„Það heitasta í garðtískunni í sumar eru sólpallar og heitir pottar. Það er greinilegt að fólk er að setja Spánarpeninginn sinn í framkvæmdir í garðinum og vill fjárfesta í íslenskri sumarsól þegar það kemst ekki til sólarlanda. Það er auðvitað vel til fundið og góð fjárfesting því garðurinn stendur áfram þegar heimsfaraldrinum linnir. Íslendingar eru í miklum framkvæmdahug og vilja skapa sér æðislegan sælureit í garðinum til að njóta íslenska sumarsins í botn,“ segir Helgi Bersir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Garðaþjónustu Kópavogs.

Garðaþjónusta Kópavogs sinnir hvers kyns smíðavinnu í garðinum, hvort sem það eru sólpallar, tréverk í kringum heita potta, smíði gufubaðs eða annað.

Hann hefur í nógu að snúast þessa dagana með tuttugu manna teymi af þrautreyndu iðnaðarfólki.

„Við erum með framúrskarandi mannskap af traustum fagmönnum sem samanstendur af smiðum, múrurum, pípulagningarmönnum, vélamönnum, og vitaskuld stór og góð vinnutæki sem henta vel í öll verk sem vinna þarf í garðinum,“ greinir Helgi frá.

„Okkar aðalsmerki er að taka stór verkefni og klára þau á vandaðan hátt á stuttum tíma. Við erum snarir í snúningum og vanar hendur vinna vel, auk þess sem tíu ára ábyrgð fylgir öllu sem við gerum,“ segir Helgi.

Hjá Garðaþjónustu Kópavogs starfa úrvals iðnaðarmenn á öllum sviðum og segir Helgi fyrirtækið kappkosta að vinna verkin hratt og vel. Hér má sjá framkvæmdir við garð í mótun; pallasmíði, hellulögn og jarðvegsvinnu.

Taka upp heilu garðana

Garðaþjónusta Kópavogs var stofnuð vorið 2011 og fagnar nú tíu ára afmæli. Hún tekur að sér öll verk í garðinum frá A til Ö, allt frá jarðvegsskiptum yfir í hvers kyns jarðvinnu og smíðavinnu.

„Fyrsta árið vorum við bara að klippa tré, slá garðbletti og reyta arfa, en strax annað árið fórum við að taka að okkur lítil verkefni sem tengjast hellulögnum og smíðavinnu, og smám saman urðu verkefnin stærri og meiri,“ upplýsir Helgi.

Stundum þarf að taka upp heilu garðana og skipta öllu út.

„Þá mætum við með stór tæki og keðjusagir, fellum tré og rústum öllu í burtu, og byrjum svo upp á nýtt með nýjum jarðvegi og öllu því sem óskað er eftir.“

Garðaþjónusta Kópavogs hefur minna sinnt hefðbundinni garðvinnu undanfarin ár en hyggst taka upp þráðinn næsta sumar og bjóða stóraukna þjónustu í garðumhirðu, svo sem garðslátt, hreinsun beða og gróðursetningu blóma.

„Í dag erum við langmest í stórum garðverkum fyrir einkaaðila, svo sem lóðafrágangi og jarð- og lóðavinnu. Við erum líka feiknasterkir í hellulögn, steyptum bílaplönum og pallasmíði, sem og steyptum og hlöðnum veggjum,“ upplýsir Helgi.

Hér má sá glæsilegar tröppur og stétt lagða af Garðaþjónustu Kópavogs.

Gera stór og smá garðverk

Þótt Garðaþjónusta Kópavogs beri nafn sveitarfélagsins Kópavogs tekur hún að sér stór og smá verkefni á öllu höfuðborgarsvæðinu og víðar, ef með þarf.

„Í heimsfaraldrinum hefur orðið algjör sprenging í pallasmíði og landsmenn eru í miklum framkvæmdahug. Heitir pottar seljast eins og heitar lummur og þegar fólk hefur keypt draumapottinn sinn mætum við á staðinn og komum öllu í kring, setjum frárennsli fyrir pottinn og tengjum hann við rennandi vatn ásamt því að smíða í kringum hann og allt tilheyrandi. Víð smíðum líka fleira en sólpalla og utan um heita potta; allt frá skjólveggjum upp í gufuböð, sem verða sívinsælli í sælureiti íslenskra garða,“ segir Helgi.

Steypt bílaplön eru algeng verkefni hjá Garðaþjónustu Kópavogs og í vor og fyrrasumar varð sprenging í uppsetningu heitra potta. Öll vinna við heita potta er í höndum Garðaþjónustunnar, bæði sem viðkemur pípulögnum og smíðavinnu.

Í Garðaþjónustunni vinnur hann með húseigendum og að hugmyndum þeirra um framkvæmdir og heildarútlit garða.

„Við erum hins vegar ekkert í því að hanna eða teikna upp heildarútlit garða, en við getum komið með góðar hugmyndir og vinnum að sjálfsögðu eftir teikningum garðhönnuða.“

Garðaþjónusta Kópavogs vinnur þannig oft að garðútfærslum við nýbyggingar.

„Þar steypum við bílaplön, plöntum trjám, þökuleggjum, gerum blómabeð, matjurtagarða og hvaðeina sem þarf,“ lýsir Helgi.

Aðalsmerki Garðaþjónustu Kópavogs eru fumlaus og vönduð vinnubrögð, hvort sem það er vinna við tréverk, hleðslur eða steypu.

Hækkar aldrei tilboðin

Helgi er sæll í sínu starfi.

„Útivinnan er yndisleg og gaman að eiga dagana úti undir berum himni og í sumarblíðu. Ég fann strax fyrsta sumarið í garðvinnunni að ég var á réttri hillu. Mér fannst ég hafa himin höndum tekið að geta unnið úti í sumarsól, hálfur ofan í beðinu og umlukinn ljúfri angan af nýslegnu grasi,“ rifjar Helgi upp, sællar minningar, en nú er hann meira við verkefnastjórnvölinn.

Garðaþjónusta Kópavogs bæði steypir og hleður hvers kyns veggi.

„Verðlaunin í starfinu eru að sjá fegurðina spretta upp úr engu, sérstaklega þegar garðar eru í niðurníðslu og maður sópar öllu í burtu til að skapa nýjan og fegurri garð í staðinn. Launin eru líka ánægðir viðskiptavinir. Við búum að mjög góðu orðspori með vinnu okkar og þjónustu og fáum mikið af verkefnum í gegnum orðspor og velvilja. Fólk er ánægt með vinnubrögð okkar og ég hef alltaf gætt þess að hækka ekki umsamið verð þótt vinnan verði meiri. Ég hef alveg lent í því að gera slæm tilboð en set alltaf heiðarleikann í fyrsta sæti. Ég veit sem er að þótt ég tapi á verkefninu núna mun ég græða á því til lengdar.“

Til að fá Garðaþjónustu Kópavogs í verkin er hægt að hringja í síma 859 7090, senda tölvupóst á netfangið gtk@gtk.is og senda skilaboð á Facebook, undir nafni Garðaþjónustu Kópavogs.

Falleg hellulögn við einbýlishús. Vandað handverk Garðaþjónustu Kópavogs leynir sér ekki.