Krabbameinsfélagið Framför hefur verið að byggja upp Hellinn sem er félagslegt samfélag sem ætlað er að verði sérhæft stuðningsumhverfi fyrir karlmenn með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hluti af þessu umhverfi, eins og stuðningshóparnir Frískir menn, Blöðruhálsar og Traustir makar, er þegar starfandi í dag.

Myndlíkingin Hellirinn

Hellirinn er myndlíking fyrir þá staðreynd að eldri karlmenn eiga það til að einangra sig og sækja tilfinningalegan stuðning mest til maka sinna. Markmiðið með samfélaginu Hellinum er einmitt að stuðla að aukinni félagslegri virkni, fræðslu og betri lífsgæðum hjá þessum hópi.

Staðið er fyrir fjölbreyttum þáttum og viðburðum sem sumir eru í hverri viku og aðrir sem eru mánaðarlega og blandað er saman mismunandi hlutum og upplifun. Dagskráin tekur einnig mið af mismunandi árstíðum.

Hugmyndir um tómstundahópa

Núna á árinu 2021 hefur verið lagður grunnur að því að setja í gang fjölbreytta hópa sem tengjast áhugamálum karla með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Markmiðið er að hóparnir stækki jafnt og þétt og megintilgangurinn er að skapa nánd, efla lífsgæði og leggja grunn að samskiptum og miðlun á milli karla með krabbamein í blöðruhálskirtli. Langtímamarkmiðið er að skapa öflugt félagslegt umhverfi fyrir karla með krabbamein í blöðruhálskirtli.

Hér eru þær hugmyndir sem stefnt er að til að byrja með:

■ Framför í veiði

■ Framför í golfi

■ Framför í knattspyrnu

■ Framför í líkamsrækt

■ Framför í handverki

■ Framför í list

Hugmyndir að umhverfi VINAhópa

VINAhópar karla: Leggja grunn að svæðabundnum hópum sem væru sjálfbærir og nánari útfærsla á samskiptum væri undir hverjum hópi komið (sími, Zoom eða með því að hittast).

VINAhópar maka: Koma á samskiptum (síma, Zoom eða að hittast) á milli maka karlmanna með krabbamein í blöðruhálskirtli. Byggt væri á að hver hópur væri sem mest sjálfbært umhverfi.

VINAhópar karla og heilsurækt: Fara af stað með vikulegan tíma í heilsurækt og hittast samhliða í léttu kaffispjalli.

VINAgönguhópar: Setja í gang vikulega léttar gönguferðir fyrir karla með krabbamein í blöðruhálskirtli og maka þeirra. Markmiðið fyrir utan hreyfingu væri að skapa tengsl á milli hjóna sem eru að eiga við þetta verkefni, krabbamein í blöðruhálskirtli. ■

Markmiðið með samfélaginu Hellinum er einmitt að stuðla að aukinni félagslegri virkni, fræðslu og betri lífsgæðum hjá karlmönnum sem greinst hafa með blöðruhálskirtilskrabbamein. MYND/AÐSEND