Ræstingafyrirtækið Sólar hefur verið starfrækt í tæp 20 ár. „Við, eins og aðrir, leggjum áherslu á gæði í okkar þjónustu,“ segir Ingunn Margrét Ágústsdóttir, deildarstjóri þjónustudeildar, en meðal þeirra verkefna sem hafa verið áberandi í þeirra starfsemi eru sjúkrahúsþrif.

„Við erum framarlega í þrifum á sjúkrahúsum og erum þar í fremstu víglínu eins og sakir standa. Við erum búin að vera að þjónusta spítala síðan 2002 og þessi þekking kemur sér mjög vel á þessum tímum núna,“ skýrir Ingunn Margrét frá.

Ástandið undanfarnar vikur hefur sett svip sinn á starfsemi fyrirtækisins. „Það eru mörg fyrirtæki að biðja um sótthreinsiþrif, annað hvort hefur verið einstaklingur smitaður af COVID-19 á vinnustað eða einfaldlega fyrirbyggjandi, við höfum verið að sinna því í miklum mæli undanfarið.“

Traust starfsfólks brýnt

Ingunn Margrét segir fyrirtækið leggja mikla áherslu á vellíðan og traust starfsfólks. „Við leggjum mikla áherslu á að starfsfólkinu okkar líði vel í vinnu og að það treysti fyrirtækinu. Við gerum það með ákveðnum leiðum, kannski fyrst og fremst með því að tryggja að það geti treyst fyrirtækinu á þann hátt að við greiðum samkvæmt lögum og reglum kjarasamninga.“

Margt af starfsfólkinu er af erlendu bergi brotið og hefur fyrirtækið meðal annars gripið til þess ráðs að gera starfsfólki kleift að eiga í vinnutengdum samskiptum á sínu móðurmáli. „Við erum með millistjórnendur sem eru pólskir og tala móðurmál starfsfólksins okkar og geta átt í góðum samskiptum við starfsfólkið okkar. Þetta er í raun grunnurinn að því að við getum boðið upp á góða þjónustu.“

Áhrifanna af því hvernig komið er til móts við starfsfólk gætir víða, og bendir Ingunn þannig einnig á mikilvægi þess að starfsfólk fái hreinlega nægan tíma til þess að sinna verkinu sem skili sér svo í vandaðri þrifum og þjónustu. „Til þess að tryggja gæði leggjum við líka mikla áherslu á að tryggja að starfsfólk hafi nægan tíma til að sinna þeim verkum sem það á að sinna.“

Sólar hafa sinnt spítalaþrifum frá árinu 2002.

Áhersla frá upphafi

Ingunn Margrét segir að áhersla fyrirtækisins á starfsánægju hafi alla tíð verið í forgrunni. „Í raun og veru var Sólar stofnað á þeim grunni árið 2002, að halda ræstingafólki ánægðu í vinnu, enda væri það mikil áskorun í ræst-ingafyrirtæki. Það voru þau gildi sem fyrirtækið hafði – og hefur.“

Farnar hafa verið ýmsar leiðir til þess að tryggja góð samskipti og er markmiðið með þessari nálgun skýrt. „Við teljum að með því að gera ákveðna hluti þannig að starfsfólk geti treyst vinnuveit-andanum sínum – að það viti að það er verið að gera allt rétt, þau eru að fá rétt borgað, það er ekki verið að fara á svig við kjarasamninga eins og oft er gert – að þetta sé grundvöllurinn fyrir því að fólk geti talist ánægt í starfi.“

Ingunn Margrét ráðleggur þeim sem nýta sér þjónustu ræstingafyrirtækja að skoða hvernig fyrirtækið standi að þessum málum. „Við hvetjum þau sem nýta sér ræstingaþjónustu að kanna hvort þeirra þjónustuaðilar virði lög og reglur kjarasamninga.“