Góð vefsíða er í dag eins og nafnspjöldin voru hér í den. Tímaleysi nútímafólks lýsir sér í því að flestir eru komnir upp í sófa um tíuleytið á kvöldin og muna þá fyrst eftir því að hafa samband við múrarann, að panta matinn fyrir veisluna, að það sé kominn snjór og kuldagallinn orðinn of lítill eða að það vantar mat í ísskápinn. Það er þá sem vefsvæðið skiptir sköpum og leysir málin undir eins, segir Sigríður Sigmarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Netheims.

Netheimur fagnar 22 ára afmæli í ár. Þar er að finna alhliða upplýsingatækniþjónustu fyrir fyrirtæki, allt frá tölvuuppsetningum og tengingum við prentara, til hýsingar, vefsíðugerðar og Business Central-bókhaldslausna.

„Það eru næg verkefni á teikniborði vefdeildar Netheims í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Fyrirtæki hafa vaknað upp af dvala, en okkar skoðun er sú að vefverslun eða vefsíða hafi fram að þessu setið á hakanum hjá fyrirtækjum en nú er aðgengileg vefsíða og vefverslun einfaldlega ómissandi þarfaþing,“ segir Sigríður.

Hún heldur áfram: „Í kjölfar kórónaveirunnar áttuðu fyrirtæki sig á að netverslun og vefheimurinn skipta gríðarlegu máli. Mun meiri eftirspurn er nú eftir starfskröftum okkar, því krafa neytenda um hraða og virkni er orðin meiri. Sendingartími þarf helst að vera samdægurs og þjónustan framúrskarandi, því þá hefur líf viðkomandi verið einfaldað og þörfinni svarað fljótt. Netverslun snýst nefnilega um ákvörðunina þá og þegar, eða „impulse buy“, og að varan komi fljótt.“

Leysa verkefnin fljótt og vel

Góð vefsíða segir mikið um starfsemi fyrirtækis, starfsfólk þess og hvort viðskiptavinir vilji leita þjónustu hjá viðkomandi.

„Í dag gera neytendur tilkall til umsagna, stjörnugjafar og annars sem tengist þjónustuháttum fyrirtækja. Því fleiri umsagnir, þeim mun betra og því meiri möguleiki á að viðskiptavinir sem sitja heima í stofu og leita þar ákveðins aðila leiti til fyrirtækja sem virka traust og augljóslega með puttann á púlsinum,“ upplýsir Sigríður, sem við undirbúning verkefna rekur sig gjarnan á að fyrirtæki séu ekki nægilega undirbúin sjálf.

„Þá kemur reynsla okkar sem fagaðila inn, að hlusta og greina hverju viðskiptavinurinn leitar eftir. Við reynum að leysa öll verkefni fljótt og vel og á sem hagkvæmastan hátt fyrir viðskiptavini okkar.“

Góður undirbúningur er lykilatriði þegar vefsíða er búin til.

„Greina þarf hver þörfin er, hvar áherslurnar liggja og hvert markmið svæðisins er. Því er mikilvægt að fyrirtæki undirbúi sig vel áður en lagt er af stað og skilgreini þessa punkta vel. Við leiðum svo viðskiptavinina áfram í ferlinu og látum sýnina rætast.“

Hjá Netheim er farið yfir málin og komið til móts við óskir viðskiptavinarins með fumlausum og faglegum hætti.

Ekki bara afritað og límt

Netheimur er frábær kostur fyrir þá sem þurfa að nýja vefsíðu.

„Við búum að margra ára þekkingu á mismunandi sviðum vefsíðugerðar. Vefsíða er ekki eitthvað sem er bara afritað og límt saman, því öll viljum við að sérkenni okkar skíni í gegn. Starfsfólk Netheims er með samanlagt yfir 50 ára reynslu við hönnun og smíði veflausna og við erum alltaf tilbúin að setjast niður með góðan kaffibolla, hlusta á langanir og óskir viðskiptavina og leysa þær í kjölfarið á hagkvæman hátt,“ segir Sigríður.

Erfitt sé að tímasetja verkefni nákvæmlega en það fari eftir efnisskilum og öðru frá fyrirtækjum.

