Hjá Heilsuvernd starfar öflugur hópur sérfræðinga úr ýmsum greinum heilbrigðisgeirans, sem skýrir hversu fjölbreytt þjónustuframboðið er, að sögn Elínar Hjálmsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs- og markaðsmála hjá Heilsuvernd. „Sú þjónusta sem hefur verið lengst í boði og er þekktust er fjarveruskráningar og trúnaðarlæknisþjónusta. Eins eru reglubundnar heilsufarsskoðanir starfsmanna og inflúensubólusetningar fastur liður hjá mörgum fyrirtækjum. Til viðbótar við þetta má nefna vinnuverndina, sálfræðiþjónustuna, úttektir á starfsstöðvum, áhættumat, velferðarþjónustu, markþjálfun og heilsueflandi fræðslufyrirlestra.“

Sérfræðingar í Streituskólanum, sem er í eigu Heilsuverndar, sérhæfa sig í meðhöndlun á streitu, bæði fyrir einstaklinga og hópa. „Að auki bjóðum við upp á ýmiss konar námskeið fyrir stærri og smærri hópa sem snerta á heilbrigði og vellíðan á fjölbreyttan hátt.“

Forvörn er rauði þráðurinn

Elín segir rauða þráðinn í þjónustuframboði Heilsuverndar vera forvörn. „Við viljum leggja fyrirtækjum lið í að styrkja stjórnenda- og starfsmannahóp sinn og fá um leið aðstoð og ráðgjöf við að grípa inn í hin ýmsu mál, en helst að koma í veg fyrir að til þeirra komi.“

Það hefur aukist mikið að fyrirtæki bjóði starfsmönnum sínum upp á „velferðarþjónustu“, sem þýðir að sögn Elínar að starfsmenn fá aðgang að skilgreindri þjónustu og ráðgjöf hjá Heilsuvernd. „Sú þjónusta varðar ekki endilega eingöngu starfsmanninn sjálfan heldur jafnvel nánustu fjölskyldu hans. Sem dæmi um þetta má nefna sálfræðiþjónustu, fjölskylduráðgjöf, markþjálfun, næringarráðgjöf o.fl. Þetta er í raun heildstæður pakki sem við getum boðið og sniðið að mjög miklu leyti að óskum hvers fyrirtækis. Þetta framtak fyrirtækja er vel metið af starfsmönnum og þau fyrirtæki sem hafa verið leiðandi í þessu hafa vakið athygli fyrir og uppskorið ánægju starfsmanna sinna og athygli samkeppnisaðila.“

Ráðgjafarhlutinn dýrmætur

Eins og fyrr segir er fjarveru- og veikindaskráningin sú þjónusta sem hefur verið lengst í boði og margsannað sig sem mikilvægan hlekk í góðri mannauðsstjórnun. „Þarna kemur enn og aftur fram forvarnarhugarfarið sem gildir hjá okkur. Með góðri skráningu myndast mikilvægur gagnabanki sem gefur hverju fyrirtæki upplýsingar um stöðu og tækifæri til úrbóta.“

Hún segir markmið þjónustunnar vera að draga úr fjarveru­tíðni, efla heilbrigði og vellíðan starfsmanna auk þess að veita fyrirtækjum yfirsýn yfir veikindamynstur vinnustaðarins þannig að hugsanlega megi bregðast við heilsuspillandi aðstæðum. „Ráðgjafarhlutinn er ekki síður dýrmætur fyrir starfsmanninn sjálfan, því þegar fyrirtæki eru í þjónustu um fjarvistarskráningar þá hefur starfsmaður samband í fjarveru sinni og fær faglega ráðgjöf varðandi veikindi sín. Starfsmaðurinn hefur jafnframt alltaf aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki Heilsuverndar til ráðgjafar og þjónustu á opnunartíma, jafnvel þó ekki sé um veikindafjarvist að ræða. Það er ákveðinn öryggisventill bæði fyrir starfsmanninn og fyrirtækið sjálft.“

Elín segir Heilsuvernd búa yfir mikilvægum gögnum varðandi veikindafjarveru og geti því gert ákveðna útreikninga og samanburð. „Það vilja allir vera lausir við veikindi en þau eru engu að síður hluti af lífi okkar. Því er mikilvægt fyrir fyrirtæki að átta sig á því hvort fjarvera starfsmanna vegna veikinda sé í meðallagi, yfir eða undir. Þá er hægt að bregðast við stöðunni hverju sinni.“

Skemmtilegar lausnir í sjónmáli

Þjónustuframboð Heilsuverndar er í sífelldri skoðun og segir Elín þau vera óhrædd við að bjóða upp á ný námskeið. „Vöxturinn felst í að þróast með vinnumarkaðinum og grípa tækifærin sem skapast með breytingum, eins og þeim öru breytingum sem eiga sér stað núna. Heilsa og vellíðan er „trend“ sem er komið til að vera. Án starfsmanna gerist ekki mikið í hefðbundnum rekstri og því er mikið í húfi fyrir fyrirtæki að huga að velferð starfsmanna sinna og láta sig málin varða. Við tökum svo auðvitað fullan þátt í tækniþróuninni og erum að vinna hörðum höndum að því að fara yfir þjónustuframboð okkar með tilliti til þeirra tækifæra sem tæknin býður upp á. Við sjáum auðvitað glitta í skemmtilegar lausnir þar. Tækifærin til vaxtar blasa við og við hyggjumst nýta þau vel.“