Það er ekki nógu gott að vera rekinn í hlutina. Það er miklu betra að taka skrefið og frumkvæðið sjálf, áður en pressa um samfélagsábyrgð myndast frá viðskiptavinum, birgjum, lögum eða reglum. Því eru það ekki einungis opinberar stofnanir sem eiga að draga vagninn, fyrirtæki í einkaeigu eiga ekki síður að henda sér á hann strax.“

Þetta segir Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Veritas er móðurfélag fimm fyrirtækja á heilbrigðissviði: Vistor sem flytur inn lyf, Artasan sem sérhæfir sig í lausasölulyfjum og heilsuvörum, Medor sem flytur inn rannsóknarvörur og lækningatæki fyrir heilbrigðisstofnanir, innflutningsfyrirtækið Distica sem rekur þrjú vöruhús og sér um dreifingu fyrir systurfélög sín og aðra, og Stoð sem er nýjasta viðbótin og flytur inn og framleiðir stoðtæki, hjálpartæki og íþróttavörur.

„Við höfum átt því láni að fagna að vaxa töluvert á undanförnum árum,“ segir Hrund. „Veritas er með beinum og óbeinum hætti hluti af heilbrigðiskerfinu og við skynjum ábyrgðina vel sem í því er fólgin. Vegferð okkar í samfélagsmálum er þó ekki sprottin af ytri pressu heldur einlægum áhuga stjórnar, stjórnenda og eigenda sem vilja gera vel í þessum málum, og ekki síður áhuga starfsfólksins. Mikið af verkefnum okkar um samfélagsábyrgð eru sprottin úr grasrót starfsmanna sem sjá tækifæri til að gera betur og við stjórnendur höfum stutt það af fullum krafti.“

Í hverjum október, eða Flokkóber, eins og hann kallast í Veritas, mætir Ruslana á svæðið og kennir starfsfólkinu að flokka rusl. MYND/AÐSEND

Ruslana og Flokkóber

Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir var nýútskrifuð úr MPM-námi við Háskólann í Reykjavík 2018 þegar hún tók ábyrgð á að stýra umhverfishópi Veritas. Helsta markmið hópsins var að setja nýja umhverfisstefnu félagsins.

„Námið opnaði huga minn um sjálfbærni og umhverfismál og við tókum verkefnið strax mjög alvarlega. Áhugi innanhúss var mikill og fulltrúi frá hverju fyrirtæki innan samstæðunnar kom að úrlausnum mála enda ólíkar áherslur hjá hverju fyrirtæki um sig. Nauðsynlegt var að horfa í alla ferla og finna tækifæri til umbóta tengt umhverfismálum. Til dæmis þurfti að fara í alla ferla flokkunar sorps til að finna út hvaða lausn hvert og eitt fyrirtæki þurfti. Verkefnið var því umfangsmikið en tókst gríðarlega vel og hefur endurvinnsluhlutfall okkar aukist um fimm prósent á einu ári (úr 55 í 60%), þrátt fyrir aukin umsvif í starfseminni,“ upplýsir Dagmar.

Hjá Veritas kallast októbermánuður Flokkóber og er helgaður flokkun.

„Umhverfishópurinn stóð fyrir því að við erum orðin óhemju nákvæm í flokkun á rusli og þar trónir Flokkóber og persónan Ruslana hæst, þótt ekki sé hún á launaskrá,“ segir Hrund og hlær við. „Ruslana kennir okkur hinum hvað á að flokka og sökum léttleika og skemmtilegheita hennar höfum við náð góðum árangri í flokkun sem hefur líka smitað okkar hegðun inni á eigin heimili. Með hennar hjálp höfum við fundið leiðir til að flokka úrgangsefni og sem innflutningsaðili og stærsti dreifingaraðili lyfja á landinu þurfum við að farga ýmsu sem vandasamt er, en allt hefur það teygt sig áfram inn í starfsemina og ýtt okkur áfram í að gera enn betur.“

Tilbúin að mæta kröfunum

Veritas gerðist aðili að Festu í fyrra.

„Festa er góður félagsskapur og frábært framtak. Það er ómetanlegt að hafa samastað þar sem hægt er að hlusta á aðra sem komnir eru lengra í samfélagsábyrgð og deila með sér ráðum og dáð. Við höfum lært heilmikið af því að taka þar þátt og fá fræðslu til að taka réttu skrefin,“ segir Hrund.

