Meistaranám í verkefnastjórnun hjá Háskólanum í Reykjavík er stjórnunar- og leiðtoganám sem býr nemendur undir að stjórna viðamiklum verkefnum, fyrirtækjum, félögum, stofnunum og teymum.

„Við höldum því fram að MPM-námið sé stjórnendanám 21. aldarinnar,“ segir Haukur Ingi Jónasson, lektor við HR og stjórnarformaður námsins. „Þá er mikið sagt, en við getum staðið við þetta því við vöktum stöðugt hvað er að gerast á þessu sviði og tökum í raun þátt í að móta fagið á alþjóðlegum vettvangi."

Fjórar fræðibækur í regnbogalitum

„Leiðandi fyrirtæki eins og t.d. Google, háskólar á borð við MIT, viðskiptaleiðtogar, fræðimenn og ríkisstofnanir auk fagfélaga (IPMA, APM, PMI) keppast við að skilgreina þá þekkingu og hæfni sem atvinnulíf 21. aldarinnar krefst,“ segir Haukur. „Meðal þess sem við höfum lagt í púkkið eru fjórar fræðibækur um stjórnun sem nýlega komu út í Bandaríkjunum og á Englandi. MPM-námið í HR er þannig hluti af vaxandi alþjóðlegri hreyfingu sem vill tryggja að nemendur geti notið velgengni í heimi sem breytist hratt. Við leggjum líka mikla áherslu á að nemendur hafi uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt og geri heiminn að betri stað.“

Stöðugar breytingar eru krefjandi fyrir háskóla

„Við lítum eðlilega til eiginleika sem eru taldir best til þess fallnir að einkenna hagnýtt stjórnunarnám á meistarastigi, til dæmis að hafa vald á gagnrýninni hugsun með skapandi og siðrænum hætti, að geta leyst flókin vandamál og síðast en ekki síst að geta stýrt teymum og starfað í teymum,“ segir Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður námsins. „Við setjum fræðilega þekkingu í hagnýtt samhengi, nemendur reyna hana á eigin skinni og þeir þurfa líka að sýna fram á að þeir geti beitt henni. Í dag er mjög auðvelt að afla sér upplýsinga og menntunarkröfur stjórnenda snúast því fyrst og fremst um að geta nýtt sér upplýsingar og að geta unnið í samstarfi við aðra.

Samfélagið, efnahags- og atvinnulífið, tæknin og reyndar vistkerfið allt, þetta er háð stöðugum breytingum. Í atvinnulífinu þurfa stjórnendur stöðugt að fást við alls konar breytingar. Þetta skapar kröfur fyrir háskóla, sem eiga að búa nemendur undir að takast á við og leiða slíkar breytingar,“ segir Helgi Þór.

Menntun fyrir líf og starf

„Niðurstaða World Economic Forum í skýrslunni „New Vision for Education: Unlocking the Potential of Technology“ var að 21. öldin kalli helst á að fólk hafi læsi á texta, tölur, vísindi, upplýsingatækni, fjármál, menningu og upplýsingar sem snerta hlutverk okkar sem þegnar í samfélaginu. Þar er líka bent á nauðsyn þess að geta beitt gagnrýninni hugsun við lausn vandamála og á mikilvægi samskipta- og samstarfsfærni,“ segir Haukur. „Hvað persónuleikann varðar þá eru eiginleikar á borð við sköpunargleði, frumkvæði, þrautseigju, aðlögunarhæfni, forvitni, leiðtogahæfni, og félags- og menningarlega meðvitund í fyrirrúmi.“

