Rafbílum fjölgar nú ört hér á landi og drægni þeirra eykst hratt með stærri og aflmeiri rafhlöðum. Hleðsla rafbíla kallar því á meiri rafmagnsnotkun og veldur stöðugt meira álagi á rafkerfið. Því er brýnt öryggisatriði að löggiltir fagaðilar í rafvirkjun sjái um að fasttengja allar hleðslustöðvar fyrir rafbíla,“ segir Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka rafverktaka, SART, og viðskiptastjóri á mannvirkjasviði Samtaka iðnaðarins.

Í SART eru liðlega 200 löggiltir rafverktakar, rafvirkjameistarar og rafeindavirkjameistarar sem reka sín eigin fyrirtæki, eru með rafiðnaðarmenn í vinnu og bera faglega ábyrgð á öllum verkefnum fyrirtækja sinna.

„Í SART eru sérfræðingar sem hafa öll tilskilin leyfi til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Þeir bjóða upp á ráðleggingar og vita fyrir víst hvernig best er að leysa málin fyrir rafbílaeigendur sem óska eftir að setja upp hleðslustöðvar,“ upplýsir Kristján og heldur áfram:

„Samkvæmt lögum má enginn setja upp rafbúnað nema að hafa til þess útgefið leyfi sem löggiltur rafverktaki frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), en því miður heyrir maður af og til sögur af því að menn reyni að bjarga sér sjálfir með því að setja upp hleðslustöðvar. Það er alls ekki æskilegt því þetta snýst um annað og meira en að tengja saman tvo víra.“

Rafbílahleðsla á við fimm til sex hraðsuðukatla

Ávallt er mælt með fasttengdri hleðslustöð fyrir hleðslu rafbíla.

„Ekki er mælt með að nota hleðslukapla sem fylgja rafbílum nema til þess eins að bjarga sér til skamms tíma. Sé rafbíll hlaðinn dagsdaglega í gegnum heimilis-innstungu endar með að hún brennur yfir með tilheyrandi eldhættu, vírarnir ofhitna og sviðna og því er nauðsynlegt að varnir séu í lagi,“ upplýsir Kristján.

Vegna mikillar og aukinnar straumnotkunar hefur eftirlitsaðilinn HMS lagt til að raflagnir í húsum séu teknar út áður en hleðsla rafbíla hefst.

„Því miður er algengt að fólk flaski á þessu mikilvæga atriði. Í sumum gömlum húsum er einfalt rafkerfi á gömlum trétöflum sem þolir alls ekki að bætt sé við rafhleðslubúnaði fyrir rafbíla án þess að farið sé í endurnýjun. Þetta verður sífellt meira krefjandi því rafbílar verða æ aflmeiri og ekki óalgengt að verið sé að hlaða 7,5 kílóvött (kW) á einum rafbíl. Í samanburði notar hraðsuðuketill 1,5 kW og getur það í sumum tilvikum slegið út rafmagninu, þannig að með rafbílahleðslu verður til álag sem jafngildir notkun fimm til sex hraðsuðukatla,“ segir Kristján.

Nauðsynlegt sé því að löggiltur rafverktaki taki út ástand raflagna þar sem fyrirhugað er að setja upp rafbílahleðslu.

„Þá er rétt að undirstrika að ekki má nota framlengingarsnúrur eða fjöltengi til að hlaða rafbíla. Það er stórhættulegt því þessir grönnu kaplar eru ekki gerðir til að taka svo mörg amper í gegnum sig.“

Kristján segir skynsamlegt að hugsa til framtíðar þegar kemur að uppsetningu hleðslustöðva því rafbílaeign eykst stöðugt. FRÉTTABLAÐIÐ/­ANTON

Álagsstýring sem forgangsraðar rafmagni

Í fjölbýlishúsum, þar sem hlaða þarf marga rafbíla í einu, er mikilvægt að nota álagsstýringar sem skammta rafmagn inn á hleðslustöðvar og skulu allar hleðslustöðvar vera varðar með vari og lekaliða af réttri gerð.

„Álagsstýring er sett upp af löggiltum rafverktökum og forrituð þannig að straumnotkun hússins er forgangsstýrt. Þannig fær eldamennskan og þvottavélin forgang umfram hleðslu rafbíls á þeim tíma dags sem fólk kemur heim úr vinnu og er bíllinn þá settur aftar í forgangsröðina. Þegar kvöldar og nóttin tekur við fær rafbílahleðslan svo aftur forgang,“ útskýrir Kristján.

Við álagsstýringu þurfa hleðslustöðvar líka að geta talað saman.

„Hleðslustöðvar þurfa að vera sömu tegundar til að geta átt samskipti sín á milli. Þá eru þær forritaðar til að vinna saman og í fullkomnari kerfum fá rafbílar með minnstu hleðsluna forgang en ekki endilega sá sem stakk fyrst í samband.“

Betra að hafa fleiri en eina hleðslustöð til taks

Kristján reiknar með að notendum rafbíla fjölgi umtalsvert á næstu árum og segir skynsamlegt að horfa til framtíðar þegar kemur að uppsetningu hleðslustöðva.