„Við höfum skilað af okkur vefsíðum á svo litlu sem tveimur vikum en eigum einnig tilbúin vefsvæði sem enn eru ekki komin í loftið, því það vantar sitthvað frá fyrirtækjum. Við gefum þó alltaf upp tímasetningar og reynum að standast þær eftir fremsta megni, en því betri sem undirbúningurinn er, því fljótari erum við að vinna. Notendaprófanir koma þar sterkt inn og að leysa áskoranir sem við lendum í þegar vefur fer í loftið. Fyrsta skrefið er að hafa samband við okkur og koma í heimsókn þar sem við förum yfir hlutina saman,“ segir Sigríður.

Starfsfólk Netheims vinnur allt í Wordpress og er sérhæft í því vefumsjónarkerfi.

„Af hverju, spyrja margir, og svarið er einfalt,“ segir Sigríður. „Wordpress er stærsta vefumsjónarkerfi í heiminum og í flestum tilfellum er hægt að leysa allt án sérsmíði. Viðmót notenda er einnig mjög þægilegt og fólk verður fljótt sjálfbjarga í kerfinu. Það er það sem við viljum; að fyrirtækin okkar þurfi ekki að eyða fleiri þúsundum í smávægilegar breytingar.“

Nauðsynlegt þarfaþing

Sigríður er spurð hvort fyrirtæki geti verið án vefsíðu í dag.

„Að okkar mati: nei. Að sama skapi þurfa vefsvæði ekki að vera flókin. Þau geta líka verið einfaldar upplýsingasíður sem upplýsa um starfsemi, starfsfólk og sögu. Það sem skiptir máli á einföldum síðum er að fá fólk til að hafa samband og því skiptir fljót og góð svörun miklu. Eins er sniðugt að hafa ummæli viðskiptavina á síðunni því slíkt er gulls ígildi. Vefsvæði kemur aldrei í stað góðrar þjónustu, en getur sannarlega tilgreint að hjá fyrirtækinu starfi snillingar.“

Upplifun viðskiptavina eigi svo að vera notaleg og aðgengileg.

„Það þarf að vera einfalt og þægilegt að fara á vefsíður. Of mikið af efni, myndum eða upplýsingum skapar óreiðu fyrir viðskiptavininn og gerir að verkum að hann flýr síðuna. Vefsíðan þarf að lesa hegðun hans og hjálpa honum í næstu skrefum,“ útskýrir Sigríður.

Möguleikarnir við vefsíðugerð séu óþrjótandi.

„Við getum allt. Það eru stöðugar hræringar í vefheiminum og ef við fylgjum þeim ekki eftir getum við allt eins pakkað saman og lokað. Nú eru rafrænar auðkenningar að koma sterkt inn, sem og rafrænar undirskriftir. Það er orðið svo einfalt að sinna öllu sínu á netinu og með Netheimi og Dokobit eru okkur allir vegir færir,“ segir Sigríður og heldur áfram:

„Það er allt hægt í vefheiminum ef fjármagn er til staðar. Flest tilbúin vefkerfi geta tengst við flest önnur kerfi. Mikilvægt er að skoða vandlega hvaða kerfi þurfa að tengjast saman og velja kerfin út frá því. Sérsmíði er hins vegar algeng þegar kemur að tengingum og hún getur verið tímafrek og dýr.“

Innan fyrirtækja sem kaupa vefsíður þurfi svo lágmarkstækniþekkingu til að viðhalda síðunni.

„Tölvan gerir þó ekkert sjálfkrafa því við stýrum kerfunum. Ef lítil tækniþekking er til staðar getum við veitt aukalega þjónustu sem snýr að því öllu. Það skiptir líka máli hvað síðan á að gera, því stundum eru þetta einfaldar upplýsingasíður um til dæmis lögmannsstofu og starfsemi hennar. Þá kennum við viðkomandi að setja inn nýjar fréttir, því það er það eina sem síðan á að gera. Svo erum við með flókin vefverslunarkerfi þar sem „verslunarstjóri“ þarf að stýra fjölda vöruflokka og sjá um að allar upplýsingar séu til staðar og réttar. Þetta getur vafist fyrir sumum, en er yfirleitt fljótt að lærast og við hjá Netheimi erum þekkt fyrir góðan stuðning og leggjum okkur fram við að gera notendur eins sjálfbjarga og hægt er,“ segir Sigríður.

