Nola var fyrst opnuð sem vefverslun árið 2014 og sem almenn verslun árið 2016. Verslunin hefur fengið góðar viðtökur en árið 2018 stækkaði hún og er nú staðsett í rúmgóðu húsnæði við Ármúla 38.

„Við erum í rauninni leiðandi á markaðnum með hreinar náttúrulegar og virkar vörur. Þetta eru allt „cruelty free“ vörur hjá okkur og flestar eru vegan,“ segir Karin Kristjana Hindborg, eigandi Nola.

„Við leggjum mjög mikið upp úr góðri þjónustu. Við erum stöðugt að vinna í því að bæta síðuna svo við getum aukið þjónustuna og umbunað fastakúnnum betur. Það er til dæmis nýtt á síðunni að hægt er að sía út leitarniðurstöður og leita til dæmis bara að vörum á ákveðnu verðbili, með ákveðin innihaldsefni eða leita bara að vörum sem eru 80% náttúrulegar og svo framvegis.“

Karin segir að vegna COVID sé aðeins minna um að fólk komi í verslunina og netverslunin hafi margfaldast.

„Til að geta aukið þjónustuna á netinu erum við núna að vinna að því að viðskiptavinir geti skráð sinn aðgang að síðunni. Þetta verður komið inn á næstu dögum. Þá geta viðskiptavinir skráð sig inn á sínar síður og fylgst með sínum pöntunum. Þar verður líka hægt að sjá sína kaupsögu, finna tracking-númer og fleira. Þannig getum við líka aðstoðað viðskiptavini betur. Ef hann man til dæmis ekki hvaða lit af meiki hann notar þá getum við fundið það og mælt með vörum sem henta.“

Karin segir að þau hjá Nola láta alltaf einhverjar prufur fylgja með kaupunum og með innskráningu geti þau umbunað fastakúnna betur, til dæmis með því að gefa þeim stærri prufur, fellt niður sendingarkostnað og fleira.

Verslunin er í rúmgóðu húsnæði í Ármúla en allar vörur má kaupa á vefsíðunni. MYNDir/Íris dögg einarsdóttir

Allar vörur sérvaldar

„Við erum líka að fara að bæta okkur í heimkeyrslu. Við ætlum að byrja að keyra út einhverjar pantanir á höfuðborgarsvæðinu á eigin bíl til að stytta biðtíma. Heimsendingar hafa aukist svo mikið og fólk vill fá vöruna fljótt. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og bregðast hratt við þar sem salan hjá okkur hefur aukist um 80% frá síðasta ári.“

Nola selur fjölbreyttar snyrtivörur fyrir húð og hár, förðunarvörur og fylgihluti. Verslunin flytur allar vörur inn sjálf beint frá birgjum.

„Við leggjum áherslu á að hafa lága álagningu og bjóðum upp á verð sem er sambærilegt verði erlendis. Við erum með 22 vörumerki sem ég sérvel inn í búðina. Ég er mjög dugleg að fylgjast með nýjungum á markaðnum og því sem skarar fram úr á sínu sviði,“ útskýrir Karin.

„Nýjasta merkið sem fæst hjá okkur er Luna Bronze. Náttúrulegar og lífrænar brúnkuvörur sem eru án þessarar týpísku lyktar sem er oft af brúnkuvörum. Svo erum við með ný bætiefni frá Tonik, sem eru gerð af lyfjafræðingi og hafa góða virkni. Það er til dæmis hrein hempolía í hylkjum og hreint eplaedik í hylkjum svo ekki þurfi að taka þetta inn í skotum en mörgum finnst þetta vont á bragðið. Þetta eru vítamín sem eru góð fyrir húðina. Við einblínum á það.“

Allt verður á 20% afslætti

Í tilefni Singles’ day verða allar vörur á Nola.is á 20% afslætti.

„Við reynum alltaf að hafa alla álagningu í algjöru lágmarki, þess vegna erum við mjög sjaldan með afslætti, en þessi dagur er rosalega stór hjá okkur. Við ætlum að vera með 20% afslátt af öllum vörum. Okkar viðskiptahópur veit að við erum ekki oft með afslátt og nýtir sér hann yfirleitt vel þegar við bjóðum upp á hann,“ segir Karin.

„Það er þægilegt að geta bara verið heima uppi í sófa að kaupa jólagjafir og dekra við sig. Það sem gerðist líka í þessu COVID-ástandi þegar allir eru heima í samkomubanni og sóttkví er að fólk fór í meira mæli að hugsa um sjálft sig. Þá fórum við að sjá aukna sölu í alls kyns möskum og heimadekri. Enginn er að fara til útlanda núna og varla út að borða. Fólk er þess vegna að leyfa sér það núna að dekra sig. Það er alveg frábært og nauðsynlegt fyrir alla af og til.“