Arctic trucks hafa hingað til sérhæft sig í jeppum og breyttum bílum. Nú er stefnan að bjóða einnig upp á þjónustu og dekk fyrir jepplinga. Áherslan er á dekk sem henta bæði innanbæjar og í ævintýramennskuna.

Arctic trucks bættu nýlega við dekkjaúrvalið hjá sér nýju vörumerki sem heitir Pro Comp. Það er frá amerískum framleiðendum sem framleiða jeppadekk í stærri stærðum og allt niður í stærðir fyrir jepplinga. Önnur dekk sem fáanleg eru hjá Arctic Trucks eru amerísku Dick Cepek-dekkin, Nokian jeppadekk og sérhannaða AT 405 dekkið.

„Hingað til höfum við lagt mesta áherslu á stóra jeppa og breytta bíla. En helsta breytingin hjá okkur núna er að við höfum verið að færa okkur niður á við. Okkur langar að hafa meira úrval í minni stærðum líka og þá fyrir jepplinga líka. Við ætlum að færa okkur í það af fullum krafti í haust en við erum aðeins byrjaðir að þreifa á því núna. Við getum þjónustað jepplinga í dekkjum og erum komin með einhverja flóru af dekkjum á lager nú þegar,“ segir Stefán Þór Jónsson, verslunarstjóri hjá Arctic Trucks.

„Með því að taka inn Pro Comp erum við að fá í sölu nýtt 40 tommu jeppadekk sem er frekar vinsæl stærð hér heima núna. Svo fáum við líka alla flóruna niður í minni jeppa og jepplingastærðir. Við erum að fá tvö mynstur frá Pro Comp. Annað er gróft mynstur sem heitir Xtreme og hitt er fínmynstrað heilsársdekki sem heitir AT sport. Það hefur vantar svona fínmynstrað stórt jeppadekk í flóruna okkar.“

Stefán segir einnig vert að nefna Nokian 44 tommu dekkin sem eru það nýjasta nýtt í ofurjeppamennsku.

„Þetta eru 44 tommu radial dekk sem hafa verið að ryðja sér til rúms hér síðustu þrjú árin. Þau hafa náð að sanna sig almennilega við íslenskar aðstæður undanfarna vetur. Það er gríðarlega mikil ánægja með þessi dekk og eftirspurn.“

Notendavæn allt árið

„Okkar áherslur liggja í dekkjum fyrir þetta venjulega íslenska jeppafólk. Óháð því hvort það er í vetrarferðamennsku eða sporttýpur sem eru í fjallamennsku eða ævintýramennsku og vilja vera á þægilegum bíl innanbæjar sem hefur samt eitthvað grip og getu,“ útskýrir hann.

„Svo erum við líka með mjög sérhæfð dekk, eins og Nokian dekkin sem eru sérstaklega hugsuð fyrir snjókeyrslu. Þar sem við tókum þátt í hönnuninni á því dekki þá er það líka gert með það í huga að það sé notendavænt allan ársins hring. Það hefur í raun breytt jeppamennskunni hér heima þessi síðastliðin þrjú ár sem við höfum verið með það. Því núna eru þessir ofurjeppar, sem varla voru keyrandi innanbæjar, orðnir hversdagsjeppar líka. Þessi dekk eru hljóðlát, þægileg í keyrslu en samt yfirburðadekk í drifgetu við flestar aðstæður.

Arctic Trucks hefur framleitt dekk undir eigin merkjum frá árinu 2005. Stefán segir að allan þann tíma hafi verið reynt að gera þau þannig úr garði að hægt sé að vera með bíl sem er þægilegur í notkun allan ársins hring.

„Við viljum að hvort sem þú ert að fara á malarveg, jökul eða keyra innan bæjar þá getirðu alltaf verið á sömu dekkjum og verið klár í slaginn,“ segir hann og bætir við að Arctic Trucks bjóði einnig upp á mikið úrval af felgum fyrir flestar gerðir jeppa.