Á Heilsustofnun hefur síðastliðið ár farið fram endurhæfing fólks með eftirköst eftir Covid-19 veikindi. Rúmlega 40 manns hafa lokið meðferð hjá stofnuninni og fimmtán eru væntanleg á næstunni, segir G. Birna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsustofnun. „Meðferðin tekur að jafnaði fjórar vikur og allir eru hjá okkur í sólarhringsdvöl. Um fjórðungur þurfti sjúkrahúsinnlögn vegna Covid-19 en aðrir veiktust minna en glíma samt við alvarleg eftirköst. Algengustu eftirköstin eru óeðlileg þreyta og flestir eru ekki vinnufærir nema þá að litlu leyti. Önnur algeng einkenni eru minnisleysi, einbeitingarskortur, verkir í brjóstkassa og vöðvum, mæði, óþol fyrir hávaða, svefntruflanir og höfuðverkur auk bragð- og lyktarskynsbreytinga.“

Miklar framfarir hjá flestum

Hún segir mjög mikilvægt að fólk með óeðlilega þreytu forðist að ofgera sér og alltaf sé sett í forgang að kenna því að stjórna orku sinni og byggja sig upp hægt og rólega. „Meðferðin er alltaf einstaklingsbundin og ræðst af getu og þörfum hvers og eins. Áherslan er á hæfilega hreyfingu og vatnsmeðferðir, hita- og slökunarmeðferðir, fræðslu og andlegan stuðning. Sjúkraþjálfarar gera álagspróf við komu og aftur fyrir útskrift og einnig metum við andlega og líkamlega heilsu við komu og fyrir útskrift. Árangurinn hefur verið mjög góður, nánast allir ná talsverðum framförum og útskrifast með leiðbeiningar um hvernig best er að halda áfram að efla heilsuna og forðast bakslag.“