Hertex er nytjamarkaðskeðja Hjálpræðishersins á Íslandi, sem veitir starfi hans mikinn fjárhagslegan styrk. Sigrún Guðmarsdóttir, kölluð Sidda, er öryrki sem hefur verið sjálfboðaliði hjá Hertex í um áratug og hún segist fá mikið út úr starfinu, bæði því henni finnst gott að hafa eitthvað fyrir stafni og vegna þess að hún nýtur félagsskaparins.

„Ég kynntist þessari starfsemi í gegnum fyrrverandi tengdamóður mína, sem manaði mig til að koma með sér,“ segir Sigrún.

„Ég var með henni í þessu í einhverja mánuði og fór svo að hafa áhuga á kristilega hlutanum af starfsemi Hjálpræðishersins og mæta á samkomur og kynna mér aðra hluta starfseminnar. Það var æðislegt og mér fannst ég öll einhvern veginn lifna við. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti.“

Samheldinn hópur

Sigrún segir að starfsemin sé afslöppuð.

„Við stelpurnar sem höfum verið saman í þessu í nokkur ár mætum í Hjálpræðishershúsið á Flugvallarbraut um kl. 10 og fáum okkur kaffi og spjöllum áður en við græjum það sem þarf. Við erum alltaf á haus við það að flokka fötin frá gámunum okkar og setja upp pop-up búðina okkar, en við reynum að hafa hana annan hvern laugardag. Það er nokkur vinna sem fylgir því að finna föt í búðina, raða og ganga frá.Ég gæti ekki verið heima alla daga og stelpurnar eru svo skemmtilegar, við hlæjum mikið saman og þetta er samheldinn hópur,“ segir Sigrún.

„Við erum líka með prjónaklúbb og komum saman einu sinni í viku og í vetur þegar ekkert var opið vegna heimsfaraldursins héldum við meira að segja áfram að hittast og sátum saman með tveggja metra bil á milli okkar og hekluðum, prjónuðum og spjölluðum.Ég sé líka að þetta gerir mikið gagn og það er gott að sjá. Það er fastur liður í samfélaginu að vera með svona verslun sem selur notaðar vörur og margir njóta góðs af,“ segir Sigrún.

„Það sem mér finnst líklega mest gefandi er að vera með fólki og spjalla við það. Það eru margir sem koma til okkar sem þurfa að spjalla og fá smá hughreystingu og mér þykir voða gott að sinna þessu hlutverki.“

Sigrún segir að það vanti líka fleiri sjálfboðaliða.

„Já, alveg hreint helling, ég hvet fólk til að hafa samband við Hjálpræðisherinn og taka þátt í þessu með okkur!“

Bók full af fallegum hlutum

„Í ástandinu sem er núna skiptir miklu máli að hafa sterkan huga. Dóttir mín gaf mér trébók með blöðum sem hún gerði í skólanum og ég hét mér að skrifa bara fallega hluti í hana,“ segir Sigrún.

„Það hefur stundum verið bras að finna eitthvað fallegt til að skrifa, en þetta hefur haldið mér gangandi. Ég les þetta aftur og aftur og stelpurnar biðja líka stundum um að fá að heyra eitthvað úr henni, enda veitir ekki af öllu sem hughreystir núna. Mig langar að enda á stuttri bæn frá frumbyggjum í Bandaríkjunum, sem hughreystir mig:

Megi hjarta þitt vera létt sem ský,

megi gleði þín vera meiri en allurhimininn,

megi draumar þínir skína skærar en öll heimsins fegurstu blóm.

Sjá nánar á herinn.is og hertex.is