Leikhúsferð er skemmtun sem hentar öllum hópum. Að sögn Brynhildar Guðjónsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins, býður Borgarleikhúsið upp á einstaklega fjölbreytt úrval verka á fjölunum í haust og vetur. „Við erum ákaflega stolt af því að vera ferskt og framsækið leikhús og mikilvæg menningarmiðja í ört stækkandi borg. Í haust sýnum við stórskemmtileg fjölskylduverk, drepfyndin grínverk, háalvarleg leikverk, sýningu á pólsku, leikrit fyrir þau allra yngstu og margt fleira. Við erum með eitthvað fyrir alla.

Þá má segja að leiðarstefið í sýningardagskránni sé tenging okkar við nærumhverfi og samfélag. Í sýningunum er spurt: Hver erum við og hvað merkir það að vera Íslendingur?“ segir Brynhildur.

Lengsti bar Íslands var nýverið opnaður í Borgarleikhúsinu. Þar er tilvalið að næla sér í snarl fyrir sýninguna eða drykkjarföng í hléinu.

Gjöf sem lifnar við

Gjafabréf Borgarleikhússins eru gjöf sem lifnar við. Þau koma í fallegum gjafaöskjum sem gaman er að gefa við hin ýmsu tilefni. „Leikhúsferð er stund sem lifir í minningunni og það er einmitt svo dýrmætt núna eftir Covid að geta komið saman, nærst og glaðst. Miðasala Borgarleikhússins hefur tekið hressilega við sér enda þyrstir fólk í að komast í leikhús eftir samkomutakmarkanir. Ógleymanlegar stundir er einmitt það sem við þurfum á að halda.“

Hin fullkomna fyrirtækjagjöf

„Við viljum koma til móts við fyrirtækin í landinu og bjóðum upp á ólíkar leiðir til þess að láta alla drauma rætast. Hvort sem fyrirtækið vill halda hópferð í leikhúsið að sjá saman eitthvert vel valið verk, eða gefa starfsmönnum opið gjafabréf í leikhús. Ef vinnustaðurinn mætir saman getum við græjað veitingar fyrir hópinn og lögum okkur að óskum vinnustaðarins. Auk hefðbundinna gjafabréfa gefum við út sérstakar skreyttar gjafaöskjur fyrir leikhúsferð á Emil í Kattholti, Níu líf og Veislu. Þá er askjan skreytt í takt við sýninguna.“

Gjafakort Borgarleikhússins eru gjöfin sem þjóðin þarfnast eftir faraldursdoða.

Ný íslensk verk

Borgarleikhúsið sýnir fjölmörg frábær ný íslensk leikverk í haust og vetur. „Eftir áramót sýnir Borgarleikhúsið nýtt íslenskt gamanverk á pólsku sem nefnist, Úff hvað allt er dýrt hérna. Verkið fjallar á gamansaman hátt um samskipti Íslendinga og Pólverja. Tungumálið er pólska og sýningin er textuð á íslensku og ensku. Sýningin hentar sérlega vel fyrir starfsmannahópa þar sem stór hluti er pólskumælandi.

Tu jest za drogo (Úff hvað allt er dýrt hérna). Gamansöm skoðun á samskiptum Íslendinga og pólverja, á pólsku.

Tjaldið er dásamleg leikhúsupplifun á miðvikudags- og laugardagsmorgnum í boði leikhópsins Miðnætti. Sýningin er sérsniðin fyrir börn frá þriggja mánaða aldri upp í þriggja ára. Gestir ganga inn í sýninguna, fá að upplifa leikhúsið og svala forvitni sinni með því að snerta leikmyndina. Þessi sýning er tilvalin fyrir starfsmannahópa þar sem eru margir foreldrar með ung börn.

Tjaldið. Dásamleg leikhúsupplifun fyrir börn á aldrinum 3 mánaða til 3 ára.

Svo erum við með fullkomna sýningu fyrir söguþyrsta en leikhópurinn Hundur í óskilum fer á hundavaði yfir Njálu, einn af hornsteinum íslenskrar bókmenntasögu. Þetta er á margan hátt upphaf íslenskrar menningar en líka ómenningar, enda er víkingatíminn í öndvegi.

Njála á hundavaði. Hundur í óskilum snýr aftur með sýningu fyrir söguþyrsta sem vilja hlæja.

Þétting hryggðar er glænýtt og spennandi íslenskt verk eftir Dóra DNA. Sýningin er skylda fyrir alla arkitekta og skipuleggjendur byggðar. Dóri er beittur penni með sterka samfélagsvitund og verkið er myljandi skondið. Það fá sko allir einn á lúðurinn en líka upphafningu hjartans.

Þétting hryggðar. Beitt og myljandi skondin samfélagsstúdía eftir Dóra DNA.

