Mathús Garðabæjar var opnað í maí 2016 og þar er lögð áhersla á þægilegt andrúmsloft, góðan mat og þjónustu, sanngjarnt verð og góða aðstöðu fyrir börn.

„Það sem gefur okkur kannski sérstöðu er að við erum hér í úthverfi og bæjarfélagið kemur mikið saman hérna hjá okkur,“ segir Agnes Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Mathúss Garðabæjar. „Það er líka algengt að fyrirtæki komi með starfsfólk sitt á hlaðborðið til okkar.“

Mathús Garðabæjar leggur áherslu á þægilegt andrúmsloft.

„Já, við erum með fastan kúnnahóp Garðbæinga og við bjóðum upp á mjög gott aðgengi og mikið af bílastæðum, þannig að það er alltaf auðvelt að koma og heimsækja okkur,“ segir Garðar Aron Guðbrandsson, yfirkokkur Mathúss Garðabæjar. „Við bjóðum líka upp á mikil gæði í bæði mat og þjónustu, sérstaklega miðað við verð.“

Hefðbundið en öðruvísi hlaðborð

„Við byrjum að bjóða upp á jólakvöldverðarhlaðborð fimmtudaginn 14. nóvember og helgina þar á eftir förum við að bjóða upp á jólabröns,“ segir Garðar. „Mánudaginn eftir það byrjar svo jólahádegisverðarhlaðborð. Brönsinn verður í boði um helgar en hádegishlaðborðið verður í boði á virkum dögum.“

Jólahlaðborðið verður í boði frá 14. nóvember en á næstu dögum er ­einnig von á nýjum og glæsilegum matseðli. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Jólahádegismaturinn verður í raun léttari útgáfa af jólakvöldverðinum og hann var rosalega vinæll í fyrra,“ segir Agnes. „Þetta verður svo í boði fram að jólum, til 23. desember.

Hádegisverðarhlaðborðið verður í boði á virkum dögum frá 11.30-14.30 og kostar 4.400 krónur og brönsinn er í boði um helgar og kostar 4.900 krónur,“ segir Agnes. „Kvöldverðarhlaðborðið er svo á 8.500 krónur frá sunnudegi til miðvikudags en á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum er það á 9.900 krónur.“

Á kvöldin um helgar verða lifandi tónlistaratriði í gangi í salnum og þar spila nokkrar af skærustu stjörnum landsins. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Hlaðborðið verður með hefðbundnu sniði og það verða heitir og kaldir réttir í boði, en svo er forréttur og eftirréttur keyrður út á diskum,“ segir Garðar. „Ég myndi segja að réttirnir séu jólalegir, en ekki alveg jól út í gegn. Við bjóðum upp á rétti sem eru hátíðlegir, en þeir eru ekki allir hefðbundnir jólaréttir og það gætir til dæmis asískra áhrifa í sumum þeirra. Þannig að það verður mikill jólafílingur í þessu, en þetta verður ekki allt gamli jólamaturinn sem allir eru vanir. Auðvitað vill fólk halda í hefðirnar og það eru nokkrir hlutir á matseðlinum sem verða að vera þar, en það er líka gaman að breyta til og prófa eitthvað nýtt.“

Það er tilvalið að kíkja á Mathúsið í jólastússinu og fá sér eitthvað gott.

Fullkomið í jólastússinu

„Ekki má heldur gleyma að á kvöldin um helgar verða lifandi tónlistaratriði í gangi í salnum hjá okkur þar sem nokkrar af skærustu stjörnum landsins ætla að spila,“ segir Agnes. „Það verður því hægt að koma til okkar og sökkva sér alveg í jólastemningu. Það eru líka margar rosa flottar búðir hérna í kringum okkur og það myndast oft skemmtileg jólastemning þegar fólk er að versla og kemur svo við og fær sér eitthvað gott að borða á Mathúsinu.“

„Það eru auðvitað allir velkomnir til okkar og við bjóðum líka upp á sérstakt barnaherbergi sem hefur slegið í gegn hjá fjölskyldufólki,“ segir Garðar. „Þar geta börnin svolítið séð um sig sjálf í góðu yfirlæti.

Á næstu dögum er líka von á nýjum og glæsilegum matseðli sem verður í gangi fram að jólahlaðborðinu,“ segir Garðar. „Það þarf því ekki að bíða til 14. nóvember til að koma að prófa eitthvað nýtt og spennandi hjá okkur.“