Sjúkraþjálfarar koma gjarnan snemma inn í endurhæfingarferlið. Þeir starfa meðal annars á gjörgæslu sjúkrahúsanna og koma að allt frá akút tilfellum til langtímameðhöndlunar,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaðurFélags sjúkraþjálfara.

Hópurinn sem leitar til sjúkraþjálfara einhvern tíma á lífsleiðinni er glettilega stór. „Í fyrra komu 55.092 einstaklingar í þjálfun eða meðferð til sjúkraþjálfara sem er rúmlega 1/6 hluti þjóðarinnar. Þá erum við eingöngu að tala um almenning sem misstígur sig, lendir í bílslysi eða finnur til í bakinu. Þá eru ótaldir þeir sem njóta þjónustu sjúkraþjálfara á spítölum, öldrunarheimilum og endurhæfingarstofnunum.“

Fagið hefur tekið breytingum í áranna rás, en sjúkraþjálfunarfagið sem slíkt varð til í Evrópu við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og á Íslandi í kjölfar mænuveiki-faraldursins 1955. Gríðarmiklar framfarir í læknisfræði endurspeglast í sífellt vaxandi þörf fyrir hágæða endurhæfingu og sérhæfing er því talsverð innan fagsins. „Þegar ég hóf störf sem sjúkraþjálfari fyrir 30 árum var endurhæfing þeirra sem læknuðust af krabbameini lítil. Þá var bara spurning hvort sjúklingur lifði eða dó. En í dag er endurhæfing þeirra sem greinast með krabbamein gjarnan lykilatriði í því að fólk öðlist lífsgæði á ný.

Það kemur einnig sífellt betur í ljós að hugi og líkami eru síður en svo aðskilin fyrirbæri. Afleiðingar andlegra kvilla eru oft hreyfingarleysi og léleg líkamleg heilsa. Og að kljást við stoðkerfis- og verkjavandamál getur hæglega valdið slæmri andlegri líðan.“ Að sögn Unnar eru stærstu heilbrigðis-áskoranir framtíðarinnar af völdum lífsstílssjúkdóma og öldrunar þjóðanna og í þeim efnum er ljóst að gott aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara mun verða lykilatriði í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar. „Lykillinn í okkar starfi er ekki endilega að bæta árum við lífið heldur að bæta lífi við árin.“

Ný áskorun

Nýjasta áskorun stéttarinnar er að taka á móti fólki sem nær sér seint og glímir lengi við eftirköst COVID-19 sjúkdómsins. „Einnig hafa aukist tilfelli þar sem fólk þjáist af stoðkerfisvandamálum vegna hreyfingarleysis af völdum ýmist endurtekinna sóttkvía eða langvinnrar heimavinnu. Önnur tilfelli stafa af því að þjónusta við fatlaða og aldraða hefur fallið niður vegna faraldursins, eða að einstaklingar í áhættuhópum óttast smit og sækja sér því ekki nauðsynlega þjónustu. Það er ekkert verra fyrir líkamann en hreyfingarleysi og rúmlega og því brýnt að þeir sem eru þessa dagana mikið heima við hugi vel að því að stunda alla þá hreyfingu sem þeir eiga kost á. Að sama skapi að þeir sem hafa veikst hugi vel að því að fara rólega af stað og ætli sér ekki um of.