Neytendasamtökin fagna allri samkeppni, en samkeppni er hvati nýsköpunar og skilvirkni og leiðir til fjölbreytni og nýrri og betri vara á lægra verði, segir Breki Karlsson, formaður stjórnar Neytendasamtakanna. „Samtökin bentu á í umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum árið 2010 að þegar Mjólka hóf starfsemi sína í samkeppni við MS var það einmitt að mestu gert með kaupum á mjólk sem var umfram greiðslumark. Þar kom einnig fram að neytendur nytu góðs af innkomu Mjólku á markaðinn, greiðslur til bænda hefðu hækkað og vörur sem Mjólka framleiddi hafi lækkað í verði til neytenda,“ segir Breki þegar hann er spurður um helstu áhrif sem innkoma Mjólku hafði á samkeppnisumhverfið á sínum tíma.

Hægt að gera betur

Þótt innkoma Mjólku hafi haft marktæk áhrif á sínum tíma er hægt að gera enn betur. „Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina talið brýnt að auka frelsi innan mjólkuriðnaðarins og losa hann úr viðjum tolla og einokunar. Það væri hægt með því að afnema undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og ryðja úr vegi hindrunum gegn samkeppni á mjólkurmarkaði í búvörulögunum. Þá væri stjórnvöldum í lófa lagið að afnema tolla á innflutningi mjólkurvara en þannig hamlandi verndarstefna bitnar illa á neytendum.“

Lægra verð og aukið framboð

Breki leggur áherslu á að heilbrigð samkeppni skipti miklu máli fyrir smásöluverslun hér á landi og enn frekar neytendur. „Um þýðingu virkrar samkeppni hafa verið skrifaðar margar lærðar greinar. Samkeppni hefur meðal annars áhrif á framleiðni, nýsköpun og hagvöxt en einnig á þætti eins og fæðuöryggi, ójöfnuð og velferð neytenda. Það gerir hún meðal annars með því að stuðla að því að neytendur fái vörur og þjónustu á sem lægstu verði, með auknu vöruframboði, betri þjónustu, minni sóun, nýsköpun og svo framvegis. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir neytendur að virk samkeppni ríki á sem flestum sviðum.“

Öflugt eftirlit nauðsynlegt

Breki segist harma alvarleg brot Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum sem Samkeppniseftirlitið afhjúpaði og Hæstiréttur staðfesti fyrr á þessu ári. „Málið sýndi enn á ný að íslenskur neytendamarkaður þarfnast öflugs og virks samkeppniseftirlits. Ég bendi þó á að sektargreiðslur sem ganga til ríkisins gagnast hvorki heiðarlegum fyrirtækjum í samkeppni við lögbrjóta, né þeim sem verða á endanum fyrir brotunum, það er að segja neytendum. Neytendur bera skarðan hlut frá borði.“

Hann segir að ef tilskipun 2014/104/ESB hefði verið innleidd eða sambærileg lög sett, væri auðveldara fyrir brotaþola að sækja skaðabætur. „Í lögum sem auðvelduðu neytendum að sækja bætur ef fyrirtæki brjóta samkeppnislög fælust þannig mikill fælingarmáttur. Neytendur treysta nefnilega á virka samkeppni og tilraunir til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni er aðför að neytendum.“