Fyrirtækið Margt smátt var stofnað árið 1988 og grunnurinn í starfsemi þess er sala og framleiðsla á auglýsingavörum. Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið sinnt jólagjöfum til starfsmanna fyrirtækja og í fyrra tók það upp á þeirri nýjung að selja gjafakort sem geta verið sérsniðin að fyrirtækjum og bjóða starfsmönnum upp á að velja sér gjöf úr mörg hundruð möguleikum.

„Grunnurinn hjá okkur er að merkja alls kyns vörur: dagbækur, boli, húfur, fatnað og alls konar smádót. Við erum með 30 starfsmenn og stærstu prentdeild til að merkja vörur á landinu,“ segir Árni Esra Einarsson, framkvæmdastjóri Margt smátt. „Við erum best tækjum búin í þessu fagi hér á landi og getum bæði saumað bróderingar og merkt allt milli himins og jarðar, frá golfkúlum upp í loftbelgi og allt þar á milli.

Hér sést hvernig gjafakortið sem var gert fyrir Coca-Cola í fyrra leit út.

Við erum búin að vera lengst í þessu hér á landi og í gegnum tíðina hafa um 80% af stærstu fyrirtækjum Íslands verið í viðskiptum við okkur. Okkar nafn er oft það fyrsta sem kemur upp í kollinn hjá markaðsstjórum og öðrum sem eru í leit að merktum vörum,“ segir Árni. „Við merkjum til dæmis fyrir Reykjavíkurmaraþonið og allt fyrir landsliðin í fótbolta og seljum líka landsliðsbúninga. Við komum víða við og þetta er mjög fjölbreytt starf hjá okkur.“

Verðflokkar sem henta ólíkum fyrirtækjum

„Við höfum alltaf sinnt jólagjöfum til starfsmanna fyrirtækja. Í upphafi var algengt að gefa bakpoka, flísteppi eða yfirhöfn með merki fyrirtækisins en svo breyttust tímarnir. Eftir hrun fóru fyrirtæki meira að gefa matvæli og þá duttum við svolítið út úr þessu,“ segir Árni. „Síðan varð algengara að gefa alls kyns merkjavöru og þá vill fólk ekki endilega prenta merki fyrirtækisins á vörurnar.

Hvert gjafakort veitir aðgang að nokkur hundruð gjöfum sem starfsmaður velur úr.

Í fyrra byrjuðum við svo með þessi nýju gjafakort. Það gekk ótrúlega vel og mörg stórfyrirtæki nýttu þetta, til dæmis Advania og Coca-Cola,“ segir Árni. „Þetta virkar þannig að fyrirtæki gefa starfsmönnum þetta gjafakort, en þau fást í fimm mismunandi verðflokkum, frá 3.990-16.990 krónur, og hvert kort veitir aðgang að nokkur hundruð gjöfum sem starfsmaður velur úr í gegnum sérhannað vefviðmót. Það fylgja líka jólakort með gjafakortunum.

Þessi gjafakort henta fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum en til að fá sérhannað vefviðmót höfum við miðað við að fólki kaupi að minnsta kosti 50 stykki, en það er sveigjanlegt,“ útskýrir Árni.

„Svo bjóðum við að sjálfsögðu líka upp á almennar jólagjafalausnir fyrir fyrirtæki sem vilja frekar velja gjafirnar sjálf,“ segir Árni. „Við bjóðum til dæmis upp á sérmerktan fatnað, húsbúnað, eldunarbúnað og fleira.“

Hér má sjá vefviðmótið sem tók á móti starfsmönnum Coca-Cola þegar þeir nýttu gjafakortið.

Fá mikið fyrir peninginn

„Kortin eru sérhönnuð fyrir fyrirtæki og þau ráða því hversu mikið þau skipta sér af hönnuninni. Þau geta látið okkur sjá um hana, sinnt henni alveg sjálf eða fengið auglýsingastofurnar sínar í þetta,“ segir Árni. „Þau geta flutt einhver skilaboð og aftan á kortinu eru svo leiðbeiningar og kóði sem er sleginn inn á vef og þá kemur upp sérhannað vefsvæði með viðmóti frá fyrirtækinu. Þar getur fólk valið sér eina gjöf sem er send heim að dyrum.

Það er allt mögulegt í boði. Það er hægt að fá hluti fyrir heimilið, útivistardót og alls kyns græjur, þannig að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Árni. „Það er líka alls kyns merkjavara í boði frá þekktum merkjum eins og Rosenthal, Wilson, Remington og fleirum, en þessi merki koma meira inn með dýrari kortunum.

Starfsmaðurinn sér ekki verðmæti kortsins, það er hvorki tala í kortinu né þegar hann velur gjöf, þannig að enginn veit hvað fyrirtækið er í raun og veru að gefa í peningum talið. Gjafakortin eru einfaldlega ávísun á verðmæti og vörurnar sem fólk fær að velja úr eru á heildsöluverði, þannig að sambærileg vara út úr búð gæti hæglega kostað tvöfalt eða jafnvel þrefalt meira en kortið gerði,“ útskýrir Árni. „Þannig að fólk fær mikið fyrir peninginn. Þeir sem kjósa geta líka látið andvirði gjafarinnar renna til góðs málefnis.“

Gjafakortin eru ávísun á verðmæti og vörurnar sem fólk getur valið úr eru á heildsöluverði, svo sambærileg vara gæti verið mikið dýrari út úr búð.

Gjöf sem nýtist

„Allt efnisval í gjöfum og pökkun fylgir mjög háum umhverfisverndarstöðlum þannig að þetta eru umhverfisvænar gjafir,“ segir Árni. „Kortin eru prentuð í Svíþjóð og send hingað en við siglum með þetta heim til að gera þetta sem umhverfisvænast, svo afhendingartíminn er á milli 2-3 vikur.

Þetta er náttúrulega sniðugt í COVID, það þarf ekki að fara og kaupa gjöf eða hitta neinn heldur kemur þetta bara heim að dyrum, sem er þægilegt og öruggt,“ segir Árni. „En stærsti kosturinn held ég að sé að fólk fær að velja eitthvað sem það langar í eða vantar þannig að gjöfin endar ekki bara inni í geymslu, heldur nýtist. Þetta er ekki síst kostur vegna þess að í flestum fyrirtækjum er breiður hópur og það er erfitt að finna gjöf sem nær bæði til allra aldurshópa og allra kynja.

Við viljum meina að þetta leysi margan hausverkinn fyrir mannauðsstjóra og deildir. Það er auðvelt að dreifa þessu og enginn er að fara að kvarta,“ segir Árni. „Það var líka almennt mikil ánægja meðal þeirra sem nýttu þetta fyrirkomulag í fyrra. Þetta var þægilegt, enginn kvartaði og upplifun starfsmanna var mjög jákvæð.“


Nánari upplýsingar um kortin má finna á http://margtsmatt.is/gjafakort/ og í síma 585-3500.