Það vantar að mínu mati fleiri vegan veitingastaði í flóruna hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sólveig um tilurð nýja veitingastaðarins. „Engjateigur er mjög miðsvæðis og er því að mínu mati fullkomin staðsetning ásamt því að þar er nóg af bílastæðum. Mér finnst líka alltaf einhver hlýleiki og sjarmur yfir Engjateignum og það hefur verið draumur hjá mér frá upphafi að hafa þar kjötlausan stað því mín ástríða liggur í grænni eldamennsku.“

Súrdeigspitsurnar vinsælar

„Matseðillinn okkar er mjög fjölbreyttur og samanstendur af morgunmat, barnamatseðli, bragðgóðum og næringarríkum salötum, börgerum, vefjum og súrdeigspitsum ásamt súpu og spínatlasanja. Einnig er hægt að búa til sína eigin skál og svo er flott úrval af girnilegum vegan kökum og snúðum.“

Þá hafa súrdeigspitsurnar, sem eru nýjung á matseðlinum, notið mikilla vinsælda. „Við prófuðum að setja súrdeigspitsur á matseðilinn og pitsan okkar „Villt og spæsý“ er búin að slá í gegn. Hún, ásamt Engjateigsskálinni, eru vinsælustu réttirnir. Í þeirri skál eru mjög bragðgóð og næringarrík salöt og skemmtilega krydduð sósa ásamt jurtapróteini,“ segir Sólveig.

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Það er mikil stemning í hádeginu og fólk frá vinnustöðum þarna í kring eru orðnir fastagestir með sína uppáhaldsrétti. Það sem mér finnst líka skemmtilegt er að heyra viðskiptavinina tala um að maturinn sé það bragðgóður að hvort sem fólk sé vegan eða ekki þá elski það bragðið af matnum. Engjateigurinn er fullkominn fyrir minni hópa að hittast og er orðinn vinsæll sem slíkur. Í eftirmiðdaginn myndast kaffihúsastemming því við erum með mjög gott kaffi og úrval af kökum.“

Fyrsta skrefið fyrir marga

Sólveig er hæstánægð með Veganúar framtakið og segir það hafa mikla þýðingu fyrir þennan áríðandi málstað. „Mér finnst Veganúar algjör snilld og afar nauðsynlegt framtak því það eru margir sem hafa áhuga á að prófa að borða vegan og þetta auðveldar þeim að stíga skrefið því það myndast skemmtileg stemming og fjörugar umræður og umfjallanir.“

Hún telur Veganúar og vaxandi þátttöku í átakinu hafa gert það að verkum að fólk verði víðsýnna og verði óhræddara við að færast í átt að minni neyslu dýraafurða. „Þegar margir eru að gera tilraunir á sama tíma og deila með hver öðrum uppskriftum, ráðum og fleiri upplýsingum er auðveldara að vera opinn fyrir nýjungum og þá verða fordómarnir ekki eins miklir. Áhrif Veganúars hafa sýnt sig að vera mikil því fyrir marga er þetta fyrsta skrefið í áttina að meiri umhverfisvitund, dýraverndun og grænna mataræðis.“

Sólveig ráðleggur þeim sem langar að draga úr neyslu dýraafurða að prófa sig áfram og taka eitt skref í einu. „Byrja á að hafa einn grænan dag í viku og fjölga þeim síðan smám saman. Æfa sig í að elda kannski 2-3 græna rétti og ná góðu valdi á þeim og bæta síðan í flóruna. Prófa að skipta út dýraafurðum fyrir svipaðar vörur úr jurtaríkinu eins og mjólk fyrir jurtamjólk í kaffi, hristinga og bakstur svo eitthvað sé nefnt.“

Sólveig Eiríksdóttir segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og að staðurinn eigi sér nú þegar dyggan hóp fastakúnna sem eigi sér sína uppáhaldsrétti af matseðlinum. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Varð sú „skrýtna“

Óhætt er að fullyrða að Sólveig hafi lengi vel verið á undan sínum samtíma. „Ég er alin upp á heimili þar sem voru margir grænir dagar í viku og mjög lítið um dýraafurðir. Ég hætti síðan alveg að borða kjöt fyrir 40 árum eða árið 1980 og hef ekki smakkað síðan. Ég kýs að hafa matinn sem ég borða sem mest lífrænan því ég held að lífræn ræktun sé sú ákjósanlegasta fyrir móður jörð ásamt því að skilja eftir sig sem fæst kolefnisspor,“ útskýrir hún.

