Jólahlaðborð Hótel Arkar verður á sínum stað í ár eins og undanfarin ár með örlítið breyttum hætti en áður. Verðlaunakokkar standa fyrir dýrindis hlaðborðsveitingum á veitingastaðnum Hver, en staðurinn hlaut Íslensku lambakjötsverðlaunin í maí síðastliðnum.

„Síðastliðin fimmtán ár höfum við haldið jólahlaðborð fyrir hvort heldur fyrirtækjahópa, pör eða einstaklinga. Við stefnum að því að halda jólahlaðborð með breyttu sniði í ár. Maturinn verður eins og vanalega með hefðbundnu og hátíðlegu sniði með nokkuð af villibráð í bland. Þá verður borið fram á borðin í stað þess að hafa eitt stórt hlaðborð fyrir allan salinn. Lagt verður upp með að vera með hringborð fyrir um 8-10 manna hópa og svo sérborð fyrir einstaklinga eða pör.

Jakob Arnarson, hótelstjóri á Hótel Örk, mælir með að hótelgestir nýti sér sundaðstöðuna enda er gufubaðið einstakt á landsvísu.

Við byrjum á gómsætri súpu sem borin er fyrir hvern og einn matargest. Svo eru forréttirnir bornir fram á hópaborðin þannig að hóparnir skammta sér sjálfir. Sama gildir um eftirréttina og aðalréttina sem verða bæði kaldir og heitir réttir, með meðlæti og öllu tilheyrandi. Í tilfelli þeirra sem koma ekki í hópum verður maturinn borinn fram á sérdiskum fyrir hvern og einn,“ segir Jakob Arnarson, hótelstjóri á Hótel Örk.

Jólahlaðborðin á Örkinni hafa verið vinsæl hjá mörgum gestum sem koma aftur og aftur. Ingvar Jónsson, sem margir þekkja úr Pöpunum, tekur glaðlega á móti gestum með ljúfum tónum og hátíðlegri skemmtidagskrá.

Rífandi stemning

Ingvar Jónsson sem margir þekkja úr Pöpunum tekur á móti gestum með ljúfum tónum og skemmtidagskrá, en Ingvar hefur getið sér gott orð sem veislustjóri. „Þetta er þriðja árið sem hann er veislustjóri á hlaðborðinu hjá okkur en hann hefur alveg einstakt lag á því að ná til sem allra flestra, ungra sem aldinna veislugesta.“ Jakob segist búast við að stemningin í ár verði góð og hátíðleg. „Svo er aldrei að vita hvernig ástandið verður í lok nóvember og desember. Ef við erum heppin og ef Þórólfur lofar þá er kannski hægt að hafa diskaþeyti sem heldur uppi stuðinu fram til ellefu. En við förum að sjálfsögðu eftir öllum þeim sóttvarnareglum sem eru gildandi hverju sinni.“

Helgarnar þrjár sem jólahlaðborðið stendur til boða: Föstudagar og laugardagar 27. og 28. nóvember, 4. og 5. desember og svo 11. og 12. desember.

Gisting

Hótelið var stækkað töluvert fyrir tveimur árum og er nú hið glæsilegasta. „Það er alltaf gott að koma í kyrrðina hér í Hveragerði og hótelið er mikill griðastaður. Við bjóðum upp á hagstætt gistináttaverð á hótelinu fyrir þá sem langar að gera aðeins meira úr jólahlaðborðinu. Eftir ljúffengan amerískan morgunverð á hótelinu er tilvalið að skella sér í heit böð áður en haldið er heim á leið. En á hótelinu erum við með afar notalega sundlaug fyrir hótelgesti og heita potta. Einnig er hér að finna eitt náttúrulegasta gufubað á landinu, og er gufan leidd beint úr jörðinni og inn í gufubaðið.“

Nánari upplýsingar eru veittar á vefsíðu hótelsins hotelork.is og á Facebook: Hótel Örk, þegar nær dregur. Hótel Örk, Breiðamörk 1c – 810 Hveragerði. Sími: 483-4700