Ef til vill verður grafskriftin mín: KBH – frekar þolinmóð móðir,“ segir Katrín Brynja Hermannsdóttir kímin. „Ég er jú fyrst og fremst mamma þriggja ótrúlega vel heppnaðra stráka sem ég hafði hrikalega mikið fyrir að eignast. Þar liggur mögulega skýringin á bak við þolinmæði mína gagnvart boltaæfingum, boltaförum á veggjum og hávaða sem berst um heimilið þegar vel eða illa gengur í PlayStation.“

Þannig lýsir Katrín Brynja sjálfri sér. Hún hefur búið um allt land, lengst af á höfuðborgarsvæðinu.

„Í grunninn er ég hins vegar stoltur Norðfirðingur og á þaðan góðar og hlýjar minningar þar sem meðal annars bryggjur og berjamór koma við sögu.“

Katrín Brynja kveðst með eindæmum heimakær.

„Best finnst mér þegar ég næ öllum strákunum mínum við eldhúsborðið og það myndast þessi dýnamík sem foreldrar þrá að eiga sem mest af með börnum sínum. Við spilum og erum öll nema miðjumaðurinn mjög tapsár með tilheyrandi svekkelsi, stríðni og skellihlátri,“ segir Katrín Brynja, hlær og heldur áfram:

„Ég ætla annars ekki að tefla fram neinni glansmynd af okkar lífi. Við erum bara týpísk fjölskylda sem á í sama streði og flest önnur heimili, í sambandi við skjátíma og allt hitt sem enginn nennir að tala um. Eða jú annars! Það nálgast fullkomnun þegar við erum úti á palli við eldstæðið og masterum að grilla hinn fullkomna sykurpúða, okkar eigin fullkomnun.“

Katrín Brynja nýtur þess að ganga á fjöll og sameinast íslensku landslagi. Í sumar gekk hún yfir Fimmvörðuháls.

Sálarleikfimi líka mikilvæg

Leið Katrínar Brynju liggur í Laugar þegar hún ræktar líkamann.

„Þangað fer ég eins oft og mér er unnt til að hitta þjálfara sem gefur engan afslátt, svona gott-vont dæmi. Síðustu vikur hefur mér orðið starsýnt á lóð á gólfinu og ég þurrka stundum af þeim, en reyni hins vegar að hlaupa eins oft og ég nenni, sem er alls ekki nógu oft. Ég stefni af malbikinu yfir í Heiðmörk sem er vandræðalega nálægt heimilinu okkar. Það strandar hins vegar á því að ég er með óratvísustu manneskjum veraldar og þyrfti að strá brauðmolum til að rata aftur heim.“

Hún segir sálarleikfimi ekki síður mikilvæga.

„Ég rækta sálina að hluta til með því að sniðganga glansandi samfélagsmiðla, sem þó eru líka stútfullir af góðu efni. Á Instagram eru til að mynda frábærar síður sem geta sannarlega komið manni á rétta sporið og hænuskrefi nær markmiðinu að þroskast sem manneskja. Hugleiðsla hefur líka komið skemmtilega á óvart og ég er loksins búin að ná því að „hér og nú-vöðvinn“ þarfnast þjálfunar eins og allir hinir.“

Katrín Brynja með góðri vinkonu sinni, Kolbrúnu Björnsdóttur, fjallagarpi og leiðsögumanni á Fimmvörðuhálsi. MYND/AÐSEND

Auðgar sitt líf og annarra

Katrín Brynja er ævintýramanneskja að upplagi. Í sumar gekk hún yfir Fimmvörðuháls, sem hún segir hafa verið áskorun.

„Ég get ekki lýst upplifuninni öðruvísi en þannig að mig langaði strax að fara aftur, til að renna saman við þessa gömlu jörð með tryllta landslaginu okkar. Fjallgöngur eru því augljóslega efst á listanum og svo suða ég líka í vinkonum að koma aftur með mér í sjósund, því eftir þetta eina skipti sem ég fór í sumar var ég „high on life“ það sem eftir lifði dags og hver vill það ekki?“ segir Katrín Brynja um áhugamál sín.

