Margrét Lára Friðriksdóttir er framkvæmdastjóri mannauðssviðs Össurar á heimsvísu. Hún segir Össur eftirsóknarverðan vinnustað með góðan starfsanda og háan starfsaldur.

„Fyrirtækjamenning Össurar byggir á gildum fyrirtækisins: heiðarleika, hagsýni og hugrekki. Þeim sem gengur vel hjá Össuri hafa sömu gildi að leiðarljósi í sínu lífi, en við leggjum líka áherslu á að starfsmenn okkar búi að fimm hæfniþáttum, sem snúa að: samstarfi, samskiptum, árangri, viðskiptavinum og breytingum,“ upplýsir Margrét Lára Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Össurar.

Margrét var á höttunum eftir sumarstarfi eins og aðrir háskólastúdentar á Framadögum árið 2000 og á þeim tíma var fyrirtækið í örum vexti.

„Ég sótti þá um sumarvinnu hjá Össuri og fékk fastráðningu eftir útskrift úr viðskiptafræðinni. Mig grunaði ekki þá að ég yrði enn hjá Össuri 21 ári síðar. Í þá daga unnu um hundrað manns hjá Össuri og aðallega á Íslandi en síðan hefur fyrirtækið breyst gríðarlega og tvöfaldast að stærð á þriggja til fjögurra ára fresti,“ segir Margrét.

Starfsánægja mikilvæg

Margrét vann fyrst á fjármálasviði Össurar, en frá árinu 2013 hefur hún verið yfir mannauðssviði Össurar á heimsvísu.

„Það er auðvitað heilmikil áskorun að hafa 3.500 manns í yfir 30 löndum ánægða, þar af 500 á Íslandi, og vera með puttann á púlsinum til að vita hvernig starfsfólkinu líður. Það gerum við með reglulegum vinnustaðagreiningum, stjórnendaþjálfun og opnum samskiptum.“

Höfuðstöðvar Össurar eru á Íslandi en aðalskrifstofur fyrir Ameríkumarkað eru í Kaliforníu, Evrópumarkað í Eindhoven í Hollandi og starfstöðvar eru í Ástralíu, Kína og víða um heim. Sem yfirmaður mannauðsmála hjá Össuri hefur Margrét ferðast til flestra starfsstöðva fyrirtækisins í heiminum, ásamt því að búa og starfa í sex ár hjá Össuri í Kaliforníu.

„Á flestum okkar starfsstöðvum erum við með háan starfsaldur og því þekkir maður einn eða fleiri víðast hvar þar sem maður hefur eytt tíma. Auðvitað verður æ flóknara að hafa yfirsýn yfir starfsfólkið með því að þekkja það með nafni og því er lykilatriðið í mannauðsmálum að hafa skýra ferla og frammistöðumat til að hafa góða yfirsýn yfir þekkinguna sem býr í fyrirtækinu,“ greinir Margrét frá.

Hjá Össuri starfa um 3.500 starfsmenn í yfir 30 löndum, þar á meðal um 500 starfsmenn á Íslandi.

Lærdómur í heimsfaraldri

Þegar heimsfaraldur kórónaveirunnar skall á var áhersla lögð á starfsþróun og símenntun hjá Össuri.

„Með COVID-19 urðu verkefnin öðruvísi og auðvitað nóg að gera í mannauðsmálunum við að hjálpa öllum að takast á við þennan nýja veruleika og vinna heima. Þá blöstu við áskoranir sem enginn var búinn undir og vinnudagurinn breyttist á svipstundu frá því að hlaupa á milli fundarherbergja og spjalla við samstarfsfólkið við kaffivélina yfir í það að vinna heima. Allt gekk það lygilega vel, bæði tæknin og öll verkefni sem voru keyrð áfram. Við lærðum því á COVID að það er leikur einn að reka stórfyrirtæki á heimsvísu við eldhúsborðið heima hjá fólki,“ segir Margrét.

Fjölbreyttur vinnustaður

Össur er eftirsóknarverður vinnustaður og hefur ávallt fundið fyrir áhuga í samfélaginu. Leitast er við að hafa kynjahlutfallið jafnt. Nú er það 54 prósent karlar og 46 prósent konur.

„Hjá Össuri starfar allur skalinn af fólki. Við erum með mikið af hámenntuðu fólki með doktorsgráðu en líka ófaglært fólk, sem gerir starfsmannahópinn fjölbreyttan og vinnustaðinn skemmtilegan. Hjá Össuri á Íslandi starfar fólk af 25 þjóðernum við framleiðslu, þróun og alls konar störf. Tungumálið í fyrirtækinu er enska, umhverfið er alþjóðlegt og samskiptin bera vott um virðingu og vinsemd,“ segir Margrét, í heimsborgaralegu andrúmslofti Össurar.

„Við viljum að fólki þyki gott og gaman að koma í vinnuna og reynum að skapa gott andrúmsloft. Við sjáum í vinnustaðagreiningum að starfsfólkinu okkar líður vel. Hér er góður mórall, öflugt starfsfólk og áhugaverð verkefni. Það á líka að vera gaman í vinnunni og við erum með alls kyns klúbba, eins og golfklúbb og hlaupaklúbb, og sinnum félagslega þættinum vel. Þá stendur frábært starfsmannafélag fyrir viðburðum og þátttaka í þeim öllum er góð, sem hjálpar enn upp á góðan vinnumóral. Fólki verður vel til vina, starfsaldur er hár hjá Össuri og við erum alltaf á höttunum eftir öflugu fólki í okkar hóp.“