Veisla eftir Sögu Garðarsdóttur, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Sigurð Þór Óskarsson og Halldór Gylfason verður áfram á fjölunum í haust og vetur. Þetta er alveg brjálæðislega fyndin sýning þar sem veislumenning Íslendinga er tekin fyrir. Þetta er kjörin sýning fyrir starfsmannahópa að koma saman, fá sér drykk á undan og hlæja sig máttlaus saman í salnum. Berglind Festival sagði að hún hefði aldrei hlegið jafnmikið í íslensku leikhúsi og að þetta væri fullkomin sýning fyrir þá sem hafa ekki gaman af því að fara í leikhús, sem er fyndið!

Veisla. Brjálæðislega fyndin sýning þar sem veislumenning Íslendinga er tekin fyrir.
Veitingasvæðið er glæsilegt og notalegt og hægt er að fá úrval af léttum réttum og drykkjum í hléi og fyrir sýningar. Svo er tilvalið að setjast þar niður með drykk eftir sýninguna og ræða saman.

Valur Freyr Einarsson leikstýrir sínu fyrsta verki, Fyrrverandi, sem er frumsýnt í mars á næsta ári, en hann er einnig höfundur verksins. Hér er fjallað um flókið fjölskyldulíf og sambönd nútímans á grátbroslegan hátt. Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd og búning og Davíð Þór Jónsson sér um tónlistina. Þá flytja sex þjóðþekktir leikarar verkið af einstakri fagmennsku.

Fyrrverandi. Nýtt verk úr smiðju Common Nonsense. Grátbrosleg sýning um flókið fjölskyldulíf og sambönd nútímans.

Ekki má svo gleyma Níu lífum, fimm stjörnu söngleiknum um Bubba Morthens sem er skylduáhorf fyrir alla. Verkið er ekki bara söngleikur með flottri tónlist, heldur líka saga þjóðarinnar í þau ár sem Bubbi hefur verið að semja tónlist.“

Níu líf. Fimm stjörnu söngleikur um Bubba Morthens. Skylduáhorf fyrir alla.

Undir heillastjörnu

„Það er engu líkara en að Borgarleikhúsið hafi legið undir heillastjörnu, en forsalan á Emil í Kattholti sló öll fyrri met leikhússins. Emil í Kattholti verður frumsýndur 27. nóvember. Emil er sýning fyrir alla fjölskylduna og leikhúsgestir ganga beint inn í sænsku Smálöndin. María Ólafsdóttir sér um búningana sem eru hver öðrum fallegri. Fimm manna hljómsveit spilar undir og sautján leikarar eru á sviðinu. Þórarinn Eldjárn þýðir af sinni alkunnu snilld. Hér verður talað inn í hjörtu allra barna í salnum, sama í hversu gömlum líkama þau eru.“

Emil í Kattholti. Sýning fyrir alla fjölskylduna.

Lífið eftir barnsmissi

Ég hleyp er danskur einleikur eftir Line Mørkeby og í þýðingu Auðar Övu Ólafsdóttur og undir leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Við hittum fyrir föður, sem Gísli Örn Garðarsson túlkar af mikilli næmni, sex stundum eftir að hann hefur misst barnið sitt. Hann gengur út, byrjar að hlaupa og getur ekki hætt. Hér er farið í ferðalag sem er allt í senn óvenjulegt, átakanlegt og heillandi en Gísli Örn hleypur alla sýninguna.“

Ég hleyp. Gísli Örn í einleik um lífið eftir barnsmissi. Átakanlegt og heillandi verk.
Borgarleikhúsið tók forsalinn nýverið í gegn og útkoman er glæsileg.

Máttugur leikhópur reynslumikilla kvenna

„Svo vil ég minnast sérstaklega á leikverkið Ein komst undan. Þetta er breskt nútímaverk sem verður frumsýnt í janúar á næsta ári. Með einstökum húmor rennur teboð saman við hörmungar og náttúruhamfarir, sem eru jafn skelfilegar og þær eru kostulegar. Þarna koma saman máttarstólpar íslenskrar leiklistarsögu en leikhópinn skipa þrír elstu starfandi leikarar landsins: þær Kristbjörg Kjeld, Guðrún Ásmundsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir sem fagnar 70 ára leikafmæli sínu. Með þeim er Edda Björgvinsdóttir. Það er eitthvað alveg einstaklega merkilegt við að þessar konur séu að stíga saman á svið. Það verður mjög máttug stund að fá að dást að þessum fjórum stórleikkonum í vetur.“

Ein komst undan. Máttugur leikhópur reynslumikilla kvenna.

Það er af nógu að taka í Borgarleikhúsinu á leikárinu og við hlökkum til að taka á móti öllum starfsmannahópum, stórum sem smáum.

Allar frekari upplýsingar er að finna á borgarleikhus.is og öllum fyrirspurnum er svarað á midasala@borgarleikhus.is