Þegar komið er að bílslysi er mikilvægt að stoppa, koma í veg fyrir frekari slys eins og hægt er, huga að eigin öryggi, kanna ástand á fólki og hringja svo sem fyrst í 112,“ segir Vilhjálmur Halldórsson, neyðarvörður hjá Neyðarlínunni, sem stendur vaktina hjá Neyðarlínunni og er einn þeirra sem svara þegar hringt er í 112.

Þegar hann er inntur eftir því hvað þurfi að koma fram í samskiptum við Neyðarlínuna þegar komið er að bílslysi utan þéttbýlis kemur í ljós að fyrst og fremst þarf að koma fram staðsetning, eins nákvæm og hægt er.

„Neyðarvörður fer svo yfir gátlista til að greina erindið eins hratt og hnitmiðað og kostur er og boðar samhliða viðeigandi viðbragð, svo sem sjúkrabíla. Innhringjandi er í raun augu neyðarvarðarins á vettvangi og reynir hann að byggja upp mynd af því sem gerðist með því að spyrja ýmissa spurninga sem mikilvægt er að þeir sem koma að slysum svari eftir bestu vitund,“ segir Vilhjálmur.

Fyrst er farið í áverkaferlið, hvernig árekstur og ökutæki um er að ræða, fjöldi ökutækja, fjöldi slasaðra og óslasaðra og hvort einhver er fastur í bíl.

„Því næst er spurt út í ástand fólks, aldur, kyn, meðvitund, öndun og áverka. Reynt er að greina hvort um háorkuslys er að ræða en slíkt kallar á aukið viðbragð. Spurt er hvort einhver hafi kastast út úr bíl, hvort bílarnir séu mikið skemmdir, hvort um bílveltu er að ræða, blésu loftpúðar út, var ekið á gangandi vegfaranda o.s.frv. Einnig er reynt að greina sjáanlegar hættur á vettvangi til að tryggja öryggi viðbragðsaðila og annarra vegfarenda, til dæmis hvort það er frekari slysahætta, eldsneytisleki, hættuleg efni, eldur o.s.frv. Að lokum fær innhringjandi leiðbeiningar um hvað hann getur gert þar til fyrstu aðilar koma á vettvang,“ upplýsir Vilhjálmur.

Hann bendir á að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir frekari slys, með t.d. viðvörunarþríhyrningi, kveikja á hættuljósum annarra bíla, svissa af bílum sem lentu í slysinu, standa ekki á götunni og jafnvel stöðva umferð. „Einnig er fólki leiðbeint með að meðhöndla áverka þeirra sem lent hafa í slysi, hafa í huga að hreyfa slasaða sem minnst, opna öndunarveg, stöðva blæðingar og skýla slösuðum fyrir veðri og vindum. Nú er mögulegt að senda Neyðarlínunni myndir af vettvangi og getur það hjálpað mikið við greiningu,“ segir Vilhjálmur.

Þegar hann er beðinn um góð ráð fyrir bílstjóra til að forðast slys og óhöpp segir Vilhjálmur að besta leiðin til að þess sé að haga akstri eftir aðstæðum, keyra ekki of hratt, vera allsgáður undir stýri og láta símann alveg eiga sig. „Svo er skynsamlegt að skoða veðurspá og ástand vega þegar lagt er upp í langferð,“ minnir hann á að lokum.