„Mér datt þetta í hug þegar við konan mín undirbjuggum flutning í nýja húsið, og ég sá til Grænu skátanna tæma gám í nágrenninu, að athuga hvort hægt væri að fá þá til að vera með gám í ruslageymslunni hjá okkur eldri borgurunum til að safna í flöskum og dósum til endurvinnslu,“ segir Stefán Gunnar Kjartansson, íbúi við Austurhlíð, sem er ný gata við hlið Kennaraháskólans í Hlíðahverfi Reykjavíkur.

„Í húsinu, sem var tekið í notkun í fyrrasumar og byggt af Samtökum aldraðra, eru sextíu íbúðir fyrir eldri borgara. Sjálfur er ég gamall skáti og vissi að Grænu skátarnir söfnuðu flöskum og dósum og fékk þá til að koma með söfnunargám í húsið og þar fer vel um hann innan um ruslagámana sem fyrir eru. Við vildum jafnframt láta gott af okkur leiða svo að skátastarfið nyti góðs af en líka vegna þess að það er umhverfisvænt að flokka og endurvinna umbúðir. Það er ansi drjúgt sem til fellur úr sextíu íbúðum, en fólk kemur líka með dósir úr sumarbústöðunum sínum og fer með í söfnunargám skátanna niðri í ruslageymslu,“ greinir Stefán frá.

Einu sinni skáti, ávallt skáti

Flösku- og dósagámi Grænu skátanna hefur verið vel tekið hjá íbúunum í Austurhlíð.

„Það er auðvitað þægilegt og handhægt að geta skokkað niður með dósirnar um leið og maður fer með ruslið, í stað þess að þurfa að rogast með stóra poka fulla af flöskum og dósum í Sorpu. Ég hef reyndar það sjónarmið að við eigum ekki að þurfa að fara í Sorpu. Íbúarnir eru því ánægðir að hafa gáminn í húsinu og svo fara peningarnir í kaffisjóð, því þótt við gefum skátunum dósirnar til endurvinnslu fáum við hluta andvirðisins til baka. Það þarf nefnilega að vera ávinningur fyrir báða aðila svo fleiri taki sig til og endurvinni þessar umbúðir, en nú vantar okkur bara fatagám til að geta endurunnið enn meira,“ segir Stefán, ánægður með þjónustu Grænu skátanna.

Hjá Stefáni sannast hið fornkveðna: einu sinni skáti, ávallt skáti.

„Ég byrjaði níu ára í Skátafélagi Reykjavíkur og 85 ára gamall er ég enn í skátahópi sem kallar sig Fet fyrir fet, en við göngum saman einu sinni í mánuði og höfum gert í þrjátíu ár. Við kynntumst þegar við störfuðum öll sem skátar í bröggunum við Snorrabraut. Svo vorum við með skátaskála uppi á Hellisheiði þar sem við stunduðum útivist og í skátunum var alltaf lögð rík áhersla á að umgangast náttúruna af virðingu, skilja hvergi eftir rusl og ganga vel um landið okkar,“ segir Stefán, sem kynntist Pálínu konunni sinni líka í skátunum.

„Við hjónin erum væn og græn þegar kemur að umhverfisvitund. Við eigum sumarbústað þar sem við höfum verið með safnhauga árum saman og við flokkum allt og endurvinnum eins og vera ber. Við þurfum öll að vera samtaka í því að halda náttúrunni hreinni og ómengaðri, og þá er ekki verra að hafa Grænu skátana í liði með sér.“

Sjá meira um Græna skáta á graenirskatar.is