BYKO Granda er eina byggingarvöruverslun BYKO í Reykjavík, því sú þekktasta er auðvitað í Kópavogi og hinar úti á landi,“ segir Rúnar Gunnlaugsson sem gegnir stöðu verslunarstjóra í BYKO Granda í annað sinn.

„Ég var verslunarstjóri í BYKO í gamla Steindórshúsinu gegnt JL-húsinu frá árinu 2003 til 2005 og tók þá við stöðu rekstrarstjóra í Breiddinni og var þar í þrettán ár eða þar til ég kom aftur í Vesturbæinn fyrir tveimur árum en þá hafði BYKO flutt sig um set í nýtt hús á Fiskislóð 15,“ upplýsir Rúnar sæll á Granda.

„Stór hluti viðskiptavina BYKO Granda eru sömu andlit og ég hef ekki séð í fimmtán ár. Það er svo stór kjarni úr hverfinu sem kemur hingað í ýmsum erindagjörðum og því er stemningin oft heimilisleg. Þá er starfsaldur starfsmanna BYKO frá tíu upp í þrjátíu ár og það segir sína sögu. Fólk er ánægt í vinnunni sinni, viðskiptavinir koma aftur og aftur og þess vegna myndast bæði sérstakt og notalegt andrúmsloft í búðinni. Hér ríkir allt annar taktur og rólegra yfirbragð,“ segir Rúnar.

Ljósadeildin í BYKO Granda er stór og lokkandi enda fæst þar úrval fallegra ljósa og lampa sem prýða heimilið. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Allt fyrir heimilið og garðinn

Eftir sautján ár í gamla Steindórshúsinu flutti BYKO Granda í núverandi húsnæði á Fiskislóð árið 2008.

„BYKO Granda er byggingarvöruverslun sem mætir öllum framkvæmdum heima fyrir sem og þörfum stærstu verktaka. Verslunin er stór, heilir 2.500 fermetrar, og útisvæði undir timbur og fleira er 900 fermetrar. Við eigum því allt til alls og getum veitt alla hefðbundna þjónustu með leigumarkaði, timbursölu og lagnadeild,“ upplýsir Rúnar.

Á BYKO Granda fást líka árstíðabundnar vörur í úrvali.

„Við erum með allt fyrir garðinn, verkfæri, sláttuvélar, sláttuorf, áburð, blóm og hvaðeina sem þarf til að gera garðinn fallegan í sumar. Þá er hægt að fá lánað allt frá hjólbörum upp í gröfur á leigumarkaðnum. Við erum jafnframt með mikið úrval af grillum og garðhúsgögnum og í raun allt sem þarf til að njóta lífsins í garðinum á ljúfum sumardögum,“ segir Rúnar.

Í BYKO Granda er 900 fermetra útisvæði sem geymir gæðatimbur til flestra nota. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Hólf & Gólf kemur á Granda

Eitt af trompum BYKO Granda er sterk málningardeild þar sem málarameistari er til skrafs og ráðagerða.

„Í Vesturbæ og nágrenni er mikið af gömlum húsum og grindverki sem þarf að mála og hingað koma íbúar sem eru að dytta að húsum sínum og görðum. Um leið og kemur þurrkur verður metsala í málningu og þannig var það líka í fyrra. Til að mæta því stækkuðum við deildina umtalsvert og við erum nú með allt fyrir inni- og útimálun. Við eigum líka allt til að gera að gömlu húsunum, timbur til að endurbyggja eða styrkja þau, þakefni, bárujárn og hvað sem til þarf,“ upplýsir Rúnar.

Í BYKO Granda er einnig stór festinga- og verkfæradeild, heimilisvörur, útileguvörur og lítil heimilistæki.

„Við erum með stóra og heillandi ljósadeild og þegar líður á árið opnum við nýja Hólf & Gólf-deild þar sem verður parket, hurðar, baðinnréttingar og fleira,“ segir Rúnar í sumarskapi í BYKO Granda, þangað sem gaman er að koma og gera góð kaup.

„Við fáum mikið af erlendum ferðamönnum úr nágrenninu í ýmsum erindagjörðum, listafólk og fleira sem við leitum lausna með,“ segir Rúnar.

Málningardeild BYKO Granda er nú enn stærri og betri og þar er hægt að leita ráða hjá málarameistara hússins. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Á dögunum hófst sumarútsala BYKO þar sem hægt er að gera reyfarakaup og frábær tilboð eru í gangi.

„Verið velkomið í BYKO Granda. Þangað er heimilislegt að líta inn, þjónustan er góð og persónuleg og vöruúrval sem mætir flestum þörfum verktaka og húseigenda. Við erum í því að bjarga málum og höfum gaman af því. Þá er nágrennið orðið svo skemmtilegt, með flottum veitingastöðum og verslunum í kring og margir sem njóta þess að koma út á Granda,“ segir Rúnar.

BYKO Granda er á Fiskislóð 15. Sími 535 9400. Opið alla daga vikunnar, frá klukkan 8 til 18 á virkum dögum, frá klukkan 10 til 18 á laugardögum og 10 til 16 á sunnudögum. Sjá nánari á byko.is