„BYR var stofnað árið 2018 en saga Starfsendurhæfingar Norðurlands, SN, nær þó enn lengra aftur í tímann, eða til ársins 2003. Þá fór SN af stað sem tilraunaverkefni á Húsavík og sinnti þar heildstæðri og þverfaglegri starfsendurhæfingu,“ upplýsir Jakobína Elva Káradóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Norðurlands á Akureyri.

Aðrar starfsendurhæfingarstöðvar fylgdu í kjölfarið og nú eru sjö starfsendurhæfingastöðvar staðsettar víðs vegar um landið og byggja allar á hugmyndafræði SN. Það eru Starfsendurhæfing Norðurlands, StarfA – Starfsendurhæfing Austurlands, Birta-Starfsendurhæfing Suðurlands, Samvinna – Starfsendurhæfing Suðurnesja, Stendur – Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar, Starfsendurhæfing Vesturlands og Starfsendurhæfing Vestfjarða.

„Hlutverk Starfsendurhæfingar Norðurlands er að veita einstaklingum starfsendurhæfingu sem hafa verið utan atvinnuþátttöku í einhvern tíma, til að mynda vegna veikinda, slysa eða félagslegra aðstæðna og eru að vinna að endurkomu út á vinnumarkaðinn, eða stefna á nám,“ útskýrir Jakobína Elva.

Hjá SN er þátttakendum veitt ráðgjöf og stuðningur á heildrænan og markvissan hátt, með það að markmiði að endurhæfingin verði sem árangursríkust.

„Við leggjum áherslu á þætti sem hver þátttakandi metur í samráði við ráðgjafa SN. Hugmyndin er sú að hver þátttakandi komi með virkum hætti að sinni endurhæfingu strax í byrjun og beri þar með frá upphafi ábyrgð á sinni endurhæfingu,“ greinir Jakobína Elva frá.

Gæfuspor aftur tekin í haust

Starfsendurhæfing Norðurlands býður upp á mismunandi endurhæfingarleiðir, ýmist langtíma endurhæfingu eða styttri leiðir. Boðið er upp á fræðslu og fyrirlestra, hópefli og sjálfstyrkingu, líkamsþjálfun, sálfræðimeðferð, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, markþjálfun, listasmiðju og margt fleira.

„SN hefur á að skipa fjölbreyttu teymi starfsmanna sem hefur víðtæka reynslu á sviði starfsendurhæfingar og er lykillinn að góðri vinnu og árangri SN í gegnum tíðina,“ upplýsir Jakobína Elva, en þess má geta að langflestir þátttakendur SN koma frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði eða Vinnumálastofnun.

„Í haust mun Starfsendurhæfing Norðurlands bjóða upp á endurhæfingarleið sem heitir Gæfusporin og er ætluð konum sem lent hafa í ofbeldi. Gæfusporin hófust sem þróunarverkefni fyrir tíu árum undir hatti SN og í samvinnu við Sigrúnu Sigurðardóttur, doktor við Háskólann á Akureyri. Gæfusporin eru endurhæfing þar sem unnið er markvisst með áföll vegna ofbeldis, bæði á einstaklingsgrunni og í hópi. Konur sem hafa tekið þátt í Gæfusporunum hafa fundið fyrir betri líðan, minni kvíða og sterkari sjálfsmynd, og þær eiga auðveldara með að takast á við daglegt líf.“

Góður árangur til vinnu og náms

Jakobína Elva segir góðan árangur hafa náðst hjá þátttakendum sem farið hafa í starfsendurhæfingu hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands, hvort sem það hefur verið að komast í vinnu eða nám á ný.

„Snemmbært inngrip er forsenda góðs árangurs í endurhæfingu. Því er mikilvægt að bregðast fljótt við þegar einstaklingar detta út af vinnumarkaði eða úr námi. Aðilar sem að velferðarmálum koma, sem og aðilar vinnumarkaðsins, verða að eiga gott samstarf og hafa það að markmiði að leita lausna og mæta þörfum einstaklinga þannig að virkni og velferð þeirra aukist.“

Allar nánari upplýsingar á stn.is