Á seinni hluta sjöunda áratugarins gekk yfir Evrópu heilsualda sem ruddi á undan sér afar mikilvægum breytingum sem áttu eftir að hafa ómæld áhrif á lífsgæði og íþróttaiðkun fatlaðra, hér á landi og um allan heim.

Markmiðið var að efla almenningsíþróttir en þannig náði skokk til að mynda miklum vinsældum. „Þó svo flestir hafi gert sér grein fyrir að íþróttir fatlaðra væru í raun mikilvægari fyrir mikið fatlaða einstaklinga heldur en ófatlaða, sérstaklega þegar kemur að endurhæfingu, þá er íþróttaiðkun fatlaðra eins og við þekkjum hana í dag alls ekki svo gömul í hettunni,“ segir Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra.

„Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fylgdist vel með þessari þróun og ákvað árið 1970 að beita sér fyrir svokallaðri „trimmherferð“. Meðfram því stuðlaði sambandið að aukinni íþróttaiðkun meðal fatlaðra með stofnun íþróttafélaga og sérsambands. Það er mikil gæfa að Íþróttasamband fatlaðra skyldi hafa verið stofnað af íþróttahreyfingunni, en sú staðreynd hefur tryggt að íþróttir hafi ávallt verið í forgrunni hjá félaginu, fremur en fötlun viðkomandi einstaklinga,“ segir Ólafur.

Í dag er starfandi 21 íþróttafélag fyrir fatlaða um land allt en þau fyrstu voru stofnuð árið 1974 í Reykjavík og á Akureyri. Íþróttasamband fatlaðra var svo stofnað 17. maí árið 1979. „Tilgangur stofnunar sambandsins var og er að vera æðsti aðili um íþróttir fatlaðra innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þannig hefur ÍF yfirumsjón með allri íþróttastarfsemi fatlaðra og vinnur að eflingu hennar meðal fatlaðra og að koma fram erlendis í því sambandi. Til gamans má geta að fyrsta Íslandsmót fatlaðra var Íslandsmót í lyftingum, sem fram fór í sjónvarpssal 1977 og muna væntanlega margir eftir því,“ segir Ólafur.

Gjöfult samstarf

ÍF á öfluga bakhjarla sem hafa í gegnum tíðina staðið þétt við bak sambandsins hvernig sem árað hefur. Össur hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum ÍF í aldarfjórðung og hófst gjöfult samstarf félaganna tveggja árið 1991. Að sögn Ólafs varð sýnileiki ÍF og íþrótta fatlaðra meiri með sterkri stöðu í seinni tíð. „Árið 1992 tóku til að mynda um 350 manns þátt í göngunni „Í spor fatlaðra“ sem sambandið og Össur stóðu fyrir. Tilgangurinn var að vekja athygli Íslendinga á Ólympíumótum fatlaðra í Barcelona og Madrid sem fram fóru seinna þetta sama ár. Verndari göngunnar var þáverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, og gengu þar ýmsir þjóðþekktir einstaklingar um 300 metra hver og var notast við spelkur og hækjur, gerviökkla, hjólastóla og blindrastaf.“ Þannig hefur fyrirtækið auglýst samstarf sitt við sambandið og bæði hafa Össur og ÍF nýtt sér þá jákvæðu ímynd sem báðir aðilar hafa í augum alls almennings.

Team Össur er afrekshópur alþjóðlegs íþróttafólks sem notar stoðtæki, framleidd hjá Össuri.

Öruggt samstarf tryggir árangur

ÍF hefur gert samstarfssamninga við Össur til fjögurra ára. „Með slíkum langtímasamningum skapast mikilvægur fyrirsjáanleiki í rekstri sem hefur gert sambandinu kleift að taka ákvarðanir um ýmis mál sem lúta að rekstri sambandsins eins og um mótahald, fræðslu- og útbreiðslustarf og þátttöku í stórmótum erlendis.“ Þannig hefur tryggur, fjárhagslegur stuðningur Össurar gert sambandinu mögulegt að skapa afreksfólki ÍF og íþróttafólki almennt á Íslandi nauðsynlega umgjörð til að vera í fremstu röð á alþjóðavettvangi. „98 verðlaun á Ólympíumótum fatlaðra/Paralympics og þar af 36 gullverðlaun segir það sem segja þarf um árangur fatlaðra íþróttamanna á alþjóðavettvangi,“ segir Ólafur.

„Stuðningur Össurar hefur ekki einungis verið fjárhagslegur því fatlaðir, íslenskir íþróttamenn hafa notað hin ýmsu stoðtæki sem Össur hefur framleitt fyrir fatlað íþróttafólk með frábærum árangri. Áratuga ánægjulegt samstarf Össurar við ÍF er því nokkuð sem erfitt er að koma í orð og þakka,“ segir Ólafur að lokum.