Aron Ármann Jónsson er forstöðumaður kaffihússins Grænu könnunnar og verslunarinnar Völu á Sólheimum. Hann hefur starfað þar í rúmlega ár og segir að sér hafi komið á óvart hversu Sólheimasamfélagið er stórt. „Svo ríkir hér mikil manngæska, samheldni og virðing fyrir hverjum og einum, því hér fá allir að blómstra.

Starfið er fjölbreytt. Skemmtilegast er að rista lífrænt úrvals kaffi fyrir íbúa Sólheima og viðskiptavini. Starfið kom nokkuð óvænt upp í hendurnar á mér, þannig að ég get ekki sagt að þetta hafi verið planlagt. Ég er ánægður með að hafa ráðið mig í vinnu hér, þetta er frábær staður,“ segir Aron.

„Það er þægilegt að búa hér og sleppa við bílaraðir og stress. Hér er mikið félagslíf og margt fólk á mínum aldri. Á Sólheimum er endalaust margt hægt að gera og skoða, umhverfissetrið Sesseljuhús, aldingarðinn Öl, þar sem ræktuð eru epli og alls kyns ávextir, grænmeti og krydd,“ segir hann.

„Margar gönguleiðir eru á svæðinu og þar er einnig að finna trjásafn og Tröllagarð. Hér eru haldnir tónleikar alla laugardaga yfir sumartímann. Ég mæli svo klárlega með að heimsækja Völu Grænu sem er mikil upplifun, því þar er hægt að fá úrvals lífrænt Sólheimakaffi, heimabakaðar kökur og gæða sér á grænmetissúpu.“