„Sú lágstemmda athöfn að skrifa texta og taka viðtöl við mér vitrara fólk er svo það sem ég brenn fyrir og þegar ég kemst í zone-ástand, þá mætir þakklætistilfinning til leiks með öllu því góða sem henni fylgir.“

Þjóðin þekkir Katrínu Brynju best sem sjónvarpsþulu og síðar Lottóþulu en hún hefur líka starfað sem flugfreyja og kennari.

„Allt eru þetta skemmtileg störf, en í raun skiptir fólkið sem maður vinnur með mestu máli. Tíminn hjá Icelandair var ómetanlegur að því leyti að vinnan var skemmtilega krefjandi og annan eins fjölda af bráðsniðugu og kláru fólki er erfitt að komast í tæri við, nema einmitt í því starfi. Sjónvarpsvinnan er líka frábær og ekki síst allt fólkið á RÚV. Þá finnst mér kennslan líflegt og gefandi starf sem togar sífellt meira í mig. Það er eitthvað einstakt við það að vera í samskiptum við nemendur á öllum aldri,“ segir Katrín Brynja sem er langskólagengin, með háskólanám að baki hér heima og ytra í kennsluréttindum, blaðamennsku og sálfræði.

„Það er bara fáránlega gaman að læra nýja hluti og um miðjan september trítlaði ég með skólatösku inn í Endurmenntun HÍ til að læra jákvæða sálfræði. Ég sé ekki eftir því enda er nýr heimur að opnast fyrir mér og allt annar vinkill þegar kemur að sálfræði, hvernig við getum auðgað líf okkar og annarra. Það ættu allir að læra jákvæða sálfræði og hún ætti svo sannarlega að vera partur af uppeldi og ekki síst kennslu í skólum landsins.“

Katrín Brynja brölti upp á Helgafell í tjullpilsi, bara til að hafa notað blessað pilsið allavega einu sinni. MYND/AÐSEND

Mamma reddar þessu

Meðal margra starfsheita Katrínar Brynju er „Mamma reddar þessu“ og ritstjórn hjá „Vildi sagt hafa“.

„Mamma reddar þessu ehf. var meira í gríni gert, því sem þriggja stráka mamma með lítið bakland þarf að redda alls konar hlutum, stórum sem smáum, og ekkert annað í stöðunni en að stóla á mig sjálfa. Ritstjórastaðan hjá „Vildi sagt hafa“ tengist svo óslökkvandi áhuga mínum á öðru fólki og pælingum um hversu dýrmætt samtalið er við fólkið okkar. Bæði mamma og pabbi eru látin og það sem ég hefði viljað hafa sagt við þau er margt, og eins hefði ég viljað vita svo miklu meira um þau. Gangi allt að óskum mun lénið vildisagthafa.is lifna við og ég get lagt mitt af mörkum til annarra.“

Spakmælin „Einu sérfræðingarnir í mér og þér eru börnin í lífi okkar. Þau vita hvaða mann við höfum að geyma“ eru í hávegum höfð á fésbókarsíðu Katrínar Brynju.

„Þessi orð eru fengin að láni hjá Bjarna Karlssyni presti og segja svo margt – eiginlega bara allt, hvernig sem á það er litið. Eflaust er ég bara dæmigerð mamma, fullkomlega ófullkomin að reyna mitt allra besta og með brjálæðis­lega mikla þörf fyrir tengsl og knús,“ segir Katrín Brynja.

„Ég hef stundum sagt að það verði „áhugavert“ í fyllingu tímans að heyra hvað strákarnir segja um hvar ég hafi klúðrað hlutum, hvar ég stóð mig vel og var bara dáldið góð í þessu.“

Katrín Brynja segir Feel Iceland kollagen komið til að vera í sínu mataræði. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Undraverð áhrif kollagens

Katrín Brynja var blessuð með góðu hári í vöggugjöf en segist hafa fengið áhyggjur þegar hún fékk ótæpilegt hárlos fyrr á árinu.

