Nox Medical er hátæknifyrirtæki sem þróar og framleiðir mælitæki, hugbúnað, skýjalausnir og gervigreind sem notuð eru af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum til þess að mæla lífmerki í svefni og greina svefnraskanir og svefnsjúkdóma. „Algengustu svefnraskanirnar sem tæki okkar eru notuð til að greina eru kæfisvefn, þegar sjúklingur hættir að anda á nóttunni eða verður fyrir endurtekinni skerðingu á öndun, fótaóeirð í svefni, og raskanir á svefni eins og svefnleysi eða drómasýki,“ segir Jón Skírnir Ágústsson, yfirmaður gagna og gervigreindar hjá Nox Medical.

Nox Medical hefur fjórum sinnum hlotið styrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og hafa styrkir sjóðsins stutt við verkefni sem alls tíu nemendur hafa unnið að í samstarfi við Nox Medical. „Nemendurnir hafa unnið að mjög framsæknum verkefnum sem Nox Medical hefði að öllum líkindum ekki unnið nema fyrir tilstilli framlags sjóðsins og stuðnings nemenda. Verkefni nemendanna hafa leitt til nýrra lækningavara sem Nox Medical hefur markaðssett í Evrópu og Bandaríkjunum. Þær vörur sem framleiddar hafa verið í kjölfar verkefna nemendanna hafa verið mjög mikilvægar og hafa skipt sköpum við að aðgreina Nox Medical á markaði.“

Jón Skírnir Ágústsson er yfirmaður gagna og gervigreindar hjá Nox Medical.

Náðu öðru sæti í alþjóðlegri keppni

Síðasta verkefni fyrirtækisins sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna snerist um að þjálfa gervigreindarlíkan til að greina örvökur í heilariti úr svefnmælingu, segir Jón. „Þetta var mjög flókið verkefni og hafði ekki verið leyst áður í heiminum. Verkefnið var framlag Nox Medical í alþjóðlegri keppni þar sem beita átti gervigreind til að greina örvökur í svefnmælingum. Nemendurnir unnu yfir þriggja mánaða tímabil að lausn sem var framlag Nox Medical í keppnina.“

Lausn þeirra á verkefninu varð í öðru sæti í keppninni, en 20 lið tóku þátt, þar á meðal lið frá þekktum háskólum og fyrirtækjum á borð við Philips og Verily Life Sciences sem er eitt af fyrirtækjum Google/Alphabet. „Verkefnið hlaut síðan Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2018. Niðurstöður verkefnisins urðu grunnurinn að lækningavöru sem innbyggð hefur verið í hugbúnaðarlausn Nox Medical og hjálpar læknum og heilbrigðisstarfsfólki að greina örvökur í svefnmælingum.“

Nemendurnir sem unnu að verkefninu hafa síðan lokið framhaldsnámi í tölvunarfræði, gervigreind og verkfræði. „En þau eru öll einstaklega hæfileikarík og metnaðarfull. Það er ljóst að þetta verkefni veitti þeim einstakt tækifæri á að taka þátt í að þróa ný lækningatæki og sum af þeim verkefnum sem þau unnu hjá Nox Medical hafa breytt því hvernig kæfisvefn er greindur hjá sjúklingum.“

Verkefni sem skiptu miklu máli

Það má því segja að Nýsköpunarsjóður námsmanna hafi gert Nox Medical kleift að taka inn nemendur sem hafa nýlokið B.Sc.-gráðum og nýtt krafta þeirra til að vinna í áhættumiklum verkefnum, sem hafa haft umtalsverð áhrif á stefnu fyrirtækisins og vörur þess, segir Jón. „Með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna hefur Nox Medical fjármagnað þrjá mánuði af fimmtán mánaða veru nemendanna. Nox Medical hefur fjármagnað starfsnámið til móts við styrki og Tækniþróunarsjóður Rannís hefur stutt við mörg þau verkefni sem nemendurnir hafa unnið að.“

Hann segir stuðning bæði Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Tækniþróunarsjóðs hafa verið Nox Medical afar mikilvægan og hafa leyft fyrirtækinu að halda uppi metnaðarfullu nýsköpunarstarfi sem hefur gert það að því leiðandi fyrirtæki sem það er í dag. „Sú vinna sem við höfum unnið í þessum nýsköpunarverkefnum hefur svo gefið okkur færi á að sækja um og fá 2 milljóna evra styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins og við höfum fengið að taka þátt í stærstu rannsóknarverkefnum í svefnlæknisfræði bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Það er því óhætt að segja að við séum afar þakklát fyrir Nýsköpunarsjóð námsmanna og þau tækifæri sem hann hefur veitt okkur.“