Sjá nánar á netheimur.is

Hugrún Björnsdóttir verkefnastjóri, Jóhann Gunnar Bjargmundsson, sérlegur forritari og Ísak Grétarsson framendaforritari. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Vefteymi Netheims er með yfir 50 ára reynslu í hönnun og smíði veflausna

Vefteymi Netheims samanstendur af öflugum hópi forritara með einn besta kerfisstjóra landsins í fararbroddi. Sverrir Már Sverrisson hefur starfað hjá Netheimi í 20 ár og þykir einn sá besti í bransanum í kerfisstjórn.

Jóhann Gunnar Bjargmundsson hefur starfað hjá Netheimi í sjö ár. Hann er sérlegur forritari varðandi tengingar milli kerfa, til dæmis á milli WooCommerce-vefverslunar og bókhaldskerfa. Hann sér einnig um alla forritun varðandi Homebase sem er fasteignasölukerfi og allar fremstu fasteignasölur nota. Hann sér um að setja upp vefsíður fyrir fasteignasölur og þróar það kerfi daglega. Jóhann sér um vef Bóksölu stúdenta, boksala.is, en í ágúst tengdum við eina bestu leitarvél sem um getur í netverslun við netverslun Bóksölunnar. Í kjölfarið jukust viðskipti á netinu þrefalt, hver viðskiptavinur keypti fleiri bækur og viðskiptavinir urðu sjálfbærari. Sjálfbærni mátti rekja til þess að færri hringdu inn og þurftu aðstoð við kaupin.

Rafn Steingrímsson hefur starfað hjá Netheimi í fimm ár. Rafn býr og starfar í Bandaríkjunum en smíðaði vef Safetravel og sérsmíðaði lausnir þar sem gefa ferðalöngum kost á að skrá ferðalagið sitt, fylgjast með færð og umferð í rauntíma og leigja neyðarsenda. Rafn sér einnig um Tengslatorg Háskóla Íslands. Hann er sérhæfður í að færa gögn milli kerfa og sparar viðskiptavinum þar af leiðandi vinnu í innsetningu gagna.

Hugrún Björnsdóttir er verkefnastjóri í hugbúnaðardeild og hefur starfað hjá Netheimi í þrjú ár. Hún skipuleggur verkefni og skrásetur ferla. Hún er hryggjarstykkið í að samræma vinnu allra aðila.

Þórdís Aikman Andradóttir er vefforritari og hönnuður og hefur smíðað hin ýmsu vefsvæði. Má þar nefna Tort og vef Félagsstofnunar Stúdenta, fs.is.

Ísak Grétarsson er framendaforritari. Hann byrjaði hjá Netheimi í mars og hefur nú þegar smíðað vefi fyrir veisluþjónustur, bílasölur, vefverslanir og er að leggja lokahönd á rafrænt samningakerfi fyrir Félagsstofnun Stúdenta í samstarfi við Dokobit á Íslandi.

Hildur Björg Gunnarsdóttir sinnir vef- og notendaupplifunarhönnun auk notendaprófana hjá Netheimi. Hennar sérsvið felst í að greina upplifun notanda áður en vefur fer í loftið eða þegar endurnýja á gamla vefi. Þá er Hildur manneskjan því hún er sú sem sparar fyrirtækjum bæði tíma og peninga.

Hildur Björg Gunnarsdóttir
Þórdís Aikman Andradóttir
Rafn Steingrímsson
Netheimur sér um vefsíðu Bóksölu stúdenta sem nú er með nýrri leitarvél.
Tort lögmenn fengu Netheim til að hanna vefsíðu með góðum árangri.
Glæsileg vefverslun Frú Sigurlaugar er einföld og þægileg í notkun.
Verslunin Fossberg er bæði aðgengileg og með þægilegt notendaviðmót.