The Grump: In search of an Escort er bráðskemmtileg gamanmynd sem fjallar um nöldursegg sem kallaður er The Grump.
Líf Grumps er í föstum skorðum og líður áfram af gömlum vana. Hann sinnir daglegum störfum á bóndabæ sínum í Finnlandi en minningar hans um eldri bróður sinn Tarmo taka að skjóta upp kollinum og angra hann.
Tarmo flutti til Þýskalands fyrir áratugum og bræðurnir hafa ekki haldið sambandi, jafnvel þótt þeir hafi verið bestu vinir sem börn.
Þegar Grump klessir Escort-bílinn sinn svo hann eyðileggst og endar á haugunum kemur ekki til greina að kaupa nokkra aðra tegund af bíl. Nálægasta Escort-bíl af árgerðinni 1972 er að finna í Þýskalandi. Grump ferðast því þangað með ferðatösku fulla af seðlum til að freista þess að kaupa bílinn. Ferðin fer aftur á móti öðruvísi en Grump lagði upp með. Hann er rændur og vaknar á sjúkrahúsi með Tarmo sitjandi við rúmstokkinn. Þeir enda á að leita að Escort-bíl saman og kynnast hvor öðrum upp á nýtt í leiðinni.
The Grump: In search of an Escort er saga sem fjallar um að græða áratugagömul sár, saga um sátt og fyrirgefningu.
Fróðleikur
Kvikmyndin er byggð á skáldsögu eftir rithöfundinn Tuomas Kyrö. Hann skrifaði nokkrar sögur um sömu persónuna sem upphaflega voru settar upp sem útvarpsleikrit. Útvarpsleikritin nutu mikilla vinsælda og í framhaldi af þeim skrifaði Tuomas Kyrö skáldsögur sem einnig urðu vinsælar.
Leikstjórinn Mika Kaurismäki hefur sagt að myndin endurspegli að einhverju leyti persónulega reynslu hans af sambandi sínu við bróður sinn. Hann segir að það að eiga yngri bróður sem er örlítið skapstyggur hafi hjálpað honum að tengja við aðstæður bræðranna í myndinni. Mika Kaurismäki er stóri bróðir Aki Kaurismäki en þeir saman hafa komið að fimmtung allra útgefinna kvikmynda í Finnlandi síðan 1980.
Frumsýnd 15. mars 2023
Leikstjóri: Mika Kaurismäki
Handritshöfundur: Daniela Hakulinen
Aðalhlutverk: Rosalie Thomass, Kari Väänänen, Ville Tiihonen Finnska með íslenskum texta.
Bönnuð innan 6 ára.
Bíó Paradís
