„Ég fékk bara hugljómun einn daginn; að selja Íslendingum spænskar draumaeignir í gegnum Lind fasteignasölu. Mér þótti tímabært að færa þessi fasteignaviðskipti heim, svo að landsmenn gætu labbað inn á hefðbundna, íslenska fasteignasölu í okkar stærðarflokki, sem fylgir bæði reynsla, traust og öryggi. Það eru nefnilega ekki allir sem treysta sér í fasteignakaup erlendis eða til að fara utan að ganga frá kaupunum, heldur vilja styrka leiðsögn fasteignasala hér heima sem sjá um málið frá A til Ö, og í samstarfi við jafn reynda fasteignasala ytra, eins og Kristján Sveinsson á Spáni,“ segir Kristján Þórir Hauksson, einn eigenda fasteignasölunnar Lindar.

Í framhaldinu hringdi Kristján Þórir í nafna sinn Kristján Sveinsson sem um árabil hefur rekið fasteignasöluna Novus Habitat á Spáni með góðum árangri.

„Mér leist strax vel á nafna minn og það sem hann stendur fyrir á Spáni, en Kristján hefur einmitt aðstoðað íslenska fasteignakaupendur á Costa Blanca og Costa Cálida strandlengjunni um áralangt skeið. Novus Habitat sérhæfir sig í sölu nýbygginga á svæðinu og aðstoðar Íslendinga við að finna réttu eignina,“ upplýsir Kristján Þórir á Lindum sem er ein þriggja stærstu fasteignasalna landsins.

„Það gefur Lind mikla vigt að hafa nú bætt við sig sölu á fasteignum á Spáni. Eftirspurnin er mikil og margir taka því fagnandi að geta gengið frá formsatriðum hér heima. Við héldum sölusýningu í lok apríl sem margir sóttu og nú þegar hafa margir skráð sig í skoðunarferðir til Spánar, þar sem Kristján tekur á móti þeim. Við erum himinlifandi með samstarfið við Novus Habitat því við vildum auka og bæta aðgengi fólks í kaupferlinu hér heima,“ segir Kristján Þórir sem er nú sjálfur staddur í skoðunarferð á fasteignum með Kristjáni, nafna sínum á Spáni.

„Áhugi Íslendinga á spænskum fasteignum er alltaf að aukast og hópurinn að yngjast, allt niður í fertugt og fimmtugt.

Litlar íbúðir í fjölbýlishúsum og minni séreignir eru vinsælustu eignirnar nú.
Hér má sjá stærsta manngerða lón í Evrópu sem er í Santa Rosalia, umkringt risastórum íbúðakjarna sem er einn sá vinsælasti hjá Novus Habitat.

Fyrsta skrefið heima mikilvægt

Kristján Sveinsson hjá Novus Habitat segir samstarfið við Lind til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur sem hyggja á fasteignakaup á Spáni.

„Því fylgja sannkölluð þægindi að geta tekið fyrsta skrefið heima á Íslandi; að geta farið í Lind eftir að hafa fundið draumaeignina á söluskránni, sest þar niður í rólegheitunum og farið yfir hlutina áður en ákvörðun er tekin um að fara út í skoðunarferð. Það gefur þessu samstarfi mesta vægið,“ segir Kristján sem verið hefur búsettur á Torrivieja-svæðinu síðan 2016.

„Það er einfaldlega æðislegt líf að búa hér á Spáni og enginn á leiðinni til baka. Áhugi Íslendinga á því að kaupa sér fasteign á Spáni hefur aukist gríðarlega og það er greinilega uppsöfnuð þörf eftir tvö ströng Covid-ár. Það er mikil sala og að undanförnu hafa tveggja til þriggja herbergja íbúðir í fjölbýlishúsum með sundlaugakjarna verið vinsælastar, sem og minni sérbýli,“ greinir Kristján frá.

Þegar Kristján og Birna Guðmundsdóttir, eiginkona hans, stofnuðu Novus Habitat settu þau sér strax markmið um að eiga samstarfsaðila í fleiri löndum.