Í úttekt Partnership for 21st Century Learning (P2) sem nefnd var „Education for Life and Work: Developing Transferable Knowledge and Skills in the 21st Century“ var getan til að beita gagnrýninni hugsun við greiningu og úrlausn vandamála, ákvarðanatöku, túlkun og rökvísi talin mikilvægasta færnin fyrir 21. öldina. Þegar kemur að þekkingu var talið mikilvægt að leggja áherslu á upplýsinga- og tæknilæsi, munnleg og skrifleg samskipti og virka hlustun,“ segir Haukur. „Svo er talin til mikilvæg persónuleg hæfni eins og forvitni, aðlögunarhæfni, samskiptafærni, siðferðisþrek, samviskusemi, skipulag og viðvarandi nám. Það skiptir líka máli að hafa jákvætt sjálfsmat og að sjálfsögðu eru líkamleg og andleg heilsa líka undirstöðuatriði.“

Google og MIT – hæfni til samskipta lykilatriði

Helgi nefnir einnig verkefni hjá Google sem gekk út á að finna lykileiginleika góðra stjórnenda, en þar snýst allt um getu til að stýra verkefnateymum. Hann segir að niðurstaðan hafi verið að leiðtogar þyrftu að vera hvetjandi, en ekki með nefið í hvers manns koppi, hafa næmi fyrir vellíðan samstarfsfólks, vera árangursdrifnir, hafa skýra sýn og stefnu og geta sett sig inn í tæknileg viðfangsefni. „Leiðtogi á líka að vera góður í samskiptum, þannig að hann hlusti og deili upplýsingum af skilvirkni og hjálpi starfsfólki að þroskast faglega,“ segir Helgi.

„Vísindamenn við MIT telja hæfnisþætti 21. aldar einkum snúa að leikgleði, ábyrgð, sjálfstæði í vinnubrögðum, getu til að vinna að mörgum verkum samhliða og í samstarfi við aðra, hafa samkennd og góða dómgreind, og getu til að skilja fjölbreytileika og vinna með fjölþættar upplýsingar,“ bætir Helgi við.

„Allar þessar niðurstöður móta grunninn sem MPM-námið hjá HR byggir á og við sjáum að atvinnulífið kann vel að meta okkar fólk,“ segir Haukur. „Við fylgjumst með því sem best er vitað og talið er eftirsóknarverð hæfni fyrir framtíðina og mótum námið eftir því. Námið sinnir öllum þessum þáttum mjög vel og undirbýr nemendur þannig undir stjórnunarstörf á 21. öld.“

Svavar G. Svavarsson, forstöðumaður verkefnastofu hjá Össuri.

Breytti samskiptum við aðra

Svavar G. Svavarsson, forstöðumaður verkefnastofu hjá Össur, segir að MPM-námið hafi breytt lífi hans verulega. „Mannlega nálgunin að verkefnastjórnun opnaði augu mín, þar sem ég kom sjálfur úr tæknigeiranum,“ segir hann. „Ég græddi ýmislegt og lærði að til að vera árangursríkur í að fá fólk til að vinna fyrir þig þarftu fyrst að þekkja sjálfan þig mjög vel.

Fyrsti hluti námsins fór í að líta inn á við og skoða sig og sín gildi og það var mjög áhugavert. Í framhaldi af því lærir maður hvernig maður nýtir þessa þekkingu til að skynja hvernig öðrum líður, hvað þau eru að eiga við og hvernig er hægt að hjálpa og að auðvelda fólki að ná fram bestu útgáfunni af sjálfum sér,“ segir Svavar. „Þetta er líka gott í daglegu lífi og hefur breytt samskiptum mínum við annað fólk heilt yfir. Maður skynjar mismunandi týpur betur og nálgast fólk á mismunandi hátt.

Svavar segir líka að það hafi verið magnað hvernig kennararnir náðu að fá 35 manna hóp með mjög ólíkan bakgrunn til að vinna saman. „Það var mjög sérstakt,“ segir Svavar. „Ég starfa líka með nokkrum einstaklingum sem hafa klárað þetta nám og þetta fólk skynjar hlutina öðruvísi og við göngum í öðruvísi takti.“


Nánari upplýsingar um MPM-námið má finna á hr.is/mpm