Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri SA. Hann segir ársfundinn vera tileinkaðan þeim áskorunum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Fjallað verði um efnahagslegan árangur síðustu ára og þátt kjarasamninga í þeirri þróun.

„Það er mikilvægt að þekkja söguna og læra af henni. Sagan hefur þá tilhneigingu að endurtaka sig. Besti lærdómurinn felst í því að forðast fyrri mistök og velja það sem best reynist. Hér er auðvitað vísað til áttunda og níunda áratugar síðustu aldar þegar víxlverkun launa, verðlags og gengis krónunnar eyddi jafnharðan öllum kjarabótum.“

Aukinn kaupmáttur í Covid

Halldór Benjamín bendir á að á áttunda áratugnum hafi laun á Íslandi hækkað um 1.850 prósent (næstum tuttugufaldast) en kaupmáttur launa staðið í stað. „Á tímabili Lífskjarasamningsins jókst kaupmáttur launa um sjö prósent á sama tíma og verðmætasköpun á íbúa minnkaði. Það er ótrúlega jákvæð niðurstaða og það væri óðs manns æði að hefja tilraunir við að reyna að auka kaupmátt launa í ljósi verðbólguskotsins sem skall á. Sagan hefur fellt sinn dóm um stefnu þessara áratuga, að reyna að láta laun elta verðbólgu. Þorri Íslendinga, sem kominn er yfir miðjan aldur, þurfti að þola óðaverðbólgu á eigin skinni og hryllir við þeirri tilhugsun að hún komi aftur.

Verðbólgan er nú tæplega 10 prósent. Lærdómur sögunnar er að samstilltar aðgerðir með hjöðnun verðbólgu að markmiði koma öllum best. Í því felst að hinir þrír armar hagstjórnar; vinnumarkaður, peningastefna Seðlabankans og ríkisfjármál, rói í sömu átt. Náist sá árangur getur nýtt hagvaxtarskeið hafist á Íslandi við aðstæður efnahagslegs stöðugleika.“

Halldór Benjamín telur að nú sé rétt að stíga eitt skref aftur á bak með það að markmiði að stíga tvö skref áfram síðar. „Ég hygg að margir deili þessari sýn eins og sakir standa. Á undanförnum árum hefur margt gengið vel á Íslandi og við komum sterk út úr kórónukreppunni,“ segir Halldór Benjamín.

Á tímabili Lífskjarasamningsins hefur kaupmáttur aukist um sjö prósent. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR ÁRNASON

Verðbólgan er óvinur

Hann segir þó blikur vera á lofti, einkum verðbólgan og óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum. „Kaupmáttur launa hefur veikst tímabundið. Það verður að forðast endurtekningu hagstjórnarmistaka verðbólguáratuganna á síðustu öld með tilraunum sem dæmdar eru til að mistakast. Víxlverkun launa og verðlags mun skila minna en engu.“

Halldór Benjamín vitnar í orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, um að í raun skipti engu máli um hve margar krónur laun hækka. Aðalatriðið sé að virði krónanna skili auknum kaupmætti launa.

„Í nýlegri greiningu Katrínar Ólafsdóttur, sem hún vann fyrir forsætisráðuneytið, benti hún á að kaupmáttur launa á Íslandi hefur á einum áratug vaxið um heil 57 prósent. Vissulega frá lágu gildi áranna eftir bankahrunið 2008, en staðreyndin er samt sú að 57 prósent meira fæst fyrir launin, í vörum og þjónustu talið, en fyrir 10 árum.“

Halldór Benjamín bendir á að sambærilegar tölur á öðrum Norðurlöndum séu á bilinu 2-10 prósent sem með öðrum orðum sýni að aukning kaupmáttar launa sé 5-25 sinnum meiri hér á landi.

„Svo mikill vöxtur kaupmáttar launa, sem er langt umfram vöxt framleiðni, er að sjálfsögðu ekki sjálfbær til lengri tíma,“ segir Halldór Benjamín. „Þess vegna nálgumst við nú nýtt jafnvægi. Kaupmáttur jókst mjög mikið og hjaðnar nú aðeins vegna verðbólgunnar.

Norðmenn sneru við blaðinu

„Ég legg áherslu á eftirfarandi: Sagan endurtekur sig. Tryggjum því að bestu þættir hagsögu landsins verði endurteknir og forðumst vítahring verðbólguáratuganna á síðustu öld sem komu í veg fyrir að kjör almennings bötnuðu markvert milli 1970 og 1990.“

Á ársfundi atvinnulífsins flytur forsætisráðherra ávarp, sem og formaður Samtaka atvinnulífsins. Framkvæmdastjóri norsku Samtaka atvinnulífsins flytur ávarp og lýsir því hvernig Norðmenn haga sínum málum við gerð kjarasamninga.

„Norðmenn voru á svipuðum stað og Ísland fyrir nokkrum áratugum,“ segir Halldór Benjamín. „Kjarasamningalíkanið var með þeim hætti að hver hópur knúði fram eigin kröfur og í kjölfarið hófst höfrungahlaup sem endaði með miklum nafnlaunahækkunum og meðfylgjandi verðbólgu.

Í Noregi báru samningsaðilar gæfu til þess að komast sjálfir að þeirri niðurstöðu að þetta væri helstefna til lengri tíma. Þeir komu sér upp sérstöku norsku kjarasamningalíkani, sem kalla má hluta af norræna samningalíkaninu þar sem svipuð kerfi eru í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Samningalíkanið tryggir aga, jöfnuð og efnahagslegan stöðugleika og reynslan sýnir að hlutur launafólks í verðmætasköpuninni hefur haldist nokkuð jafn og heldur aukist undanfarna áratugi, samhliða háu atvinnustigi.“

Halldór Benjamín telur okkur Íslendinga geta lært sitthvað af reynslu Norðmanna varðandi kjarasamningalíkanið.

Í okkar höndum

Aðspurður hver viðskiptakostnaðurinn sé af núverandi nálgun verkalýðshreyfingarinnar við gerð kjarasamninga segir Halldór Benjamín: „Svar okkar er mjög afdráttarlaust; sá viðskiptakostnaður er allt of hár og er allt að vinna og ekkert að tapa á því að breyta þessum vinnubrögðum. Við teljum að nú sé góður tími til þess, einkum vegna þess að þorri fólks hefur fengið bætt kjör með Lífskjarasamningnum, þrátt fyrir efnahagskreppuna af völdum Covid. Nú er rétti tíminn til að stuðla að hjöðnun verðbólgu og skapa grundvöll fyrir næsta skeið hagvaxtar og batnandi lífskjara.“

Halldór Benjamín segir SA gæta hagsmuna rúmlega 2.000 fyrirtækja í öllum atvinnugreinum og óneitanlega vegi komandi kjarasamningar þyngst nú um stundir. „Það er í okkar höndum hvort lagt verður upp í nýja sókn til bættra lífskjara og snýst niðurstaðan á þeirri nálgun sem verður ofan á. Hagsmunir fyrirtækja og heimila fara saman í því að afstýra endurtekningu hagstjórnarmistaka síðustu aldar. Við verðum að róa öllum árum að því að fara leiðir sem skilað hafa samfélaginu mestum ábata í gegnum tíðina, það er, hófstilltar launabreytingar í takti við við Þjóðarsáttina 1990 og Lífskjarasamninginn 2019,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem kom út með Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.