Í mars kemur út fyrsta sjálfbærniskýrsla Veritas, unnin í samstarfi við Evu Magnúsdóttur hjá Podium.

„Það var ekki nauðsynlegt að fara út í vinnu við skýrsluna en okkur langaði að vera á undan kröfunni sem er ekki há í dag en verður það í náinni framtíð og þá viljum við vera tilbúin,“ segir Dagmar.

Hrund tekur undir með Dagmar.

„Okkur langaði að taka saman á heildstæðan hátt og á einum stað öll verkefni sem við höfum unnið að í átt að sjálfbærni, árangur okkar og setja á það mælistiku, hvar við stöndum okkur vel og hvað má bæta, setja okkur markmið og gera það árvisst héðan í frá. Það ýtir við okkur að setja skýr markmið og horfa til framtíðar.“

Kolefnisspor Veritas var fyrst mælt árið 2019 og aftur 2020.

„Niðurstöður komu nokkuð á óvart, hvar kolefnissporin mynduðust árið 2019. Þar ber helst að nefna tvo meginþætti; annars vegar heilmikinn bílaflota í okkar rekstri og þar getum við greinilega gert betur. Hins vegar hafa ferðalög starfsfólks til útlanda skilið eftir sig stórt kolefnisspor, enda eigum við í samstarfi við 350 erlenda birgja. Ég hlakka því til að sjá niðurstöðuna fyrir 2020 þegar ferðalög voru í lágmarki vegna heimsfaraldursins, en það er eitt af því jákvæða sem úr honum kemur og einhvern veginn tókst okkur að fara í gegnum það ár án mikilla ferðalaga. Við höfum lært að það er vel hægt að leysa hlutina öðruvísi en með því að ferðast í þessum mikla mæli sem við gerðum áður,“ segir Hrund og ljóst er að Veritas er að gera vel í umhverfismálum, sem og efnahags-, mannauðs- og félagsmálum.

„Við bíðum spennt eftir að sjálfbærniskýrslan komi út. Við vitum að við erum komin langt á veg og að það er ótal margt sem maður er blindur á þegar maður vinnur í virkilega vel reknu fyrirtæki þar sem hugsað er vel um starfsfólkið. Það sem við uppfyllum svo ekki nú þegar verður verkefni okkar næstu ár og við höfum þá í höndunum vegvísi sem sýnir hvert við ætlum að fara,“ segir Dagmar.

Þær Hrund og Dagmar eru sammála um að fyrirtæki eigi að stökkva strax á sjálfbærnivagninn í stað þess að bíða boðanna frá öðrum. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Jafnvægi vinnu og einkalífs

Hjá Veritas starfa 250 manns. Rætur fyrirtækisins má rekja til ársins 1956 sem hét þá Pharmaco.

„Jafnréttismál hafa alltaf verið mér hugleikin en ég kom að mjög góðu búi hér því þau hafa verið á borðinu hjá fyrirtækinu í langan tíma og þurfti ég ekki að gera mikið í þeim málum annað en að fylgja þeim eftir og þróa enn betur,“ segir Hrund sem tók við starfi forstjóra árið 2013.

„Síðan þá hefur orðið mikil breyting á samfélags- og sjálfbærnimálum. Umhverfismál voru til dæmis ekki uppi á yfirborðinu þá en eru nú orðin ofan á. Þó ber að hafa í huga að þessi málaflokkur snýst ekki bara um umhverfismál heldur líka jafnréttismál og góða stjórnarhætti. Ýmislegt hefur áunnist í jafnréttismálum en þó er enn langt í land. Við Íslendingar erum vertíðarfólk sem einhendum okkur í það sem er efst á baugi og þá er hinu ýtt til hliðar, en þar er verk að vinna líka og sem þarf að huga að í samhengi og jafnvægi,“ segir Hrund.

Sem forstjóri leggur hún mikið upp úr góðu jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs.