„Mitt ferðalag sem 100% grænkeri byrjaði í Kaupmannahöfn og þar voru eftirhippaárin í algleymi og auðvelt að fá bæði gott hráefni til að elda úr og einnig var fjöldi veitingastaða með gott úrval grænna rétta,“ segir Sólveig. „En svo flutti ég heim til Íslands og þá vandaðist málið og ég varð sú „skrýtna“. Ég ákvað að láta það ekki stoppa mig eða hafa áhrif og byrjaði með námskeið og síðar að koma með eigin vörulínu og opna grænan veitingastað til að auðvelda mér og fólkinu í landinu aðgengi að matnum og hráefninu.“

Sólveig segir hugmyndafræðina að baki veganisma bæði margþættan og mikilvægan. „Veganismi skiptir mjög miklu máli því hann berst fyrir og vekur athygli á mjög þörfum málefnum í samtímanum bæði hvað varðar umhverfisvernd og dýravernd. Einnig eru hópar innan veganismans sem vekja athygli á grænkerafæði út frá hollustusjónarmiði og auðvelda almenningi aðgengi að bragðgóðum og hollum uppskriftum.“

Þá sé mikið í húfi fyrir yngri kynslóðir. „Á þeim tímum sem við lifum er þetta þörf áminning og fræðsla og hjálpar mannfólkinu að opna augun og auka ábyrgðina gagnvart jörðinni og komandi kynslóðum. Sem amma langar mig að barnabörnin mín og þeirra barnabörn njóti náttúrunnar á sama hátt og ég fékk tækifæri til að gera.“

Súrdeigspítsurnar gómsætu hafa notið mikilla vinsælda meðal viðskiptavina.

Bjartsýn á breytta tíma

Sólveig segir undanfarna áratugi hafa einkennst af mikilli framþróun. „Mjög mikið hefur breyst á þessum 40 árum sem ég hef verið áhugamanneskja um þennan málaflokk. Grænkerar eru ekki lengur „sérvitrir einstaklingar sem eru að hrynja úr hor“. Þegar ég byrjaði mína vegferð tengdist dýraafurðalaust fæði nær eingöngu hollustu en í dag er ekki samasemmerki á milli veganisma og heilsu því hugmyndafræðin í dag leggur megináherslu á dýravernd og í framhaldinu umhverfisvernd.“

Þá standi Íslendingar óneitanlega frammi fyrir ákveðnum áskorunum. „Ísland liggur mjög norðarlega og það hefur gert það að verkum í gegnum aldirnar að skilyrði til grænmetis og ávaxtaræktunar eru ekki á pari við flest önnur lönd. Þar af leiðandi hefur neysla á dýraafurðum verið mjög mikil hérlendis og minna um neyslu á grænmeti og ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum en víðast hvar annars staðar.“

Aðstæður bjóði þó líka upp á einstök tækifæri. „Við getum reyndar ræktað allt í gróðurhúsum og vonandi fer að verða bylting á því sviði bæði út frá kolefnissporum og öryggi því það er ekki gott að vera háður innflutningi á miklu af því hráefni sem við notum til að næra okkur,“ segir Sólveig vongóð.

„Ég lít björtum augum til framtíðar, því þegar við mannfólkið virkjum okkar heilbrigðu skynsemi gerast hlutirnir oft hratt. Ég veit að mörg heimili landsins eru byrjuð að taka upp græna daga og vona að sem flest fylgja í kjölfarið. Ég á mér draum um að lífræn ræktun verði sú ræktunaraðferð sem flestir aðhyllast, að meðvitund um matarsóun verði jafn eðlileg og að flokka sorp, að við verndum jörðina og dýrin og að mannfólkið taki ábyrgð á eigin heilsu með hollu mataræði.“