„Mér verður hugsað til nágranna míns sem fékk sér rafbíl og svo annan að ári, en sá það ekki fyrir og þurfti að setja upp aðra hleðslustöð með tilheyrandi fyrirhöfn. Margir eru með tvo til þrjá bíla á heimili og þá er betra að vera með fleiri en eina hleðslustöð til taks. Það er líka hagstæðari kostur en að fá rafverktaka aftur eftir eitt til tvö ár til að gera allt upp á nýtt.“

Í byggingarreglugerð er ákvæði um að gert skuli ráð fyrir hleðslubúnaði við hvert stæði, bæði inni og úti, í nýbyggingum og við endurnýjun bygginga.

„Þá er komið fyrir röra- og lagnaleið sem liggur að bílastæðunum og rafverktakar nota, hvort sem hleðslustöð er sett strax upp eða ekki. Þá er alltaf hægt að bæta við hleðslustöð með litlu jarðraski í stað þess að þurfi að brjóta upp bílaplanið til að leggja þar lagnir,“ útskýrir Kristján.

Í fjöleignarhúsalög eru líka komnar nýjar greinar um rafbílahleðslu.

„Húsfélög ættu undantekningarlaust að kynna sér nýju lögin. Í þeim er kveðið skýrt á um hvernig standa skal að málum ef setja þarf hleðslubúnað á sameiginleg bílastæði og/eða breyta stæðum í sameign í stæði fyrir rafhleðslu. Lögin voru sett til að einfalda ákvarðanatöku þar að lútandi því þeir sem eiga rafbíla hafa lengi verið í gíslingu í slíkum málum en lögin sjá nú um að leysa úr því.“

Þá er að aukast að sumarhúsaeigendur vilji hlaða rafbíla sína í bústaðnum.

„Það vekur spurningar um hvort rafkerfið í sumarhúsahverfinu þoli það, hversu gömul rafkerfin eru og hvort menn geti hlaðið þar bíla í stórum stíl. Löggiltir rafverktakar geta gengið úr skugga um það en þetta er líka umhugsunarefni fyrir orkufyrirtækin sem sjá sumarhúsahverfunum fyrir rafmagni þegar notkunin mögulega tvöfaldast af því fólk er farið að hlaða rafbíla sína á svæðinu. Því er ekki hægt að ganga að því vísu að hægt sé að hlaða bílana þar.“

„Með því að leita til löggiltra rafverktaka sem hafa réttindi til uppsetningar hleðslustöðva eru fagmennska og öryggi tryggð,“ segir Kristján hjá SART. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Mikilvægt að tryggja fagmennsku og öryggi

Aldrei er nógu oft brýnt fyrir fólki að eingöngu löggiltir rafverktakar mega leggja raflagnir og tengja hleðslustöðvar.

„Sumir hafa sérhæft sig í að þjónusta rafbílaeigendur og geta ráðlagt einstaklingum og húsfélögum um útfærslur. Á vefsíðunni sart.is er leitarvél og þar er hægt að finna lista yfir verktaka sem gefa sig út fyrir að gera þetta. Þar er líka að finna gagnleg myndbönd frá HMS, um hleðslu rafbíla og leita sér alls kyns upplýsinga. Að sama skapi bjóða mörg fyrirtæki innan SART upp á heildarlausnir við lagnavinnu, raflagnir og hleðslustöðvar í samvinnu við innflytjendur á hleðslustöðvum,“ upplýsir Kristján.

Þegar löggiltur rafverktaki hefur gengið frá öllum raflögnum og uppsetningu á hleðslustöð tilkynnir hann framkvæmdina til HMS.

„Á vefsíðunni meistarinn.is er gátlisti og góðar leiðbeiningar sem við bendum öllum í framkvæmdahug á að skoða, hvort sem verkið er stórt eða smátt. Við mælum alltaf með því að þeir sem eru í framkvæmdahug geri skriflegan samning þar sem fram kemur umfang verks og hvað beri að greiða fyrir. Við fáum alltof oft umkvartanir fólks sem fer í framkvæmdir án þess að gera kostnaðaráætlun eða fá tilboð frá verktökum. Þá er líka alltaf töluvert um að menn gefi sig út fyrir að vera rafvirkjar, píparar, múrarar og smiðir, án þess að hafa réttindi til þess. Því er ekki á vísan að róa og sé ekki staðið rétt að málum getur farið illa og menn lent í bullandi vandræðum því þeir sem vinna á svörtum markaði hafa engar tryggingar ef illa fer,“ segir Kristján.

Með því að leita til löggiltra rafverktaka á sart.is sé vinnan gulltryggð.

„Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja sér fagmennsku og öryggi. Einnig er hægt að fara á vef HMS, hms.is, og skoða þar lista með löggiltum fagaðilum. Það dugir nefnilega ekki að vera með sveinsréttindi því sveinar í rafvirkjun mega ekki taka að sér verkefni í eigin nafni, það verða að vera meistarar. Þetta virðist kannski vera flækjustig en þetta er gert til að neytendur geti gengið að því vísu að þeir kaupi vinnuna af fagaðilum með tilskilin réttindi.“

Allar frekari upplýsingar, myndbönd og umfjallanir á sart.is.