„Við eigum fjögur börn á aldrinum 4–15 ára sem öll hafa alist upp við það að skemmta sér víðs vegar um landið um verslunarmannahelgina í vernduðu umhverfi með endalausri afþreyingu og skemmtun. Það sem okkur finnst frábært er að það er svo margt í boði sem ekki er endilega verið að gera um hverja helgi allt sumarið. Þetta er ekki „enn eitt íþróttamótið“ heldur er þetta sannkölluð fjölskylduhátíð,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir frá Höfn í Hornafirði.

Beðið eftir að verða 11 ára

Tvö eldri börnin í fjölskyldunni æfa fótbolta og körfubolta. Jóhanna Íris segir mestu spennuna vera fyrir því að taka þátt í greinum sem ekki er verið að æfa. Þau hafi þess vegna tekið þátt í mörgu ólíku eins og upplestri, strandblaki, strandhandbolta, kökuskreytingum, pílukasti, bogfimi og frjálsum íþróttum.

„Það hefur fylgt því mikil tilhlökkun að verða 11 ára og mega loksins taka þátt í keppninni. Nú bíður sá sem er 7 ára á kantinum og telur niður í 11 ára afmælið. Yngri strákarnir tveir sitja þó ekki aðgerðalausir því nóg er um að vera fyrir systkini sem ekki hafa náð keppnisaldrinum. Við foreldrarnir skemmtum okkur svo konunglega með börnunum í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur. Við sameinumst líka á skemmtidagskránni á kvöldin þar sem fjöldinn allur af tónlistarfólki kemur fram. Þar er oft mikið stuð,“ heldur Jóhanna Íris áfram.

Jóhanna Íris á fjögur börn og allir bíða spenntir eftir Unglingalandsmótinu.

Mælir með tjaldsvæðinu

Fjölskyldan hefur bæði verið á tjaldsvæði mótsins og í gistingu annars staðar. Tjaldstæðin eru merkt hverju íþróttahéraði. Aðgangur fyrir alla fjölskylduna að tjaldstæðinu er innifalinn í þátttökugjaldi mótsins og eins öll önnur afþreying. Jóhanna Íris mælir með því að fjölskyldur tjaldi því þar myndast oft skemmtileg stemning.

„Það sem einkennir þessa frábæru fjölskylduhátíð er gleði. Það er alltaf gaman, alveg sama hvort keppandi er 11 ára eða eldri. Allir geta tekið þátt á sínum forsendum. Okkur finnst svo skemmtilegt að krakkarnir eru ekki í harðri keppni heldur er vinátta og gleði í fyrirrúmi. Krakkarnir hafa þess vegna eignast marga nýja vini eftir mótin,“ segir hún og rifjar upp að í minningunni lifi ekki veðrið eða úrslit í einstökum greinum heldur ánægjan af mótinu.

„Það er því aldrei spurning á okkar heimili hvar við munum eyða verslunarmannahelginni. Við mælum svo sannarlega með því að fjölskyldur skelli sér á Unglingalandsmót UMFÍ og skemmti sér saman í vernduðu umhverfi með gleðina í fararbroddi,“ segir Jóhanna Íris.