Opnuð var tilraunaaðstaða við Wageningen-háskólann í Bleiswijk í Hollandi þar sem 150 fermetra fiskeldiskerfi var komið fyrir í gróðurhúsum skólans. Aðstaðan er byggð upp sem hluti af þróunarverkefninu GeoFood sem er nýsköpunarverkefni styrkt af Geothermica, samstarfsneti um nýtingu jarðvarma. Meðal þeirra íslensku aðila sem koma að verkefninu eru Háskóli Íslands og fyrirtækið Samrækt. „Helstu markmiðin með verkefninu eru að auka nýtingu jarðvarma með áherslu á hringrásarkerfi í matvælaframleiðslu,“ segir Katrín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Samræktar. „Þannig er ekki einungis verið að horfa til afgangsorkunnar sem nýta má úr einu kerfi í annað heldur einnig til næringarefna og vatns sem nýtist á milli kerfa.“
Ólík þekking nýtist
Hugmyndin að GeoFood-samstarfsverkefninu varð til á grunni netsamstarfsins, The EU Aquaponics Hub, sem styrkt var af COST-áætlun Evrópusambandsins á árunum 2014-2018, bætir Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, við. „Þar komu saman aðilar sem voru að þróa hringrásarkerfi þar sem affallsvatn frá fiskeldi var notað sem næring fyrir plöntur. Nær öll lönd í Evrópu komu að því verkefni og byggðust upp sterk tengsl á milli aðila, auk þess sem aðilar utan Evrópu komu að verkefninu, frá Suður-Afríku, Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og Mjanmar.“

Fjölbreyttir samstarfsaðilar
Þegar COST-verkefninu var að ljúka fór hópurinn að huga að áframhaldandi samstarfsverkefnum og GeoFood-verkefnið er eitt þeirra sem urðu að veruleika, segir Katrín. „Verkefnið er leitt af Samrækt ehf. og samstarfsaðilar eru fyrirtæki, rannsóknaraðilar og opinberir aðilar frá Íslandi, Hollandi og Slóveníu. Holland kemur inn með þekkingu í hringrásarkerfum fyrir fiskeldi og gróðurhúsaræktun og Slóvenía með þekkingu á ferðaþjónustu og upplifun ferðamanna. Þá er í báðum þessum löndum tækifæri og áhugi til aukinnar nýtingar á jarðvarma.“
Affallsvatnið nýtt betur
Byggðar voru tilraunaeiningar hjá Wageningen-háskólanum í Hollandi og hjá Samrækt í Reykjavík. „Fiskur var ræktaður í hringrásarkerfi og affallsvatnið notað til ræktunar á salati og sprettum. Fylgst var með orkunotkun og samanburðartilraunir gerðar. Farið var í heimsókn til fyrirtækja sem tengjast ferðaþjónustu og móttöku gesta í öllum löndum og samanburður gerður á því hversu langt fyrirtækin ganga í að veita gestum sínum upplýsingar, fræðslu og upplifun,“ segir Ragnheiður.

Árangursríkt samstarf
Þær eru sammála um að samstarf þessara þriggja landa hafi gengið afskaplega vel og verkefnið hafi verið mjög gefandi. „Frá Hollandi komu tvö fyrirtæki að borðinu, annars vegar fyrirtækið Landing Aquaculture sem þróar hringrásarkerfi fyrir fiskeldi og Ammerlaan, sem er stórt gróðurhúsafyrirtæki sem nýtir jarðvarma til upphitunar og selur einnig jarðvarma til annarra í nágrenninu. Leiðandi aðili frá Hollandi var Wageningenháskólinn en hann er fremstur í flokki á sviði garðyrkju í Evrópu og jafnvel á heimsvísu. Frá Slóveníu komu annars vegar sveitarfélagið Brezice sem býr yfir jarðhitaauðlindum og háskólinn í Maribor sem kom með þekkingu á ferðaþjónustu með áherslu á fræðslu og upplifun.“ Það var svo Samrækt ehf. sem leiddi verkefnið og stóð að íslenska hlutanum ásamt Háskóla Íslands. „Ísland kemur að verkefninu með þekkingu og reynslu á sviði jarðhita og nýtingu til matvælaframleiðslu, svo sem í garðyrkju og fiskeldi.“
Vonir bundnar við framhaldið
Gerðir hafa verið samstarfssamningar á milli Landbúnaðarháskóla Íslands og annars vegar Háskólans í Maribor og hins vegar Wageningen-háskólans. „Á grunni verkefnisins hefur einnig verið farið í samstarf við Sigurð Pétursson sem byggt hefur upp laxeldi og unnið í útflutningi á fiski. Þannig varð til Fræðslumiðstöðin Lax-Inn sem var opnuð formlega á Mýrargötunni í Reykjavík fyrr í þessum mánuði. Þangað eru allir velkomnir. Vonir standa til að niðurstöður GeoFood-verkefnisins muni nýtast fiskeldisfyrirtækjum til framtíðar og verða til þess að nýta enn frekar jarðhita til matvælaframleiðslu, hérlendis og víðar í heiminum.“