Skerið: 13 dagar undir sólinni er glæný hljóðsería sem vann Eyrað, hugmyndasamkeppni Storytel, árið 2021. Fyrsti hluti seríunnar kemur út 1. júlí og svo kemur nýr hluti á hverjum degi til 6. júlí. Handritshöfundar seríunnar eru þau Áslaug Torfadóttir og Ragnar Egilsson.

„Það má segja að með seríunni sé Storytel að færa hljóðbók á næsta stig, því þetta er leikin saga,“ segir Áslaug.

Svört kómedía um ólukkulegan Íslending í útlöndum

„Þetta minnir svolítið á útvarpsleikrit, þó að það sé ekki orðið yfir þetta, þar sem frábær leikarahópur sér um að túlka söguna,“ segir Ragnar. „Sagan fjallar í stuttu máli um ólukkulegan Íslending á miðjum aldri sem fer á djammið á Tenerife en vaknar svo á eyju sem hann kannast ekki við og man ekki eftir að hafa komið þangað. Svo hefst atburðarás sem hann ræður lítið við, þar sem hann er að reyna að svara spurningum eins og hvar hann er, hvernig hann komst þangað, hvaða fólk er þarna og hvað er í gangi. Þetta er blanda af gríni og drama og það má segja að þetta sé svört kómedía með smá fantasíu „elementi“.

Við fengum hugmyndina að sögunni þegar við vorum í fríi á Tenerife sem var alltof langt og við vorum orðin eirðarlaus undir lokin,“ bætir Ragnar við. „Þannig að við fórum að pæla í þessum manni sem hefur sína djöfla að draga, hvernig hann bregst við þegar hann er settur í þessar aðstæður og hvaða breytingar verða á honum.“

„Hann þarf að eiga við framandi aðstæður og horfast í augu við sig og sína fortíð,“ segir Áslaug.

„Aðalpersónan er eiginlega sögumaðurinn, sagan er sögð í gegnum hálfgerða dagbók sem hann er að taka upp á meðan þetta gerist og hann leiðir okkur í gegnum þetta. En það er líka stór hópur af öðrum persónum sem koma við sögu,“ segir Ragnar. „Þetta er svona eldhress sjomlatýpa og við erum að gera létt en góðlátlegt grín að ákveðinni týpu af Íslendingum. Okkur þykir mjög vænt um þennan karakter og okkur er hugleikið að tala um íslenska þjóðarkarakterinn og kryfja þjóðina gegnum persónur. Þetta er ekki þjóðfélagsgagnrýni, við erum bara að velta fyrir okkur einkennum okkar.

Hver hluti er um 40-45 mínútur að lengd, þannig að þetta er töluvert af efni, svo fólki ætti ekki að leiðast. Eða vonandi ekki,“ segir Ragnar léttur.

Ríkur hljóðheimur styður við frásögnina

„Á síðustu árum er margt búið að breytast varðandi hvernig við neytum alls kyns afþreyingarefnis, hvað er hægt að gera tæknilega og hvernig er hægt að setja svona efni fram,“ segir Ragnar. „Í seríunni er til að mynda ríkur hljóðheimur sem styður frásögnina.“

„Það eru ekki bara leikarar að lesa og leika, heldur eru alls kyns hljóð, brellur og annað slíkt líka notað,“ bætir Áslaug við.

„Skerið: 13 dagar undir sólinni“ fjallar um ólukkulegan Íslending á miðjum aldri sem fer á djammið á Tenerife en vaknar svo á eyju sem hann kannast ekki við og man ekki eftir að hafa komið þangað.

„Í rauninni er þetta bara eins og þáttasería á streymisveitum, nema það er engin mynd,“ segir Ragnar. „Það getur verið mjög hentugt þegar maður er að gera eitthvað sem maður þarf að nota augun í en vill samt njóta skáldskapar. Eins og til dæmis þegar maður er í bíl, að skokka, sinna börnum eða taka til.“

Fyrsta serían af sinni tegund

Hljóðserían verður bara aðgengileg á Storytel, en það var ákveðið að framleiða hana eftir að Áslaug og Ragnar unnu Eyrað, hugmyndasamkeppni Storytel.

„Ég held að Storytel hafi ekki gert sambærilega seríu hér á Íslandi áður og þetta sé jafnvel eitt af fyrstu dæmunum um þetta á heimsvísu,“ segir Ragnar. „Það er mjög nýlegt að fyrirtækið frumframleiði svona efni, en ekki bara hljóðbækur. Þetta er svolítið áhugavert og hefur verið mjög skemmtilegt verkefni. Það hafa ýmsar áskoranir fylgt því að eiga við nýjan miðil og það krefst útsjónarsemi að segja söguna svona.“

Áslaug tekur undir þetta: „Já, án myndar þarf maður að hugsa svolítið öðruvísi. Ég get ekki sagt að við höfum alveg vitað hvað við vorum að fara út í, en við lærðum á ferðinni. Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt og skemmtilegt verkefni og við erum mjög ánægð með afraksturinn.“

Teymi sem virkar

„Handritasamkeppnin Eyrað hefur verið haldin nokkrum sinnum. Hingað til hefur verið óskað eftir handritum að hljóðbókum, en í ár var auglýst eftir hugmyndum að hljóðseríum,“ segir Áslaug.

„Við ákváðum að láta reyna á að vera með en það voru send inn yfir 20 handrit. Við höfum verið að vinna í handritum hér og þar en þó að við séum trúlofuð erum við bara nýlega byrjuð að vinna saman,“ segir Ragnar.

„Við sáum þetta auglýst og okkur hálf leiddist í þessari Tenerife-ferð, svo við ákváðum bara að klambra þessu saman og senda inn,“ segir Áslaug. „Það var ótrúlega gaman að vinna. Þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum saman að svona skapandi verkefni og það er rosalega skemmtilegt að fá staðfestingu á að það væri vit í að vinna saman. Svo erum við búin að vera á fullu að klára að skrifa og koma þessu til Storytel.“

„Já, við erum líka með mörg plön og ætlum að halda áfram að vinna saman, hvort sem það verður á þessum miðli eða öðrum,“ segir Ragnar.

„Við stefnum ótrauð á það, hvort sem það verður önnur hljóðsería, kvikmynd eða sjónvarpsþættir,“ bætir Áslaug við.

Mjög ánægð með leikarana

„Það er mikið talað um að þessi geiri sé vaxandi á heimsvísu og það sé mikil og vaxandi þörf fyrir efni fyrir aðstæður þar sem er ekki hægt að glápa. Það er verið að framleiða svona svipaðar kaflaskiptar seríur með stórleikurum úti í heimi,“ segir Ragnar. „Þetta er það nýjasta í þessum málum.“

„Við erum líka ótrúlega ánægð með hvað við fengum góðan hóp af leikurum til að hjálpa okkur að blása lífi í söguna,“ segir Áslaug. „Það er mikill metnaður lagður í þetta. Við fengum að fylgjast með tökunum og það var rosalega gaman að sjá þennan flotta leikarahóp setja þetta saman.“

„Já, það var gaman að sjá þau leggja allt í þetta og samstarfið við Storytel í heild hefur verið alveg frábært,“ segir Ragnar.

„Við viljum endilega hvetja alla til að fá sér áskrift og prófa að hlusta,“ segir Áslaug að lokum.