SagaNatura þróar og framleiðir íslensk fæðubótarefni og heilsuvörur úr þörungum og heilsujurtum. Þörungarnir eru ræktaðir hér í Hafnarfirði og við notum einnig lífræna ætihvönn úr Hrísey. Það er í raun grunnurinn í fyrirtækinu,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir, framkvæmdastjóri SagaNatura. „Þessar heilsuvörur eru seldar á Íslandi, sem er mjög mikilvægur heimamarkaður fyrir fyrirtæki sem er að byggja sig upp. Um leið erum við að byggja upp erlenda markaði þar sem við seljum bæði hráefni og tilbúnar vörur. Þannig fáum við tekjurnar hraðar inn og getum því byggt fyrirtækið hraðar upp, en það tekur langan tíma að byggja upp markað fyrir eigið vörumerki.

Við byrjuðum að byggja fyrirtækið upp árið 2014 og höfum þróað allan búnað sem við notum. Við höfum líka byggt upp alla starfsferla og skapað þessar vörur sem eru á markaði í dag,“ segir Sjöfn. „Við erum einnig að byggja upp markaðssetningu og vörumerki í kringum vörurnar.

Í svona viðskiptaþróun skiptir miklu máli að byggja upp öflugt teymi. Öll okkar framleiðsla byggir á vísindum og við erum með öflugt rannsóknar- og þróunarstarf hér á Íslandi og einnig í samstarfi við erlenda aðila. Teymið okkar rannsakar bæði hráefnin okkar og vörurnar og tryggir að þær virki, sem er auðvitað lykilatriði,“ segir Sjöfn. „Síðan erum við líka búin að byggja upp framleiðsluteymi og sölumarkaðsteymi, þannig að hér er kominn fimmtán manna hópur. Það skiptir miklu máli að byggja upp svona vinningslið.

Á fáum árum er því búið að byggja upp fyrirtæki sem er hér í 1.000 fermetrum og ræktar þörungana, rannsakar, þróar vörur og gæðaeftirlit og byggir upp nýja markaði og sölu,“ segir Sjöfn. Það er því margt búið að gerast á stuttum tíma.

„Við umfangsmikla ræktun notar maður auðvitað heilmikið rafmagn,“ segir Sjöfn. „Það skiptir miklu máli fyrir Ísland að tryggja að fyrirtæki eins og okkar hafi aðgang að rafmagni og það sé samkeppnishæft verð á rafmagni til framtíðar.

Sú staðreynd að við framleiðum ekki bara hráefni heldur líka tilbúnar vörur skapar mikla virðisaukningu fyrir fyrirtækið og líka fyrir Ísland,“ segir Sjöfn. „Það er algengt að íslensk hráefni séu seld úr landi, en við erum að búa til virðisaukningu í gegnum allt ferlið, sérstaklega á þessum síðustu skrefum þegar við búum til vörur sjálf. Rannsóknarteymið okkar og þessi þróun á vörum og mörkuðum skilar því mjög mikilvægum ávinningi.“

Þörungar styrkja líkamann

„Í upphafi var farið af stað með þörungana, sem eru í raun eins konar grænmeti, og vægi þeirra í matvælaframleiðslu á örugglega eftir að aukast í framtíðinni,“ segir Sjöfn. „Að mínu mati erum við bara að sjá toppinn á ísjakanum. Það verða miklu fleiri vörur.

Við framleiðum líka hráefnið astaxantin, sem er í mörgum af okkar vörum og er mjög gott fyrir þá sem vilja vera öflugir í ræktinni. Þetta efni ver líkamann fyrir öldrun og styrkir frumur í öllum líkamanum,“ segir Sjöfn. „Við notum líka þörunginn sjálfan, eins og í vörunni AstaSkin. Þar notum við heilan þörung, en þörungar eru þekktir fyrir hvað þeir hafa mikið af innihaldsefnum sem styrkja líkamann. Þeir eru mjög ríkir af bæti- og næringarefnum.

SagaNatura býður upp á breitt vöruúrval, 15 vörur alls. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Það er sérstakt að nota allan þörunginn og í raun er það hluti af frumkvöðlastarfi okkar að nota hráefnið öðruvísi en aðrir,“ segir Sjöfn. „Flestir nota bara olíuna, sem er bara um 30 prósent af þörungnum, en þessi vara er úr öllum þörungnum, með öllum næringarefnunum sem honum fylgja.

Allur þörungurinn er líka notaður í nýju vörunni okkar, AstaEye. Þetta skiptir mjög miklu máli og rannsóknir okkar sýna að hann nýtist jafn vel og olíurnar og í raun enn betur, því hann hefur fleiri gagnleg innihaldsefni,“ segir Sjöfn. „Þessi frumkvöðlahugsun hjá okkur aðskilur okkur að nokkru leyti frá ýmsum öðrum fyrirtækjum sem nota svipað hráefni.

Við erum líka í mikilli vöruþróun og erum að auka vöruúrvalið okkar verulega, bæði undir eigin merki og annarra. Þannig getum við stækkað hratt,“ segir Sjöfn. „Við erum komin með mjög breitt vöruúrval og alls fimmtán vörur.“

Ýmsar vörur úr hvönninni

„Við framleiðum líka vörur úr lífrænni ætihvönn úr Hrísey, sem hefur verið rannsökuð allt frá árinu 2000. Varan SagaPro, sem margir þekkja, kemur úr henni og er sjálf með lífræna vottun. Virka efnið í SagaPro hjálpar þeim sem eru að kljást við ofvirka blöðru og það er náttúrulega lausn án allra aukaverkana,“ segir Sjöfn. „Þeir sem hafa ofvirka blöðru þurfa oft að pissa á nóttunni, en 10% af fólki í heiminum hefur þessi einkenni. Þetta er því mjög stór markhópur og þessi vara er seld víða um heim, bæði í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Finnlandi, á Nýja-Sjálandi og víðar.

Voxis hálstöflurnar eru unnar úr laufum hvannarinnar, en þær eru góðar fyrir hálsinn og raddböndin og margir söngvarar nota þær,“ segir Sjöfn. „Þessi vara er til í nokkrum tegundum og er mjög vinsæl á Íslandi, sérstaklega á haustin.

Svo er ný vara úr hvönninni fyrir konur að koma á markað, SagaFemme. Þar er búið að búa til ákveðna blöndu til að bæta heilsu þvagblöðrunnar,“ segir Sjöfn. „SagaPro hefur höfðað frekar til karla þannig að við vildum sinna konunum betur.“

Fyrirtækið í hraðri þróun

„Núna erum við að fara í nýjar klínískar rannsóknir á SagaPro og þá fáum við betri upplýsingar um virknina, sem á eftir að styðja markaðssetningu vörunnar,“ segir Sjöfn. „Það þarf samt reyndar að gera rannsóknina á Spáni, af því að það eru svo margir sem nota vöruna hér á landi. Það er auðvitað bara þannig að svona vörur verða vinsælar af því að þær virka.

Fyrirtækið hefur verið byggt upp á skömmum tíma en í samstarfi við mjög sterka fjárfesta og Eyrir Sprotar hafa leikið lykilhlutverk hjá okkur, en um tuttugu aðrir fjárfestar hafa líka komið að fyrirtækinu,“ segir Sjöfn. „Við höfum stækkað fyrirtækið hratt og mikið og bara á þessu ári höfum við aukið framleiðslugetuna verulega.“