Verslunin er staðsett á nýja hafnarsvæðinu við hlið Edition-hótelsins og nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Hörpu.

Basalt arkitektar hönnuðu nýju verslunina og sóttu innblástur sinn í íslenskt veður og umhverfi. Búðarborðið er með íslenskri flóru eftir hönnuðinn Rögnu Ragnars. Í borðplötunni eru þurrkaðar blómajurtir og hliðarnar eru steyptar úr svörtum sandi.

Búðarborðið hyllir íslenska náttúru.

Í mátunarklefum verslunarinnar má finna Erm-stólana eftir hönnuðina Valdísi Steinars og Arnar Inga. Stólarnir, sem voru frumsýndir á HönnunarMars 2022, eru gerðir úr ermum af úlpum sem ekki er hægt að gera við.

Sjálf staðsetningin er bein skírskotun í söguna og arfleifð 66°Norður, en fyrirtækið hóf framleiðslu á skjólfatnaði fyrir sjómenn fyrir tæplega einni öld.

Sagan hófst sumarið 1924 þegar Hans Kristjánsson frá Suðureyri við Súgandafjörð fékk styrk frá Fiskifélagi Íslands til að ferðast til Noregs og kynna sér sjóklæðagerð. Á þessum tíma klæddust flestir sjómenn skósíðum stökkum frá Noregi og Bretlandi.

Þegar Hans sneri aftur hóf hann sjóklæðagerð á Suðureyri og tókst að halda framleiðslunni úti heilan vetur við erfiðar aðstæður. Hann hafði háleitar hugmyndir og vildi búa til sjóklæði fyrir alla landsmenn svo ekki þyrfti að reiða sig á innflutt föt. Hann vissi að til að svo mætti verða þyrfti hann að geta dreift vörunni greiðlega til allra landshluta.

Því fór svo að Hans Kristjánsson flutti með fjölskyldu sína til Reykjavíkur og stofnsetti Sjóklæðagerð Íslands í bakhúsi við Laugaveg 24 árið 1926.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Verslunin á Hafnartorgi er rúmgóð og glæsileg.

Verslunin við Hafnartorg er 300 fermetrar og með stærstu verslunum 66°Norður. Í versluninni er að finna handverk eftir íslenska hönnuði og er megináherslan á sjálfbærni. 66°Norður hefur markvisst unnið í því að draga úr umhverfisáhrifum og er kolefnishlutlaust frá árinu 2019.

Víða um búðina má finna stóra skúlptúra sem eru hluti af sýningu listakonunnar Öldu Ægisdóttur, Útópíu. Verkin eru innblásin af frumum, bakteríum, plöntum og skordýrum, og draga fram litlu heimana sem leynast allt í kringum okkur.

„Það er margt um að vera á Hafnartorgi Gallery í aðdraganda hátíðanna og fjölbreytt dagskrá á svæðinu,“ segir Aldís Arnardóttir, sem stýrir verslunarsviði 66°Norður. „Við leggjum okkur fram við að taka þátt í að skapa góða jólastemningu í aðdraganda jólanna og núna á laugardaginn (í dag) verðum við til að mynda með kynningu í verslun okkar á Hafnartorgi á vörulínu sem við unnum í samstarfi við Fischersund, sem samanstendur af ilminum Útilykt og kerti og tei í sömu línu.“

Aldís Arnardóttir stýrir verslunarsviði 66°Norður.

Að sögn Aldísar er desember stór mánuður hjá 66°Norður. „Það er alltaf mikil stemning sem skapast í aðdraganda jólanna. Verslunin á Hafnartorgi er frábær viðbót við aðrar verslanir okkar, enda í hjarta borgarinnar þar sem er að byggjast upp sterkur og skemmtilegur verslunar- og þjónustukjarni sem við hvetjum alla til að heimsækja núna í aðdraganda jóla.“

Mynd/Aðsend

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður

„Það var ávallt keppikefli hjá okkur að opna verslun þarna við gömlu höfnina enda var upphaf Sjóklæðagerðarinnar í beinni tengingu við sjóinn og við framleiðslu á skjólfatnaði fyrir íslenska sjómenn sem við sinnum enn þá í dag.“