„Við eigum þegar í samstarfi við fasteignasölur í Belgíu, Frakklandi og Hollandi og gerum nú eins á Íslandi. Við fáum styrk frá Lind sem eru fagmenn fram í fingurgóma og finnum strax fyrir miklum áhuga og þunga frá þeim. Fólk kann því vel að þessar fasteignasölur séu í samstarfi beggja vegna hafsins og að hægt sé að leita til okkar, hvort sem það er á Íslandi og Spáni. Því fylgir öryggi og traust sem fólk hefur til íslenskrar fasteignasölu sem vandar sig í hvívetna og fylgir málum eftir heima þar til við tökum við boltanum hér úti,“ segir Kristján sem sækir Íslendinga í fasteignaleit á flugvöllinn í Alicante, fylgir þeim á hótel og flakkar með þá á milli hverfa og eigna næstu fimm til sjö dagana ytra.

„Við sjáum um allt sem þarf að gera og allan frágang. Við tökum eftir að undanfarið er fólk að minnka við sig heima og kaupa sér eign erlendis, enda gott að selja á Íslandi um þessar mundir og fasteignasverð hagstætt á Spáni. Verðið hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin ár og spá greinendur því að markaðsvirði fasteigna við strandlengju Spánar fari hækkandi á komandi árum,“ upplýsir Kristján í Novis Habitat.

Hann segir suma kaupa sér eign til að flytja til Spánar á meðan aðrir kaupi til að vera með annan fótinn í sól og sumaryl.

„Enn fremur kaupir fólk til að fjárfesta í framtíðareign og leigir eignina um skeið til að borga niður fjárfestinguna og fullnýta eignina síðar meir,“ segir Kristján, og þess má geta að aðgengi að fjármögnun á hagstæðum kjörum er tiltölulega auðsótt með þjónustu reynsluríkra fasteignasala á svæðinu, eins og Novus Habitat.

Nafnarnir og löggiltu fasteignasalarnir Kristján Sveinsson og Kristján Þórir Hauksson eru sælir og sáttir með samstarfið, sem þeir segja til mikilla hagsbóta og þæginda fyrir Íslendinga í leit að fasteignum á Spáni. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Mæta þörfum hvers og eins

Dæmigerð skoðunarferð til Spánar hefst í höfuðstöðvum Novus Habitat í Benijófar. Þar er farið yfir hvaða fasteignir eru í boði og lögð drög að því hvaða eignir verða heimsóttar áður en farið er í skoðunarferðir í mismunandi hverfi sem henta hverjum og einum.

„Ef fólk finnur draumaeignina aðstoðum við við allt kaupferlið, stofnun bankaviðskipta, sækjum um spænska kennitölu (N.I.E.-númer) og fylgjum ferlinu alla leið. Að taka fyrsta skrefið í fasteignakaupum á Spáni þarf því ekki að vera svo flókið og enn hægara verður nú um vik að taka fyrsta skrefið hjá Lind þar sem við byrjum að leggja línurnar að skoðunarferð og mætum þörfum hvers og eins.“

Fasteignasölurnar Lind og Novus Habitat leggja mikið upp úr alhliða þjónustu við íslenska fasteignakaupendur, allt frá frágangi kaupsamnings, fjármögnun, að koma eigninni í leigu hluta af ári, sé þess óskað, og meira að segja aðstoðar Novus Habitat við stofnun og uppbyggingu viðskiptatækifæra á Spáni.

„Við leggjum okkur fram um að velja eignir hjá byggingaraðilum sem við þekkjum vel til og treystum til að vera með allt sitt í lagi. Við bjóðum líka upp á alla aðstoð við að innrétta og fullbúa eignina húsgögnum og getum boðið þjónustu frá íslenskum innanhússhönnuði ef kaupandi kýs það,“ upplýsir Kristján hjá Novus Habitat.

„Þegar kemur að afhendingu eignar fer Novus Habitat yfir eignina til að ganga úr skugga um að allt sér með felldu og eins og samið var um. Við leggjum fram öll gögn þannig að viðskiptavinurinn veit nákvæmlega hver kostnaðurinn er við kaupin frá upphafi, og því er enginn óvæntur kostnaður eða gjöld. Við leggjum einnig fram kostnaðaráætlun um árleg útgjöld eftir að kaup eiga sér stað.“

Allar nánari upplýsingar má finna á fastlind.is og novushabitat.es

Torrevieja er vinsælasta búsetusvæði Íslendinga á Spáni.