Hjá VSÓ starfar fólk með fjölbreytta reynslu og fagþekkingu á breiðu sviði sem myndar sterkt teymi við úrlausn verkefna. VSÓ Ráðgjöf hefur einsett sér að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir á grænni leið að kolefnishlutleysi og sjálfbæru samfélagi með því að veita ráðgjöf á sviði umhverfismála, skipulags og mannvirkjagerðar.

Græna leiðin: með sjálfbærni að leiðarljósi

VSÓ Ráðgjöf býður vistvænar og hagkvæmar lausnir sem stuðla að framförum og bættum árangri þegar kemur að sjálfbærri þróun til framtíðar. Áhersla er lögð á alla þrjá þætti sjálfbærni í verkefnum; umhverfi, samfélag og efnahag. Markmiðið er minni kolefnislosun, bætt auðlindanýting, minni úrgangsmyndun og bætt heilsa og velferð.

„Við höfum sett saman öflugt teymi sem starfar undir heitinu Græna leiðin sem samanstendur af fjölbreyttum hópi sérfræðinga af öllum þjónustusviðum: byggingarverkfræðingar, landfræðingar, umhverfisverkfræðingar og hagfræðingar. Við veitum heildræna ráðgjöf sem snýr að öllum þáttum sjálfbærni,“ segir Guðný Káradóttir, teymisstjóri Grænu leiðarinnar.

„Hringrásarhugsunin og sjálfbærni eru kjarninn í okkar nálgun. Við höfum hvort tveggja þekkingu og reynslu en líka ýmis verkfæri sem gera okkur kleift að ráðleggja okkar viðskiptavinum og hjálpa þeim að taka upplýsta ákvörðun um feril hvers verkefnis fyrir sig. Þannig er hægt að komast að hagkvæmri og vistvænni niðurstöðu um allt sem við kemur hönnun, vali á hráefni, byggingu og rekstri mannvirkja, sem og framtíðaráhrifum þess, líftímakostnaði og fleira.“

Guðný er teymisstjóri Grænu leiðarinnar hjá VSÓ Ráðgjöf. Hún segir brýna þörf vera á grænum umskiptum, kerfisbreytingum og skjótum og víðtækum aðgerðum í öllum greinum.

Í átt að kolefnishlutleysi

Loftslagsváin er sá þáttur sem hefur einna víðtækustu og alvarlegustu áhrif á umhverfið og samfélag manna á jörðinni. Þjóðir heims hafa tekið höndum saman á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda og stefna að kolefnishlutleysi á næstu árum og áratugum. Parísarsamningurinn er eitt mikilvægasta alþjóðlega verkfærið í baráttunni gegn hættulegum loftslagsbreytingum af mannavöldum. Markmiðið er að halda hnattrænni hlýnun vel innan við 2°C og eins lítið umfram 1,5°C og kostur er, miðað við meðalhita við upphaf iðnbyltingar. Til þess þarf að eiga sér stað stórfelldur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda, nógu afgerandi til að kolefnishlutleysi verði náð fljótlega eftir árið 2050.

„Ísland hefur í þessu samhengi sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og hefur það markmið verið lögfest. Þá hafa Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög hér á landi sem og íslensk fyrirtæki einnig sett sér markmið um kolefnishlutleysi á næstu árum og áratugum. Þörf er á grænum umskiptum, kerfisbreytingum og skjótum og víðtækum aðgerðum í öllum greinum.

Sem dæmi þá hafa byggingageirinn og stjórnvöld á Íslandi tekið höndum saman um að draga úr kolefnislosun bygginga um 43% fyrir árið 2030. Skilgreindar hafa verið 74 aðgerðir sem eiga að stuðla að því að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í byggingariðnaðinn svo að verðmæti byggingarefna rýrni sem minnst og verði endurnotuð, og komast þannig nær sjálfbæru samfélagi. Ábyrgð á aðgerðunum liggur víða, jafnt hjá stofnunum, sveitarfélögum og ráðuneytum, en jafnframt eru hagaðilar innan mannvirkjageirans hvattir til að koma eigin aðgerðum í framkvæmd,“ segir Guðný.