„Við hvetjum líka okkar fólk til endurmenntunar en stór hluti starfsfólks Veritas er langskólagengið, með meistara- og doktorsgráður. Þá vorum við að samþykkja nýja jafnréttisstefnu í samræmi við ný lög þar sem tillit er tekið til þess að kynin eru ekki bara tvö, og það er málefni sem fyrirtæki þurfa að taka mið af því tímarnir breytast. Við styðjum líka starfsfólk okkar til hreyfingar og heilbrigðis, og við sinnum góðgerðarmálum sem standa okkur sem heilbrigðisfyrirtæki nærri.“

Jörðin þarf að vera í lagi

Distica, eitt af dótturfyrirtækjum Veritas, hefur verið áberandi undanfarin misseri.

„Samfélagsábyrgð okkar varð augljós í upphafi Covid-19-faraldursins, áhættan á lyfjaskorti varð allt í einu ekki bara möguleg heldur mjög raunveruleg. Ef brestir hefðu komið í virðiskeðju okkar og dreifingu lyfja til landins, hefði það ollið mikilli áhættu fyrir velferð landsmanna. Tilgangur Veritas er mikill og skýr en ekki endilega uppi á borði alla daga, nema þegar hætta steðjar að, og við finnum til dæmis glöggt aukna vitund þjóðarinnar um mikilvægi Distica sem dreifir nú bóluefnum gegn veirunni ásamt öðrum lyfjum og heilsuvörum,“ segir Dagmar.

Samfélagsábyrgð Veritas hafi orðið þeim enn ljósari í heimsfaraldrinum og mikilvægi þess að fyrirtækið eigi í nánu og traustu samstarfi við ábyrga birgja á öllum sviðum.

„Við erum stór og mikilvægur hlekkur í virðiskeðju Íslendinga og setjum því óbeinar kröfur á að birgjar okkar versli við aðila sem hafa sjálfbærni í huga. Við þurfum jafnframt að huga að umbúðum vara sem við verslum inn, að þær séu umhverfisvænar og í sjálfbærum flokki. Þá höfum við minnkað pappírsnotkun umtalsvert og hefur útprentaður pappír minnkað um tíu prósent á milli ára, sem er mikið gæðamál í svo stóru fyrirtæki en hjálpað okkur við að fara í umhverfisvænni verkferla,“ segir Dagmar.

Upp úr stendur að Covid 19 skilur eftir sig verðmætan lærdóm fyrir fyrirtæki eins og Veritas.

„Ef maður reynir að taka Pollýönnu á hvimleitt Covid-árið felst í því mikill lærdómur hversu miklu er hægt að breyta á örskömmum tímaef maður bara tekur ákvörðun um það. Í tilviki Covid 19 vorum við neydd til að takast á við ótrúlegar breytingar með engum fyrirvara, fórum þá í að leysa málin og sáum að það er vel hægt að láta hlutina ganga á ótrúlega skömmum tíma. Í umhverfismálum hefur ríkt hálfgerð heimsendaspá og maður upplifað að það sé orðið of seint að snúa hlutunum við, en það er alls ekki of seint. Við getum tekið u-beygju á punktinum en allt er það spurning um ákvörðun og vilja. Ef einhver hefði sagt fyrir ári að 2020 færi eins og fór, hefði enginn trúað því. Það gerðist nú samt og öll fórum við í gegnum það. Við hjá Veritas erum staðráðin í að taka það góða úr ástandi heimsfaraldursins og nýta okkur það til framdráttar í framtíðinni,“ segir Hrund.

Dagmar hefur lokaorðið.

„Við lifum öll saman á þessari jörð og hún þarf að vera í lagi. Því þurfa allir þættir samfélagsábyrgðar að vera í lagi, eins og til dæmis mannlegi þátturinn, því ef einn þáttur er ekki í lagi missir hún marks. Okkur þarf öllum að líða vel í vinnunni og fyrirtækin þurfa að vera vel rekin svo við getum áfram unnið og framfleytt okkur. Því þurfum við að taka höndum saman í átt að meiri sjálfbærni og samfélagsábyrgð, til að eiga jörðina áfram sem samastað.“

Veritas er í Hörgatúni 2 í Garðabæ. Sími 535 7100. Sjá veritas.is

Þessi umfjöllun birtist fyrst í sérblaðinu Samfélagsábyrgð fyrirtækja, föstudaginn 25. febrúar 2021.