„Mér hlýnar alltaf um hjartarætur þegar ég finn að starfið mitt skiptir máli fyrir nemendur,“ segir Ásthildur um það sem gefur henni mest í starfinu.

„Ég gleðst líka alltaf sérstaklega þegar ég hitti nemendur sem einhverra hluta vegna hafa átt erfitt uppdráttar í skólakerfinu en með elju hafa fundið sinn vettvang í námi eða starfi, og eru að blómstra þar.“

Samskiptin heilla mest

Ásthildur heillaðist af náms- og starfsráðgjöf eftir að hafa fengið kynningu á starfinu á lokaári sínu í Kennaraháskólanum.

„Svo liðu reyndar mörg ár þar til ég dreif mig í námið en nú er ég að byrja mitt fjórtánda ár sem náms- og starfsráðgjafi,“ segir Ásthildur, sátt og sæl í sínu starfi.

„Það eru samskiptin sem heilla mig mest við fagið. Að fá að kynnast fjölbreyttri flóru nemenda og fá að vinna með þeim í að þroskast og eflast. Starfið er alveg gríðarlega fjölbreytt og enginn dagur er eins. Þess utan kynnist maður svo mörgu góðu fólki, samstarfsmönnum, foreldrum og öðrum náms- og starfsráðgjöfum sem eru að vinna fjölbreytt störf um allan bæ.“

Ráðgjöf mikilvæg nemendum

Ásthildur telur víst að margir geri sér ekki grein fyrir hversu víða í atvinnulífinu má finna náms- og starfsráðgjafa, né hversu fjölbreytt störf þeirra eru.

„Í mínu starfi, sem grunnskólaráðgjafi, veiti ég nemendum meðal annars ráðgjöf og stuðning vegna líðan þeirra, ég aðstoða og ráðlegg nemendum varðandi námstækni, veiti náms- og starfsfræðslu, og aðstoða nemendur við að efla náms- og félagslegan þroska sinn. Verkefnin hafa í raun ekki breyst mikið frá því ég hóf störf en auðvitað eru sífellt að bætast við ýmis tæki og tól sem við getum nýtt í starfinu,“ upplýsir Ásthildur.

Hún segir náms- og starfsráðgjöf gríðarlega mikilvæga fyrir grunnskólanemendur.

„Nemendur þurfa fræðslu um hvaða störf eru í boði úti í atvinnulífinu til að geta tekið farsælar ákvarðanir um nám og störf í framtíðinni. Þeir þurfa líka leiðsögn um hvaða nám leiðir þá að þeim störfum, en jafnframt hvort námið og starfið falli að þeirra áhugasviði.“

Starfamessan gagnleg

Ásthildur hefur ásamt öðrum náms- og starfsráðgjafa í Kópavogi staðið nokkrum sinnum fyrir svokallaðri Starfamessu fyrir nemendur.

„Þar geta foreldrar og fyrirtæki komið og kynnt starfið sitt og ég er sannfærð um að slíkar kynningar geta opnað augu margra nemenda fyrir tækifærum í framtíðinni. Það er einmitt stór hluti starfsins að fræða nemendur um nám og störf að loknum grunnskóla og ég er sannfærð um að viðburður eins og Starfamessur og samstarf við atvinnulífið séu góð leið til þess. Á næstu árum munu störf breytast mikið og við þurfum fleiri nemendur sem velja iðn-, tækni- og listnám. Því finnst mér mikilvægt að opna augu nemenda fyrir möguleikunum sem slíkt nám getur veitt þeim,“ segir Ásthildur.

Unglingar nýta sér ráðgjöfina mest

Nemendur á öllum stigum grunnskólans nýta sér þjónustu Ásthildar, en unglingar nýta sér þó námsráðgjöfina mest.

„Unglingarnir eru mikið að velta fyrir sér námi að loknum grunnskóla og því hvernig þeir geta bætt sig í náminu,“ greinir Ásthildur frá.

Sjálf segist hún hafa viljað hafa aðgang að náms- og starfsráðgjafa á sínum grunnskólaárum.

„Já, ég fylgdi bara straumnum og vissi ósköp fátt um möguleikana sem buðust að loknum grunnskóla. Því hefði verið bæði gagnlegt og gott að fá fræðslu um nám og möguleg framtíðarstörf eftir að grunnskólanum lauk,“ segir Ásthildur.

Hún sendir kærar afmæliskveðjur til félagsins á þessum tímamótum og á sér einlæga afmælisósk.

„Hún er sú að starfsemin haldi áfram að eflast og að félagsmenn verði sýnilegir á sem flestum sviðum atvinnulífsins.“