Það þarf að huga að öllum lífsferli mannvirkis í hringrásarhagkerfinu. Allt frá framleiðslu og flutningi hráefna, byggingu, notkun byggingar, niðurrifi og endurnýtingarmöguleikum.

Vaxandi eftirspurn

Auknar kröfur um sjálfbærni og samfélagsábyrgð leiða til vaxandi eftirspurnar eftir vistvænum lausnum til að bregðast við í baráttunni við loftslagsvána. Því er ekki að undra hve umhverfisvottanir eins og BREEAM og Svanurinn eru áberandi í byggingariðnaðinum í dag. „Nánast öll verkefni í dag fara í einhvers konar vottun. Reykjavíkurborg er til dæmis með skýra stefnu í umhverfismálum og um vottun á byggingarverkefnum. Einnig erum við að vinna fyrir ýmis fasteignafélög og verktaka sem hafa sett vottun inn í sitt verklag.

Fjárfestar og þeir sem veita lán til mannvirkjagerðar kalla eftir því í síauknum mæli að verkefni séu umhverfisvottuð og eru BREEAM og Svansvottun algengustu vistvottunarkerfin hér á landi. Slíkar vottanir veita einnig áreiðanlegan gæðastimpil. Þá er hægt að leita til okkar og við leiðum viðskiptavini okkar í gegnum vottunarferlið,“ segir Guðný.

Í Grænu leiðinni hjá VSÓ felst meðal annars:

  • Mótun sjálfbærnistefnu og markmiðssetning út frá viðurkenndum viðmiðum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Draga fram vistvænar áherslur í áætlunum og umhverfismati.
  • Vinna staðarvalsgreiningar sem stuðla að auknu visthæfi byggðar.
  • Framkvæma umhverfisvottanir til að sýna fram á að kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa séu uppfylltar.
  • Gera lífsferilsgreiningar sem auðvelda val á vistvænum byggingarefnum og lágmarka kolefnisspor.
  • Framkvæma orkuútreikninga fyrir byggingar á hönnunarstigi.
  • Beita markvissri úrgangsstjórnun sem stuðlar að minni sóun og hámörkun verðmæta, til dæmis með því að finna endurnýtingarmöguleika fyrir byggingarúrgang
  • Greina loftslagsáhættu og benda á leiðir til að bregðast við og minnka hana. Þar má nefna greiningu á flóðahættu eða áhættu á skriðuföllum sem geta átt sér stað vegna meiri úrkomuákefðar og öfga í veðri.
  • Hanna skipulag og mannvirki út frá hugmyndafræði sjálfbærni og hringrásarhugsunar.
  • Reikna líftímakostnað mannvirkja sem gefur heildstæða mynd af kostnaði „frá vöggu til grafar“.

Græna leiðin eina leiðin

„Við erum stödd á tímamótum í dag. Taka þarf loftslagsmálin alvarlega. Vaxandi kröfur koma úr ýmsum áttum, hvort sem er frá þeim sem fjármagna verkefni, almenningi eða hinu opinbera í lögum og reglugerðum. Allt kallar á að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í fjárfestingum og byggingu nýrra mannvirkja. Þá koma grænar leiðir, eins og sú sem VSÓ býður upp á, sterkar inn. Það borgar sig að byrja á forstigi hönnunar og horfa á allan líftímann; hanna byggingar með orkunýtingu í huga, velja hráefni, byggingaraðferðir og flutningsleiðir sem stuðla að lágmörkun á kolefnisspori og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og samfélagið.

Ávinningurinn af því að fara Grænu leiðina er augljós. Þegar upp er staðið felst í henni sparnaður. Það er dýrt að gera mistök og þurfa að leiðrétta þau eftir á. Það er í raun ekkert annað í boði til framtíðar en að horfa á stóra samhengið ef við ætlum að skapa hagsæld og ná kolefnishlutleysi í náinni framtíð,“ segir Guðný að lokum.

Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu VSÓ vso.is/graena.