Hvenær hófuð þið starfsemi? Hvað hefur breyst í gegnum árin?

„Aurum var stofnað 1999 og er því 20 ára í ár og hefur allan þann tíma verið með verslun í miðbænum. Okkur finnst gott að vera með verslun þar og er miðbærinn mun fjölbreyttari og líflegri nú en hann var okkar fyrstu ár í rekstri. Það hefur margt breyst hjá okkur, fyrirtækið hefur stækkað og er nú með viðskiptavini víða um heim,“ segir Karl Jóhann Jóhansson, en hann, ásamt eiginkonu sinni, Guðbjörgu Kr. Ingvarsdóttur er eigandi Aurum.

Hver er ykkar sérstaða?

„Skartgripir unnir úr eðalmálmum og bronsi, við höfum í gegnum árin skapað okkur sérstöðu með vinnuaðferðum og hönnun sem margir þekkja núorðið. Við notum aðeins endurunnið hráefni í alla skartgripina sem er þá endurunnið silfur og gull og okkar sérstöku umbúðir eru unnar úr mórberjatré sem þarf ekki að fella heldur er pappírinn unnin úr berkinum á trjánum. Þá erum við fjölskyldurekið fyrirtæki og vinnum með viðskiptavinum okkar á persónulegum vettvangi.“

Afmælislínan, Erika, er meðal annars innblásin af íslenskri náttúru.

Í tilefni þessa stóra áfanga hannaði Guðbjörg sérstaka afmælislínu. Geturðu sagt nánar frá afmælisskartgripalínunni?

„Já, afmælislínan heitir Erika. Hún sýnir vel þróunina sem hefur verið á Aurum skartgripum í gegnum árin og hvernig áhuginn hefur aukist á að vinna með áferðir og liti. Hugmyndin er sótt í íslenskan gróður eins og fyrir 20 árum og er því áhugavert að sjá hvernig skartið hefur aðra nálgun nú en þá og sýnir vel hvernig skartið hefur þróast á þessum árum. Ég hef gaman af því að skora á sjálfa mig og er ekki mikið fyrir að endurtaka mig. Hver skartgripalína hefur sína sögu og allar hafa þær sínar tengingar, flestar í náttúruna. Það á að vera líf í skartgripunum eins og í náttúrunni,“ segir Guðbjörg.

Hvað felst í stækkuninni?

„Við erum að breyta versluninni okkar í Bankastrætinu, stækka hana út í millirýmið sem er á milli Aurum skartgripabúðarinnar og hönnunarverslunarinnar Nielsen sérverzlun. Þetta verður upplifunarrými, grænt og fagurt.“

Ætlið þið ekki að halda upp á afmælið og nýju skartgripalínuna?

„Jú, við verðum með afmælisboð í versluninni okkar 5. desember þar sem við fögnum þessum tímamótum. Og opnum inn í nýja rýmið með sýningu á 20 ára afmælislínunni, þar verða líka til sýnis eldri sýningarstykki sem sýna vel hvernig Aurum skartgripir hafa þróast í gegnum árin. Við ætlum einnig að vera með óvæntar uppákomur fyrir viðskiptavini okkar og munum auglýsa það á okkar samfélagsmiðlum þegar nær dregur,“ segir Karl, fullur eftirvæntingar.

Nú bjóðið þið upp á fimm ára ábyrgð, ekki satt?

„Já, það er rétt, sú breyting var nýlega gerð að núna bjóðum við viðskiptavinum okkar upp á fimm ára ábyrgð á öllum okkar Aurum skartgripum og lífstíðarábyrgð á viðgerðum. Við viljum standa á bak við skartgripina okkar með þessum hætti og sýna að við trúum á okkar gæði. Annars má sjá nánar um þetta á heimasíðu okkar, aurum.is.“

Þið ætlið að gefa demantshring í tilefni 20 ára afmælisins, hvernig er hægt að eiga möguleika á að vinna hann?

„Við ætlum að gefa demantshring sem við afhendum milli jóla og nýárs. Allir sem versla hjá okkur frá og með 1. desember og fram til jóla fara í pott sem verður dregið úr milli jóla og nýárs. Skiptir þá ekki máli hvort verslað er í versluninni okkar í Bankastræti eða í vefverslun okkar, aurum.is. Þess má geta að við sendum allar pantanir frítt heim að dyrum um land allt.“

Nú gerðuð þið nýverið samning við House of Fraser. Hvernig kom það til og hvað þýðir það fyrir Aurum?

„Innkaupastjórar frá House of Fraser komu á sýningu til okkar í febrúar síðastliðnum, kynntu sig og sýndu því áhuga að fá Aurum skartið í sölu í þeirra verslunum. Tveimur mánuðum síðar vorum við búin að gera samning við þau um að selja í fimm verslunum hjá þeim. Stefnt er á að opna á tveimur öðrum stöðum í vor. Svo munum við hitta þau í kjölfarið til að leggtja línurnar fyrir aðrar opnanir. Þetta þýðir mikið fyrir Aurum sem brand, en það sem gerist einnig þegar merkinu þínu er stillt upp í jafn stórri verslun og House of Fraser er að vörumerkjavitundin (e. brand awareness) eykst og merkið verður mun sýnilegra.“