Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda segir að Bókamarkaðurinn hafi sjaldan verið veglegri. „Bókamarkaðurinn var lengi vel í Perlunni en hann hefur verið á Laugardalsvelli, undir stúkunni, frá árinu 2014. Þar er rúmgóður salur, um eitt þúsund fermetrar og næg bílastæði fyrir utan,“ segir hún. „ Við bjóðum rúmlega sex þúsund titla af bókum. Margar af þessum bókum komu út fyrir jólin svo þær eru nýjar en einnig er gífurlega mikið af eldri bókum, sumum þar sem eingöngu örfá eintök eru fáanleg. Nokkrir útgefendur hafa augljóslega notað COVID-tímann til lagertiltektar og fundið titla sem taldir voru löngu uppseldir.“

Bryndís segir að reynt sé að flokka barnabækurnar eftir aldri og efni. Þannig megi finna þrauta- og verkefnabókaborð, fræðibækur, myndasögur fyrir leikskólaaldur, teiknimyndasögur og þýdd og íslensk skáldverk.?FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Einstakt úrval bóka

Þegar Bryndís er spurð hvaða bækur fólk sækist helst í á bókamörkuðum, svarar hún: „Það skiptist í þrjá hópa, barnabækur, þýdd og íslensk skáldverk og að lokum fræðibækur og handbækur. Þetta eru mjög jöfn skipti. Það er alltaf mikil ásókn í glæpasögur og við höfum aldrei haft jafn mikið úrval og núna. Við erum með heila 16 metra af spennusögum sem við köllum glæpalengjuna. Það finnst varla meira spennandi hlaðborð en á Laugardalsvelli,“ segir hún og hlær. „Þarna eru bæði íslenskar og þýddar glæpasögur, innbundnar, í kilju og hljóðbækur.“

Mikið úrval er af bókum fyrir yngstu kynslóðina.

Léttlestrarbækur fyrir börn

Bryndís segir að nú sé í fyrsta skipti búið að flokka léttlestrarbækur saman á borð í barnadeildinni. „Þetta gerir yngstu lestrarhestunum auðveldara að velja bækur við sitt hæfi. Þarna eru margar alvöru sögubækur fyrir 5-8 ára krakka. Ætli þessar tegundir bóka séu ekki á sex metrum. Margar ríkulega myndskreyttar með stóru letri.“

Bryndís segir að reynt sé að flokka barnabækurnar eftir aldri og efni. Þannig megi finna þrauta- og verkefnabókaborð, fræðibækur, myndasögur fyrir leikskólaaldur, teiknimyndasögur og þýdd og íslensk skáldverk ætluð grunnskólabörnum. Þar má reyndar einnig finna ungmennabækur, ætlaðar nemendum efstu deilda grunnskóla og framhaldsskóla. „Ég er búin að gefast upp á að flokka sérstaklega bækur fyrir elsta aldursflokkinn. Fjölmargar og jafnvel flestar bækur sem koma út hér á landi geta hentað fyrir börn allt niður í 13-14 ára aldur, jafnvel þótt þær séu ekki skrifaðar sérstaklega með þau í huga. Rétt eins og bíómyndir og sjónvarpsþættir. Með því að flokka þær sérstaklega erum við að beina þessum aldurshópi inn á þröngt svið þar sem úrvalið á íslensku verður alltaf af skornum skammti vegna smæðar málsamfélagsins. Að auki eru flestar þær bækur sem við gefum út fyrir þennan aldurshóp alls ekkert síður fyrir okkur sem eldri erum. Við förum hins vegar á mis við þær vegna þess að við sjáum þær ekki eða teljum þær ekki skrifaðar fyrir okkur. Þar með er ég alls ekki að segja að það eigi ekki að gefa út bækur um ungt fólk og þeirra reynsluheim eða læsilegar fræði- og handbækur. Við eigum að gefa út fleiri og betri slíkar bækur og markaðssetja þær einfaldlega fyrir áhugasama lesendur á öllum aldri.“

Glæpasagnalengjan er ekkert smáræði á Laugardalsvelli.

Eftirspurn eftir útivistarbókum

Þá er boðið upp á ævisögudeild þar sem bókunum er skipt eftir kyni. „Það er ágætt að sjá hversu mikill munur er á fjölda útgefinna ævisagna kvenna og karla. Karlaævisögurnar eru augljóslega miklu fleiri.“

Þegar bankahrunið skall á landinu árið 2008 jókst bóksala mikið og var áberandi aukning á sölu handavinnu- og matreiðslubóka. „Á tímum COVID virðumst við hafa fengið nóg af pottum og prjónum því nú beinist eftirspurnin að útivistarbókum, gönguleiðabókum og fróðleik um náttúru og sögu landsins. Þá hefur sömuleiðis verið eftirspurn eftir bókum um alls kyns ræktun. Við erum með gott úrval af ferðabókum frá Ferðafélagi Íslands og fleiri útgefendum á markaðnum. Frábært tækifæri til að fá nýjar hugmyndir um gönguleiðir og ferðir innanlands fyrir sumarið.“

Nú er rétti tíminn til að sækja sér gott lesefni.

Bækur á 199 krónur

Bryndís segir að það sé skemmtilegt og komi alltaf á óvart hversu mikill áhugi sé á krossgátublöðum. „Sömuleiðis bjóðum við upp á ýmis eldri íslensk tímarit. Þá er einnig sérstakt 199 króna borð þar sem er fjölbreytt úrval af bókum og hljóðbókum.“

Bryndís ítrekar að Bókamarkaðurinn er við knattspyrnuvöllinn á Laugardalsvelli, undir stúkunni, en margir villast yfir í Laugardalshöllina í leit að markaðnum. Á bókamarkaðnum er hægt að fá aðstoð starfsfólks við leit að ákveðnum bókum. „Yfirleitt kemur fólk ekki með eitthvað ákveðið í huga og gefur sér góðan tíma til að skoða. Bækur eru ekki lengur plastaðar svo það er hægt að kíkja í þær, lesa til dæmis nokkur ljóð hér við þjóðarleikvanginn. Við brýnum þó fyrir fólki að spritta hendur við innganginn og nota andlitsgrímu,“ segir Bryndís.

Bókamarkaðurinn verður opinn alla daga frá 10-21.