„Ég ræddi það við mína frábæru hárgreiðslukonu sem tók undir að hárið á mér hefði verið talsvert þykkara og því væri full ástæða til að gera eitthvað í málinu. Sjálf sagðist hún taka inn kollagen með góðum árangri og hvatti mig til að prófa. Skeptíska konan ég, á allt sem heitir bætiefni, hugsaði þetta ekki lengi enda var stútfullur hárbursti af hárum dagleg staðreynd. Ég leit svo á að það væri enginn tími fyrir tilraunastarfsemi með bætiefnum sem ég hafði prófað áður svo í næstu búðarferð gekk ég rakleiðis að kollageninu frá Feel Iceland. Dunkurinn lenti á færibandinu og ég var varla komin heim þegar fyrsti skammturinn var kominn í bústið mitt.“

Þetta var nú í haust og fann Katrín Brynja breytingu til batnaðar á aðeins rúmum mánuði.

„Það var eitthvað sem ég átti alls ekki von á. Ég hef alltaf haft ömurlegar og linar neglur, þær flögnuðu í sífellu, en voru allt í einu orðnar hæfilega stífar og viti menn, ég gat ekki lengur flett ofan af þeim! Ég rauk í spegilinn og rýndi í hársvörðinn en sá ekki mikið, enda frekar erfitt að skoða hann bara alein. Hins vegar næst þegar ég sat í sminkstólnum á leið í Lottóúrdrátt og sminkan, sem er líka hárgreiðslukona, greiddi mér sá hún fullt af nýjum, litlum hárum. Það var því spennt Lottóþula sem lagðist á koddann þetta laugardagskvöld og þungu fargi af mér létt!“

Katrín Brynja setur kollagenið út í búst eða skyrrétt með banana, berjum og dassi af chia-fræjum.

Kollagenið fer hvergi

Katrín Brynja hefur nú tekið Feel Iceland kollagen í tæpa þrjá mánuði.

„Fyrir utan gjörbreyttar neglur og litlu hárin mín hef ég tekið eftir að ég þarf ekki lengur að bakka niður stigann heima hjá mér eftir erfiða fótaæfingu, sem hlýtur að þýða að ég sé fljótari að ná mér eftir æfingar. Mér er líka minna illt í hnjánum, sem vanalega kvarta sáran þegar ég hef verið óvenju dugleg að hlaupa á malbiki. Kollagenið frá Feel Iceland verður því áfram partur af mínu lífi og ekki sakar hvað umbúðirnar eru vel hannaðar; vel gert, stelpur! Sem Íslendingur, ættuð úr sjávarplássi með sjómannsblóð í æðum, finnst mér líka skipta heilmiklu máli að innihaldsefni Feel Iceland kollagensins sé íslensk náttúruafurð.“

Katrín Brynja setur kollagenið oftast út í búst, en þegar hún er á hlaupum og hefur ekki tíma í bústgerðina setur hún það saman við vatn með smá vanillu- eða jarðarberjaprótíni, dassi af chia-fræjum og hristir saman á hlaupum út í bíl.

„Oftast slumpa ég skyri eða mjólk, banana og þeim frosnu berjum sem ég á hverju sinni í blandarann og set kollagenið síðast út í. Í byrjun passaði ég alltaf upp á að ég sæi kollagenið berum augum því ég vildi að það færi örugglega ofan í mig, en nú erum við litlu hárin rólegri og þetta fer í blandarann með jarðarberjunum og því öllu.“

Sjá nánar um Feel Iceland kollgen á feeliceland.com

Feel Iceland kollagen hefur haft frábær og víðtæk áhrif á Katrínu Brynju.