferð á vorin. Alltaf er slegið á létta strengi, fengið sér kaffi á eftir og mikið spjallað í kærkomnu andrými frá öllu saman.“

Eiginmaður Bergdísar hafði verið rafvirki hjá Hjálpræðishernum í tuttugu ár, þegar þau hjónin fóru að sækja samkomur hjá Hernum.

„Það er svo gott að vera í Hernum. Andrúmsloftið er kærleiksríkt og þar eru allir jafnir. Því tók ég fyrst eftir þegar ég gekk til liðs við Herinn. Þar eru allir velkomnir, hvernig sem þeir eru klæddir eða hvaðan sem þeir koma,“ segir Bergdís, sem finnst bæði gefandi og góð tilbreyting í lífinu að sinna sjálfboðastarfi innan Hersins.

„Svo er ég náttúrlega yfir mig hrifin af gömlu herlögunum, eins og vaggandi valsi. William Booth sagði: „Af hverju skyldi skrattinn fá allt það besta?“ og breytti skemmtilegum lögum þess tíma í dillandi, fjörug trúarlög. Þetta var létt og skemmtilegt og þannig er það enn í dag. Tónlistin gefur mér mikið og trúarandinn; ég myndi ekki vilja breyta því. Herinn er eins og fjölskyldan mín.“

Allar nánari upplýsingar um Hjálpræðisherinn má finna á herinn.is