Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marels á Íslandi, var heiðruð á árlegri Viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu í gær fyrir að hafa verið öðrum konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Guðbjörg er menntuð sem iðnaðarverkfræðingur og hefur starfað hjá Marel í átta ár.

„Tíminn hjá Marel hefur verið ótrúlega skemmtilegur, Marel er stórt fyrirtæki og þar leggur fullt af fólki hönd á plóg svo vel megi ganga. Ég er að gera það sama,“ segir Guðbjörg. „Ég er mjög árangursdrifin, því það er okkar allra vilji að nýta þekkingu til framfara. Mér finnst mikilvægt að þora að taka ákvarðanir og keyra hlutina áfram, það gengur alltaf þegar við náum að tala saman, sýnum sanngirni og hlustum á hvert annað.

„Það er aldrei í boði að gefast upp þó að lausnin sé stundum ekki alveg í sjónmáli,“ segir Guðbjörg. „Þegar öll sund virðast lokuð þarf maður að þroskast og nýta sköpunarkrafta til að komast áfram.“

Góðar vörur og góður vinnustaður

Guðbjörg hefur sinnt mörgum stórum verkefnum undanfarið ár.

„Á síðasta ári náðum við mörgum mikilvægum áföngum í að gera vinnustaðinn okkar betri. Við fórum í gegnum jafnlaunavottun, innleiddum ný fjármála- og starfsmannakerfi, unnum að því að stytta vinnuvikuna og fórum líka í að innleiða stefnu um margbreytileika og fjölbreytni. Þá kynnti Marel einnig til leiks 30 nýjar lausnir sem munu tryggja að matvæli verði framleidd á öruggari og sjálfbærari hátt um allan heim,“ segir Guðbjörg. „Það eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast í vöruþróun og við erum til dæmis að stíga stór skref í mikilvægum stafrænum verkefnum sem verða kynnt á þessu ári. Þá náðum við einnig stórum áfanga á árinu þegar Marel var skráð í kauphöllina í Amsterdam, sem styður við langtímaáform félagsins um vöxt og virðisaukningu. Við erum líka að straumlínulaga ferla svo hlutirnir gangi greiðlega fyrir sig innanhúss.

Fram undan er svo að halda áfram að búa til stafrænar lausnir og sjálfvirknivæða, en það felast mörg tækifæri í að búa til nýjar vörur með allar þessar tækninýjungar sem eru að ryðja sér til rúms,“ segir Guðbjörg. „Við ætlum líka að halda áfram að dýpka samtalið um hvernig maður býr til góðan vinnustað, þannig að við getum bæði haldið áfram að búa til góðar vörur og tryggja að starfsfólkinu okkar líði vel í vinnunni og nái að fullnýta sína hæfileika.“

Ástríða fyrir jafnréttismálum

„Það er gaman að hafa fengið þessa viðurkenningu frá FKA og hún kom skemmtilega á óvart,“ segir Guðbjörg. „Ég hef áhuga á jafnréttismálum og á að búa til góðan vinnustað og hef lagt mig fram við að bæði tala fyrir jafnrétti og sýna jafnrétti í verki í mínum störfum. Það er frábært að fá viðurkenningu fyrir eitthvað sem maður hefur ástríðu fyrir.

Þó að við sjáum menningarbreytingar og aukið jafnvægi í samfélaginu er enn umbóta þörf, eins og sést á því að um helmingurinn af fyrirtækjum sem áttu að vera komin með jafnlaunavottun í lok árs 2019 er ekki búinn að klára það verkefni,“ segir Guðbjörg. „Ef jafnrétti þýðir meðal annars meiri valddreifing þá er það ekki alveg að eiga sér stað. Eins og sést á framkvæmdastjórnum og forstjórastólum fyrirtækja þá stjórna konur ekki jafn miklu og eru ekki með jöfn laun á við karla. Þær konur sem komu á undan okkur lögðu hart að sér til að tryggja aukið jafnrétti og við þurfum að halda vinnunni áfram.

Nú er mikið talað um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð og þetta felur í sér tækifæri. Við konur ættum að skoða þetta mjög vel, ég held að þarna sé fullt af tækifærum fyrir okkur,“ segir Guðbjörg.

En það er líka annað sem þarf að hafa í huga í öllum verkefnum sem maður vasast í, það á alltaf að hafa það sem skemmtilegra reynist. Það má aldrei gleyma því að hafa gaman,“ segir Guðbjörg að lokum.