Raquelita Aguilar, framkvæmdastjóri hjá Stokki, segir að fyrirtækið sé leiðandi í apphönnun og -þróun en mikil sérþekking sé í fyrirtækinu. „Við ráðleggjum, hönnum og þróum öpp ásamt því að gera fallegar veflausnir. Við búum yfir gríðarlegri reynslu á þessu sviði og höfum varið miklum tíma í að viða að okkur þekkingu og komast á þennan stað,“ segir hún. „Í dag forritum við í það sem kallast „cross-platform“, lausn sem heitir FLUTTER og er bara einn kóðabasi. Þetta gefur okkur þá sérstöðu að við smíðum notendavæn öpp á minni þróunarkostnaði og styttri tíma en hér áður fyrr.

Við höfum þróað mörg af vinsælustu öppum á Íslandi eins og Domino’s, Strætó, Aur, Einkaklúbbinn, Lottó, EVE Online, Leggja og Alfreð Atvinnuleit. Þetta er þó bara brot af því sem við höfum gert og er von á miklu fleiri öppum á næstu árum,“ segir Raquelita.

Hjá Stokki starfa núna tólf starfsmenn sem samanstanda af bakendaforriturum, vefforriturum, appforriturum, hönnuði og verkefnastjóra ásamt Raquelitu. „Margir sinna fleiru en einu hlutverki sem er mikill kostur fyrir okkur þar sem við erum ekki það mörg. „Full stack forritari“, eða forritari sem getur sinnt verkefnastjórnun, er mjög verðmætur starfskraftur að mínu mati,“ segir hún.

Skrifstofur Stokks eru á Skólavörðustíg og í Prag sem einn af eigendunum stýrir. „Við erum einnig í þessum töluðum orðum að byggja upp teymi í Mexíkó. Ástæðan fyrir Mexíkó er einfaldlega sú að hjá okkur starfaði mjög fær mexíkóskur forritari í tvö ár. Þegar hann flutti aftur heim ákváðum við að halda samstarfinu áfram og höfum við nú byggt upp teymi í kringum hann.

Raquelita Aguilar, framkvæmdastjóri hjá Stokki Software. MYND/STEFÁN

Það er stöðug vöruþróun í gangi, hvort sem um er að ræða nýsköpun, eða viðhaldsvinnu. Við erum að vinna núna að nokkrum mjög skemmtilegum verkefnum og erum nánast að verða fullbókuð út árið svo nú fer hver að verða síðastur að ná inn fyrir 2019,“ segir Raquelita og hlær.

„Við erum einnig að vinna að mjög skemmtilegu verkefni sem við eigum sjálf og getum ekki beðið eftir að kynna fyrir almennum markaði en því miður get ég ekki talað um það að svo stöddu. Við erum reyndar með nokkur svona „gælu“-verkefni í gangi sem við eigum sjálf. Þannig verkefni gera vinnuna enn skemmtilegri þar sem starfsfólkið fær að taka fullan þátt í ákvarðanatöku og hefur þannig sterk áhrif á útkomuna.“

Er langt ferli að búa til app fyrir fyrirtæki?

„Öpp eru mjög mismunandi eins og þau eru nú mörg en ef við tökum mið af flækjustigi verkefnisins þá getum við sagt að ferlið taki 3-9 mánuði og fer þessi tími mikið eftir því hvort bakendavirkni sé til staðar eða ekki. Það vita kannski ekki allir en mörg öpp eru „heimsk“ ef svo má að orði komast, þ.e.a.s. án bakendavirkni og gagnagrunns væru þau gagnslaus. Eitt lítið og krúttlegt app er oftar en ekki hluti af miklu stærra kerfi sem inniheldur bakenda, gagnagrunn og jafnvel vefsíðu til að stýra efni. Allir eru velkomnir til okkar sem hafa raunhæfa hugmynd og kröfur. Best er að bóka fund með okkur og senda á okkur smá samantekt um app-hugmyndina svo að það fáist sem mest út úr tímanum okkar saman.

Kúnnarnir okkar skiptast í tvo hópa. Í fyrri hópnum eru rótgróin fyrirtæki sem vilja betrumbæta þjónustustigið fyrir notendur sína með t.d. appi. Svo er það hinn hópurinn, sem er með hugmynd að appi sem hann vill að verði að veruleika en hann veit ekki hvar á að byrja eða hvernig. Í báðum tilfellum mælum við með því að taka svokallaðan Hönnunarsprett með okkur (e. Design Sprint) en í honum felst að þarfagreina og hanna, að hluta til, appið á einungis 5 dögum! Við höfum verið með þessa þjónustu á þriðja ár með ótrúlegum árangri. Nýjasta barnið okkar sem fæddist núna í febrúar, Lottó-appið, er einmitt afkoma Hönnunarspretts. Við upplifum oft að það séu einhverjir galdrar sem gerast í þessum hönnunarsprettum. Svo er alltaf jafn gaman að kynnast viðskiptavinum okkar á þennan hátt, það myndast sterkari viðskiptatengsl enda eru allir að fjárfesta tíma sinn í að skilja og greina vöruna ásamt því að skilja þarfir viðskiptavinar.“