Fyrir tveimur árum varð Kópavogsbær þátttakandi í þessu spennandi og mikilvæga verkefni. Í skýrslu OECD um stöðu Kópavogs í innleiðingarferli heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun kemur fram að frammistaða bæjarins er vel yfir meðaltali OECD.

„Innleiðing heimsmarkmiðanna er komin vel á veg í starfsemi bæjarfélagsins og undirstofnunum þess. Merki um það má finna í starfsemi leik- og grunnskóla, við vinnslu nýrra draga að aðalskipulagi, tilkomu geðræktarhúss, innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og með norrænu samstarfi menningarhúsa á Norðurlöndunum, sem Kópavogur leiðir,“ upplýsir Auður Finnbogadóttir, verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ.

Mikilvæg samstaða fyrirtækja og stofnana í Kópavogi

Í Kópavogi hafa fyrirtæki og stofnanir undirritað viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

„Til að árangur verkefnisins verði sem allra mestur er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir í bæjarfélaginu taki höndum saman og styðji innleiðinguna með samstilltum aðgerðum. Markaðsstofa Kópavogs hefur hrint af stokkunum verkefni þar sem rekstraraðilar í bæjarfélaginu eru hvattir til að máta heimsmarkmiðin við sinn rekstur og velja þau heimsmarkmið sem best passa þeirra starfsemi,“ upplýsir Björn Jónsson hjá Markaðsstofu Kópavogs.

Hann mælir með að þau heimsmarkmið sem valin hafa verið til skráningar í sameiginlegum gagnagrunni Markaðsstofunnar verði höfð í forgangi, eins og mögulegt er.

„Markmiðin voru valin með aðstoð rýnihóps aðildarfélaga Markaðsstofunnar. Þar eru heimsmarkmið sem helst tengjast daglegum rekstri fyrirtækja og stofnana, og sem talið er að rekstraraðilar geti best náð fram með jákvæðum hætti. Þátttakendur í verkefninu eru hvattir til að ná mælingu á núverandi stöðu ýmissa þátta starfsemi sinnar og setja jafnframt markmið um framfarir til ársins 2024,“ útskýrir Björn.

Forstjórar í Kópavogi með viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Mörg fyrirtæki þegar farin af stað í markmiðavinnu

Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum í lok september, þegar ellefu fyrirtæki undirrituðu viljayfirlýsingu um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fyrirtækin eru Íslandsbanki, Reginn, Sky Lagoon, Prófító bókhaldshús, BYKO, Festi, Valka, Mannvit, Tryggingastofnun, Hótel Kríunes og Brunabótafélag Íslands og fleiri aðilar hafa þegar bæst í hópinn.

„Með verkefninu vill Markaðsstofa Kópavogs hvetja fyrirtæki og stofnanir í bænum til að innleiða heimsmarkmiðin í stefnu sína og daglegan rekstur og sýna þannig samfélagslega ábyrgð í verki. Allir vinni saman að því að bæta umhverfið og samfélagið og gera Kópavog, Ísland og heiminn allan að betri stað til að búa og starfa í,“ segir Björn.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, tekur í sama streng.

„Það er ánægjulegt að finna þennan mikla áhuga hjá fyrirtækjum í Kópavogi á jafn mikilvægu samfélagsmáli sem innleiðing heimsmarkmiðanna er,“ segir Ármann Kr.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar á markadsstofakopavogs.is/heimsmarkmidin og kopavogur.is/heimsmarkmidin